4. tbl. 107. árg. 2021

Umræða og fréttir

Meðhöndlar börn á mörkum lífs og dauða, - Kristbjörg Sveinsdóttir er yfirlæknir á nýburadeildinni á Skáni

Kristbjörg Sveinsdóttir, yfirlæknir þriðju stærstu nýburadeildarinnar í Svíþjóð, segir lækna sína stöðugt fást við siðferðisspurningar. Yngstu börnin á deildinni fæðist á 22. viku meðgöngunnar

Læknablaðið · Kristbjörg Sveinsdóttir - viðtal í apríl 2021

viðtal

„Fyrirburarnir verða minni og minni. Við vinnum oft á mörkum lífs og dauða,“ segir Kristbjörg Sveinsdóttir, yfirlæknir á háskólasjúkrahúsinu á Skáni í Svíþjóð. Siðferðislegar spurningar tengdar starfinu séu tíðar.

„Við þurfum stöðugt að spyrja okkur hvað sé barninu fyrir bestu. Hjá okkur deyja milli 20-30 börn á ári og mörg einfaldlega af þeirri ástæðu að við hættum meðferð. Þannig er það í nýburalækningum. Börnin eiga ekki öll von um innihaldsríkt líf.“

Kristbjörg Sveinsdóttir, yfirlæknir á háskólasjúkrahúsinu á Skáni, segir minnstu börnin sem fæðist á þessari þriðju stærstu nýburadeild Svíþjóðar aðeins vega um hálft kíló. Mynd/Therese Olsson

Kristbjörg segir þekkinguna þróast stöðugt og meðferðarreglurnar því oft endurskoðaðar. „En grunnreglan er þó sú að við gerum það sem er barninu fyrir bestu,“ segir hún. „Hér í Svíþjóð erum það við læknarnir sem tökum ákvörðun. Það er ekki sett á herðar foreldranna. Við eigum síðasta orðið.“

Með foreldrana sér við hlið

Kristbjörg segir ákvarðanirnar nánast í öllum tilfellum teknar í samvinnu við foreldrana. „Við erum með fjölskyldumiðaða meðferð þar sem foreldrarnir taka virkan þátt í umönnun barna sinna frá fyrsta degi.“ Markmiðið sé að þeir þekki barnið sitt best.

„Svo erum við með siðaráð þar sem fagfólk, læknar og siðfræðingar, sitja, og við ræðum hvernig við höldum áfram.“ Hún taki aldrei ákvörðun ein. „Við læknarnir erum dugleg að taka fund, setjast niður og fara í gegnum hvað hægt sé að gera.“

Hún lýsir því að börn fæðist á deildinni frá 22. viku meðgöngu. Þau minnstu, nokkur á ári, séu um 500 grömm. „Svo erum við líka með fullbura sem fæðast með galla eða sýkingar af einhverju tagi.“

Hvernig inngrip þarf í svo litla kroppa? „Við gerum ekki skurðaðgerðir á deildinni, en setjum línur og leggi til að geta gefið lyf og tekið prufur. Við gerum einnig vissar ómskoðanir en skurðaðgerðirnar gera barnaskurðlæknar.“ Hún segir þær oft nauðsynlegar. „Þetta eru svo óþroskuð börn og því getur margt gerst.“

Úti í á annan áratug

Kristbjörg hefur verið í Svíþjóð frá árinu 2006 og fetaði þar í fótspor systur sinnar, Helenu Sveinsdóttur, lýtalæknis. Snjólaug Sveinsdóttir, nýburalæknir á Landspítala, og vinkona hennar sögðu henni frá lausum stöðum þegar hún var í Malmö og hvöttu hana til að koma.

„Þá var orðið tímabært að skipta um bíl og íbúð, svo það var ekkert annað að gera en skipta um umhverfi líka og drífa sig,“ segir hún og lýsir því hvernig tækifærið hafi gefist til að leiða nýburadeildina á háskólasjúkrahúsinu á Skáni þegar sjúkrahúsin í Lundi og Malmö voru sameinuð í eitt árið 2013. Fyrst var hún yfir deildinni í Malmö en tók svo einnig við Lundi árið 2016. „Við erum með vökudeildir á báðum stöðum.“

Sameiningin hafi verið krefjandi svo finna hafi þurft nýjan yfirmann. Kristbjörg var hvött til að sækja um enda þekkti hún báðar deildirnar vel og hreppti starfið. „Þetta hefur gengið vel,“ segir hún en hún var hálfnuð með doktorsverkefni sitt þegar staðan bauðst. „Ég viðurkenni að maður getur verið fastur í þeirri skoðun að yfirlæknir eigi að vera eldri, en auðvitað er það ekki þannig,“ segir hún. „Svo ég skellti mér á þetta.“

Er engin fyrirstaða að vera íslensk þegar kemur að stöðuveitingum í Svíþjóð? „Nei,“ svarar hún ákveðið og við ræðum deildina hennar sem hún segir á sama sviði og barnaskurðlækna og hjartalækna.

Íslensk börn komi til Lundar

„Hjartaaðgerðir á börnum eru aðeins gerðar á tveimur stöðum hér í Svíþjóð. Sjúkrahúsið í Lundi er annar staðurinn, svo við erum með þónokkur börn með meðfædda hjartagalla.“ Hún segir íslensk börn sem fæðast með hjartagalla koma til Lundar. Einnig börn með tiltekna fæðingargalla. „Þótt öll börnin séu lítil og nýfædd er vandinn fjölbreyttur, sem gerir fagið heillandi.“

Eiga þessir litlu hnoðrar von um að vaxa og dafna á heilbrigðan máta? „Já, mörg þeirra,“ segir Kristbjörg. „Meirihluti minnstu fyrirburanna, þeir sem eru fæddir fyrir viku 28, eiga gott og nokkuð frískt líf fyrir höndum.“ Horfurnar séu betri fyrir hverja viku sem barn dvelji í móðurkviði. „Þau sem fæðast í 22. og 23. viku hafa minnstu líkurnar. Samt lifa yfir 60% þeirra af og meirihlutinn verður frískur.“

En vaxa börnin á spítalanum eins og þau væru í móðurkviði? „Þetta er hugsað þannig. Við höfum næringarprógrömm sem miða að vextinum. Maður reiknar prótín og kaloríur svo þau vaxi eins og þau hefðu gert í móðurkviði.“ Hún sjái betur og betur hvað næringin geri fyrir öll líffærakerfin.

„Ekki aðeins fyrir vöxtinn heldur fyrir heilann, augun, lungun og allt annað,“ segir hún. Prótín, sykur og fita. „Þetta er ekkert grænfæði,“ segir hún og hlær.

Kristbjörg kláraði doktorsritgerð sína meðfram starfinu sem yfirlæknir á nýburadeildinni. Það hafi ekki verið neitt sérstakt kombó. Mynd/Therese Olsson

Alls eru 10 gjörgæslupláss fyrir nýbura á deildinni, 20 hágæslupláss og að jafnaði um 25 börn í heimaþjónustu. „Svo höfum við flutningsteymi sem sækir veikustu börnin sem fæðast í Suður-Svíþjóð og þurfa gjörgæslumeðferð.“ Hvert barn staldri mislengi við.

„Það er alltaf nóg að gera og yfirleitt alltaf fullt hjá okkur,“ segir hún. „Minnstu fyrirburarnir, þeir sem fæðast í 22. viku, eru hjá okkur í allt að hálft ár. Þau eru þó ekki á gjörgæsludeild allan tímann heldur færast á hágæslu- eða almenna nýburadeild.“ Alls starfa um 250 manns á deildunum tveimur undir hennar stjórn, þar af 25 læknar.

„Þetta er líka kennsludeild fyrir til dæmis verðandi barnalækna, fæðingarlækna og gjörgæslulækna og hjúkrunarnema af ýmsu tagi. Það er því alltaf nóg að gera.“

Ætlaði ekki í læknisfræði

Kristbjörg ætlaði ekki að fara í læknisfræði þegar hún var barn en yngsta móðursystir hennar, Alma D. Möller landlæknir, bjó heima hjá henni þegar hún var í sínu námi. „Hún gerði ekkert annað en að lesa allan daginn svo ég husgaði: Guð minn góður. Þetta myndi ég aldrei gera.“

Systir Kristbjargar, Helena lýtalæknir í Svíþjóð, fetaði síðan í fótspor móðursysturinnar stuttu síðar.

„Hún sat og las og las. Ég hugsaði þá aftur að þetta myndi ég aldrei gera. Svo voru þær báðar farnar að vinna sem læknar og ég heyrði hina hliðina. Ég reyndi að finna mér annað en dróst alltaf aftur að þessu fagi.“

Hún lýsir því hvernig hún hafi verið á báðum áttum þegar hún svo stökk af stað í námið. „Ég var ekki alveg ákveðin og varð ekki ein af þeim sem komust í gegn. Ég fór því til Danmerkur að steikja hamborgara á Burger King. Eftir það kom ég til baka og reyndi aftur. Ég fann að þetta var það sem ég vildi. Þótt það hafi verið mjög gaman að vinna tvítug á Burger King, var það ekki framtíðarstarfið.“

Börnin drógu athyglina að sér

Kristbjörg nefnir hvernig hún hafi fyrst ætlað að fara í svæfingar og gjörgæslulækningar eins og móðursystir hennar, en barnakúrs í náminu hafi fangað athygli hennar. „Eftir þann kúrs var hægt að taka að sér stöðu sem afleysingalæknir um jól. Ég prófaði það og fannst gaman.“

Valið hafi því staðið á milli barnalækninga og svæfingalækninga. „Svo fyrsta daginn á vökudeildinni, sem sameinar bæði barna- og svæfingalækningar, þá small þetta. Ég fann strax að það var þetta sem ég ætlaði að gera.“ Hún segir starfið bæði skemmtilegt og krefjandi.

„Deildin okkar er þriðja stærsta vökudeildin í Svíþjóð. Hér eru veikustu börnin. Þetta er því bæði gefandi starf og krefjandi.“ Hún segir þónokkra íslenska lækna starfa við nýburadeildir í Svíþjóð. Nýburalæknar séu einnig á vökudeild Landspítala en fyrst þurfi að sérhæfa sig í barnalækningum.

En langar hana heim? „Það var alltaf á upprunalega planinu en hér er ég enn,“ segir hún. „Það flækir aðeins málið að ég er í sambúð hér í Malmö með dönskum manni og því er ég ekki með nein plön um að flytja heim eins og er. Það gerist ef það gerist.“

Heimferðirnar settar á ís

Hún lýsir því hvernig hún hafi fyrir kófið oft komið heim til Íslands enda aðeins hálftíma ferð frá Malmö á Kastrup-flugvöll. „Við mætum í allar veislur. En heimsfaraldurinn hefur hamlað því,“ segir hún.

Kristbjörg hefur skrifað sínar vísindagreinar en gefst einhver tími til þess nú í þessu starfi? „Ég kláraði doktorsritgerðina 2018 meðfram starfinu. Það var ekkert svo gott kombó en þegar ég hafði lokið við doktorsritgerðina hafði ég ákveðið að einblína á deildina og hef gert það síðustu tvö árin. Ég tel þó mikilvægt að blanda þessum störfum saman, þótt ég geri mér grein fyrir að erfitt getur verið að halda of mörgum boltum á lofti.“

En hvernig sér hún fræðin þróast? Verður enn yngri börnum bjargað? „Ég veit það ekki. Það er ekki víst að það sé heillaskref. Heldur myndi ég vilja sjá þróunina hraðari til að auka lífsgæði þeirra barna sem við sinnum í dag. Börn sem fæðast í viku 22 eru mjög óþroskuð og ég sé ekki fyrir mér að hægt sé að bjarga minni börnum en það. En lærifeður mínir sögðu örugglega eitthvað svipað fyrir 20-30 árum,“ segir hún.

En sér hún fyrir sér að konur þurfi kannski ekki að ganga með börn í framtíðinni, heldur setji fóstrin í kassa og fái afhent eftir 9 mánuði? Kristbjörg segir að slíkar tilraunir hafi verið gerðar á kindum.

„En við erum ekki þar. Okkur finnst nóg með það sem við höfum og þótt lífslíkurnar batni með hverju árinu og horfurnar batni er langt í land að við sjáum kassaræktuð börn.“

Kórónuveiran hlífir ungabörnum

„Kórónuveiran hlífir sem betur fer ungabörnum,“ segir Kristbjörg Sveinsdóttir, yfirlæknir nýburadeildar háskólasjúkrahússins á Skáni í Svíþjóð. „Við höfum ekki haft veik ungabörn og það ekki þótt mæðurnar hafi verið smitaðar.“

Hún bendir á að það sé ólíkt mörgum öðrum veirum. „RS-vírusinn leggst mjög illa á ungabörn þannig að aðrir vírusar eru verri fyrir þau en kórónuveiran.“ Hins vegar hafi deildin sloppið vel.

„En starfsfólk dettur út vegna veirunnar. Það þarf í sóttkví og því hefur oft verið krefjandi að manna deildina. Kórónuveiran hefur verið skæð hér á Skáni og því hefur hálft sjúkrahúsið, eins og um jólin, verið lagt undir COVID-sjúklinga. Við höfum því þurft að senda bæði hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða til starfa á COVID-deildirnar og þurfum að leysa okkar vanda öðruvísi,“ segir hún.

„Það hafa allir þurft að leggja hönd á plóg, hvort sem maður er með COVID-sjúklinga eða ekki, en sérgreinin okkar sleppur kannski best í þetta sinn.“

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica