2. tbl. 107. árg. 2021

Umræða og fréttir

Forsetinn hvatti til aukins forvarnarstarfs á málþingi um sjósundsiðkun á Læknadögum

Guðni Th. Jóhannesson forseti lagði áherslu á forvirkar aðgerðir, lýðheilsu, til að fyrirbyggja að fólk veikist þegar hann opnaði málþing um sjósundsiðkun á Læknadögum. „Sjósund fyrir mér er, þegar rétt er á málum haldið, góð leið til þess að hreyfa sig, vera úti í náttúrunni og njóta góðs félagsskapar.“

Guðni sagði: „Ég er sannfærður um að við þurfum að sinna lýðheilsu, geðheilsu, forvirkum aðgerðum á sviði heilbrigðis- og heilsufars.“ Það hafi ekki aðeins áhrif á lífsgæðin heldur einnig hafi það hagkvæmt gildi.

„Hér á Íslandi, eins og annars staðar í vestrænum löndum, rennur drjúgur hluti útgjalda heilbrigðiskerfisins til lífsstílstengdra sjúkdóma. Við viljum bæta líf og heilsu fólks, við viljum verja fjármunum í það. En einungis broti af heildarupphæðinni hefur verið varið til forvarna. Hér er ótvírætt að breytingar hefðu þegar á heildina á litið, þegar til kastanna kemur, sparnað í för með sér.“

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, hvatti til aukinna forvarna á sviði lýðheilsu

Guðni sagðist áhugamaður á þessu sviði. „Ég ekki stutt mál mitt með rökum á þessu sviði nema að benda á rannsóknir annarra.“ Hann vísaði í Læknablaðið. „Ég er dyggur lesandi Læknablaðsins og safna upplýsingum þar,“ sagði forsetinn og benti sérstaklega á rannsóknir og pistla Unnar Önnu Valdimarsdóttur á áfalla og streituröskun, Tinnu Laufeyjar Ásgeirsdóttur um hvernig við vegum og metum lífsgæði, rannsóknir Tryggva Þorgeirssonar og Ernu Sifjar Arnardóttur, lektors í HR.

„Ef við verjum auknu fé til forvarna fáum við það margfalt til baka,“ sagði forsetinn.Þetta vefsvæði byggir á Eplica