2. tbl. 107. árg. 2021

Umræða og fréttir

Ég kem til með að sakna fólksins á bráðamóttökunni, segir Jón Magnús yfirlæknir

 Ég er að færa mig í annað verkefni sem mér finnst spennandi eftir að hafa verið bæði
langan og góðan tíma á bráðamóttökunni,“ segir Jón Magnús Kristjánsson, sem verður
framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilsuvernd

„Ég fann að áhugi fjölmiðlanna á því að ég væri að hætta var á þann veg að búa til frétt um að ég væri að hætta af því að það væri svo hræðilegt á Landspítala. Það er ekki þannig. Starf yfirlæknis á bráðamóttökunni hefur verið mjög skemmtilegt og gefandi,“ segir Jón Magnús Kristjánsson, sem tekur við nýju starfi framkvæmdastjóra lækninga hjá Heilsuvernd í mars.

Jón Magnús hælir starfsfólkinu sem hann nú kveður. Bráðamóttakan sé mönnuð öflugu fólki. „Ég á eftir að sakna bráðamóttökunnar og hasarsins mikið. Þar hef ég varið langstærstum hluta starfsævi minnar,“ segir hann. „Að skipta um starf er persónuleg ákvörðun fyrir mig sem hentar mér á þessum tímapunkti. Í því felst ekki gagnrýni á Landspítala.“

Jón Magnús útskrifaðist úr MBA-námi fyrir ári síðan. „Já, námið á örugglega þátt í ákvörðuninni,“ segir hann þótt markmið hans hafi verið að efla sig í núverandi starfi. „Augun opnuðust hins vegar einnig fyrir þessum stóra heimi utan við spítalann.“

Jón Magnús hóf störf sem læknanemi á Landspítala fyrir 25 árum, fór út í sérnám og vann ár í Keflavík. „Annars hef ég verið hér,“ segir hann. Síðustu 5 ár hefur hann verið yfirlæknir bráðamóttökunnar og sögðu fréttir að álag réði að hluta til ákvörðuninni. Spurður nefnir hann að fráflæðisvandinn hafi ekki fælt hann úr starfi þótt hann hefði viljað sjá vandann fyrr leystan. Vandinn hafi smám saman vaxið og komið aftan að kerfinu, þrátt fyrir ábendingar síðustu ár.

„Ákveðinn hápunktur kom fyrir ári síðan. Ástandið var óboðlegt og 20-40 sjúklingar fastir á bráðamóttöku.“ Hann sat í átakshópi á vegum heilbrigðisráðuneytisins sem skilaði tillögum sínum í febrúar í fyrra og segir hann að þá í fyrsta sinn hafi verið tekin stefnumiðuð ákvörðun innan Landspítala um að afstýra ástandinu á deildinni. „Ákveðið var að sjúklingarnir ættu að fara af bráðamóttökunni innan 6 klukkustunda frá því að þeir koma.“

Opnun hjúkrunarheimilisins að Sléttuvegi og heimsfaraldurinn gjörbreyttu ásókn að bráðamóttökunni og ástandinu þar. Innlagnarvandinn hvarf en er nú aftur farinn að herja á deildina og yfir 20 einstaklingar bíða eftir að komast af bráðamóttökunni í viðeigandi úrræði.

„Í eðli sínu hefur ástandið ekki breyst,“ segir hann. Spurður hvort hjúkrunarrýmin 90 sem heilbrigðisráðherra hyggist opna á höfuðborgarsvæðinu á árinu leysi vandann bendir hann á að þau hafi ekki enn verið boðin út. „Og það þótt til hafi staðið að yrðu komin í gagnið á fyrsta ársfjórðungi.“

Ekki er heldur nóg að allir þeir sem hafa lokið spítalaþjónustu komist í viðeigandi úrræði utan spítalans. „Spítalaþjónustan verður ekkert sveigjanlegri við það.“ Viðhorfsbreytinga sé þörf og 10 teymi innan spítalans hafi unnið að úrbótum síðan skýrslan kom út.

„En það hefur enn sem komið er ekki skilað áþreifanlegum breytingum. Það eru ákveðin vonbrigði. Hins vegar hefur spítalinn og heilbrigðiskerfið verið svo upptekin af COVID að það er eðlilegt að það hafi tafist lengur en við væntum í byrjun.“

Hann ítrekar þó að fráflæðisvandinn hafi ekki flæmt hann frá spítalanum heldur hafi nýju verkefnin heillað. Hann sér fyrir sér að þróunin verði hraðari á nýjum stað, í minna og kvikara umhverfi en einkennir stórar stofnanir eins og Landspítala, og er spenntur. Heilsuvernd vinnur á breiðum grunni í heilbrigðisþjónustu, allt frá rekstri heilsugæslustöðvar í Urðarhvarfi í að sinna læknisþjónustu fyrir Hrafnistuheimilin.

„Þau eru með mörg verkefni í þróun sem ég fæ að taka þátt í. Mér þykir þetta þróunar- og umbreytingarstarf afar áhugavert og hlakka til að taka við nýju starfi.“



Þetta vefsvæði byggir á Eplica