2. tbl. 107. árg. 2021

Fræðigrein

Eldri heimildir um heyöflun og heysjúkdóma á Íslandi

Diseases connected with work in hay in Iceland. Haymaking and old data on such diseases

doi 10.17992/lbl.2021.02.622

Læknablaðið valdi myndir til að prýða greinina og eru þær allar varðveittar á Ljósmyndasafni Reykjavíkur sem er eitt albesta ljósmyndasafn í heimi.

ÁGRIP

Heysjúkdómar hafa vafalaust fylgt búskaparháttum Íslendinga alveg frá landnámi í lok 9. aldar. Þó hafa aðstæður til heyöflunar verið betri á fyrstu öldum eftir landnám en seinna varð, þegar veðurfar kólnaði og landgæði versnuðu. Greinin fjallar um það sem skrifað hefur verið um heysjúkdóma á Íslandi frá byrjun 17. aldar og fram á miðja 20. öldina.

Barst til blaðsins 20. október 2020, samþykkt til birtingar 3. desember 2020.

Inngangur

Þegar tveir höfundar þessarar greinar hófu störf á Íslandi sem sérfræðingar í lungna- og ofnæmissjúkdómum á 8. áratug síðustu aldar, vakti það fljótt athygli þeirra hversu margir komu með kvartanir sem þeir tengdu vinnu í heyryki. Einkum voru þetta bændur og börn þeirra og börn og unglingar sem dvöldu í sveit á sumrin, en einnig þeir sem bjuggu í þéttbýli og stunduðu hestamennsku sér til dægrastyttingar og yndisauka.

Flestir kvörtuðu um einkenni bráðaofnæmis (IgE-miðlaðs ofnæmis), það er kláða í nefi, hnerra, nefstíflur og kláða í augum. Þessi einkenni komu eftir nokkrar mínútur í heyryki, einkum þegar leysa þurfti hey. Eftir lengri tíma dvöl í heyryki fengu menn oft astma. Einnig komu bændur og kaupamenn með dæmigerð einkenni heysóttar, það er hitaköst, hósta og mæði, sem oftast gerði vart við sig seinni hluta dags og á kvöldin og lagaðist oftast með hósta og slímuppgangi eftir einn til tvo sólarhringa.

Við áframhaldandi vinnu í heyryki gátu einkennin þó orðið langdregin með vaxandi mæði og úthaldsleysi. Jafnvel sáust sjúklingar með bandvefshersli í lungum, sem afleiðingu langvinnrar heysóttar. Ekki var óalgengt að bændur kæmu á lungnaspítalann á Vífilsstöðum með langvinna berkjubólgu og lungnaþembu, jafnvel þótt þeir hefðu aldrei reykt. Virtist sem einkenni af þessum toga færu að gera vart við sig á sextugs- eða sjötugsaldri hjá þeim sem stundað höfðu búskap og gegningar frá unglingsárum.

Öllum sem leituðu sér lækninga vegna heysjúkdóma bar saman um það að rykið í heyinu væri orsök þessara einkenna.

Öflun heys og hirðing

Líklega hefur heyöflun á Íslandi farið fram með svipuðum hætti alveg frá landnámsöld og fram á 20. öldina. Tíðarfari til heyskapar hefur alla tíð getað brugðið til beggja vona og bændur hafa verið misjafnlega atorkusamir við heyskapinn. Strax fyrir landnám er þess getið að Flóki Vilgerðarson gleymdi að afla heyja vestur í Vatnsfirði og fékk svo á sig harðan vetur svo allur kvikfénaður hans drapst.1

Lítil drýli á túninu neðan við Fagurhólsmýri í Öræfum, - Ásgrímur Jónsson hefði getað tekið þessa mynd en Guðbjörg María Benediktsdóttir tók hana árið 1945.

 

 

Litlar sögur fara af daglegu amstri manna fyrr á öldum eins og því að afla heyja fyrir bústofninn. Í Orms þætti Stórólfssonar er sagt frá miklu heyleysi vegna harðinda. Þar kemur einnig fyrir lýsing á orfi og ljá. Þótt frásögnin sé nokkuð stórkarlaleg, enda sagan skemmtisaga, gefur hún þó hugmynd um hvernig orf og ljáir voru búin til á ritunartíma sögunnar, sem talinn er vera á öðrum eða þriðja fjórðungi 14. aldar.2 Þegar Ormur hafði hent orfi og eyðilagt nýjan ljá fyrir föður sínum, „fær hann sér tvo fjórðunga járns og fer til smiðju og gerir sér ljá. Síðan tók hann sér einn ás úr viðarbulungi og gerði sér mátulega hátt og færði á tvo hæla stóra og lét þar í koma ljáinn þann nýja og vafði síðan með járni.“3

Til þess að hægt væri að smíða úr því járni sem unnið var með rauðablæstri þurfti viðarkol. Á fyrstu öldum eftir landnám hefur nægur trjáviður fengist til kolagerðarinnar, en eftir því sem veðurfar kólnaði og gekk á trjágróðurinn hefur orðið erfiðara um kolagerðina. Ljáina þurfti að dengja á hverjum degi í eldi fyrir notkun og það hefur auðvitað verið erfiðleikum háð þegar skógarnir eyddust og sneyddist um kolin.

Í bók Þórðar Tómassonar segir að á miðöldum og fram undir 1500 hafi verið flutt inn smíðajárn í stöngum, svo nefndir ásmundar.4 Hann tekur fram að ekkert sé vitað um þátt íslenskrar járnvinnslu í ljáasmíði. Má þó gera ráð fyrir að stundum hafi þurft að grípa til rauðablásturs, til dæmis þegar siglingar til landsins brugðust. Í Egils sögu segir: „Skalla Grímur var járnsmiður mikill og hafði rauðablástur mikinn á vetrinn.“5

Annars hafa tól til heyskapar varla breyst mikið fram að lokum 19. aldar. Auk orfsins var hrífan annað áhald sem nauðsynlegt var til heyvinnu. Orfið var verkfæri karlanna en hrífan kvennanna, en þó voru frá þessu undantekningar. Aðstaða til heyöflunar hefur hins vegar farið sífellt versnandi fram á nítjándu öldina vegna harðnandi tíðarfars og minnkandi landgæða. Á nítjándu öldinni vottar svo fyrir framförum. Það er athyglisvert að Ormur Stórólfsson er sagður festa ljáinn með járni. Á síðari öldum var venja að festa ljáinn við orfið með leðuról, en járnhólkur kom fyrst til sögunnar um 1840. Það hefur verið byltingarkennd uppfinning fyrir íslenska sláttumenn.6

Torfi Bjarnason, síðar skólastjóri í Ólafsdal, kom með nýja gerð ljáa, Torfaljáina eða bakkaljáina, sem juku mjög afköst og voru notaðir fram undir miðja 20. öld. Í lok 19. aldarinnar fóru bændur að huga að jarðabótum. Í byrjun 20. aldar komu sláttuvélar til sögunnar og önnur véltækni, sem gjörbreytti öllum atvinnuháttum við heyöflun.

Líklega hefur heyið verið þurrkað með svipuðum hætti frá landnámi og þar til nútímatækni kom til á seinni hluta síðustu aldar. Heyið var breitt á vel þurra jörð og því snúið með hrífu í rifgarða. Ef þerrir hélst ekki þar til heyið var þurrt var það tekið saman í föng, lanir eða galta og breitt aftur þar til heyið var fullþurrkað.7 Á 5. áratug síðustu aldar voru gerðar tilraunir með súgþurrkun á hálfþurru heyi og varð þessi aðferð allútbreidd á næstu áratugum. Votheysverkun kom til sögunnar á öðrum og þriðja ártug 20. aldar, en þá var heyið gjarnan hirt grasþurrt. Votheysverkun náði þó aldrei verulegri útbreiðslu nema á Vestfjörðum, en á Ströndum var mestur hluti heyfengsins hirtur í vothey kringum 1980. Um 1990 komu svo plastrúllubaggar til sögunnar sem hafa rutt allri annarri heyverkun úr vegi.

Þegar heyið hafði verið þurrkað var það bundið í sátur og oftast reitt heim á hestum. Þó mun það hafa verið algengt að útheyi væri hlaðið upp í heystakka við slægjuna og flutt heim á sleðum að vetrinum. Í Eyrbyggju segir frá því að Arnkell goði lét flytja heim hey að vetri til með uxum og sleða.8

Litlar sögur fara af því hvernig heyið var varðveitt yfir veturinn. Jónas frá Hrafnagili segir: „Heyin hafa verið geymd á sama hátt og enn gerist á landi hér síðan í fornöld. Þó virðist það hafa verið tíðara til forna en nú gerist, að setja hey saman út í haga eða engjum.“ Slík hey voru kölluð stakkar eða stakkgarðar. Enn fremur segir hann: „[E]n oft mun það þó hafa verið flutt heim í heygarða eða heyrúm, sem virðist vera sama og hlaða.“6

Til eru að minnsta kosti þrjár frásagnir af stakkgörðum í Íslendingasögum og Sturlungu. Það hafa verið tóftir þar sem heyi var stakkað, hlaðið upp, og tyrft yfir utan heimatúnsins. Þessar frásagnir tengjast mannvígum, annars hefði þeim ekki verið haldið til haga. Í Eyrbyggju var Arnkell goði veginn í stakkgarði, þangað sem hann var að sækja hey. Í Þórðar sögu hreðu kemur stakkgarður við sögu í lokaviðureign þeirra Þórðar og Özurrar á Þverá í Skagafirði.9 Líklega er þekktust frásögnin af drápi sona Þorvaldar Vatnsfirðings, þeirra Þórðar og Snorra, í stakkgarði undir hlíðinni ofan frá Hundadal í Dölum.10

Jónas frá Hrafnagili segir enn fremur: „Á síðari tímum hafa ekki verið hafðir heygarðar nema á Suðurlandi; náðu þeir á 18. öld norður á Snæfellsnes og austur í Hornafjörð.“ Hlöður hafa verið misjafnlega útbreiddar eftir landshlutum fram á 20. öld.

Orri Vésteinsson prófessor hefur skrifað grein um 10 fjóshlöður sem hafa verið grafnar upp og eru 8 taldar frá söguöld.11 Er athyglisvert, þegar stærð hlöðu er borin saman við stærð fjóssins, að áætlað hey í hlöðunni hefur sjaldnast dugað nema fyrir litlum hluta af heyþörf kúnna. Á grunnmynd frá Skálholtsstað frá 1784 sést að fjóshlaða er örlítil miðað við fjósið og aðliggjandi heygarð.12 Má þó ætla að betur hafi verið húsað á höfuðstað kirkjunnar en almennt gerðist á landinu á þeim tíma. Orri telur að hlöður hafi fyrst og fremst verið undir besta og kjarnmesta heyið.

Flest bendir til þess að veðurfar hafi verið óvenju hlýtt á fyrstu öldum eftir landnám og farið svo kólnandi, og sú kuldatíð hafi náð hámarki á 17. öld. Trausti Jónsson veðurfræðingur gerir hitafari á Íslandi góð skil í grein sem hann ritar á netið 9. febrúar 2007.13 Þar telur hann að hitafar hafi farið lækkandi á 12. öld og enn frekar þegar kom fram á miðja 15. öld. Kuldatímabilið náði svo hámarki á 17. öld, en síðan fór að hlýna, að frádregnu kuldaskeiði á seinni hluta 19. aldar, og núna lifum við á hlýindaskeiði þar sem hitastig er hærra en áður hefur þekkst frá landnámi.

Konráð R. Konráðsson (1884-1929) læknir, sem var líka leiðsögumaður og túlkur erlendra ferðamanna, tók þessa mynd af konu með heybandslest um 1910, sennilega sunnanlands.

 

 

Þegar saman fór kólnandi veðurfar og eyðing landgæða má gera ráð fyrir því að öflun heyja hafi sífellt orðið erfiðari með hverri öld sem leið fram á 19. öldina. Hámarki náði neyð landsmanna eftir móðuharðindin 1783. Þá var talið að rúmlega 20% landsmanna hafi farist, eða um 10.500 manns, auk stórfellds horfellis á sauðfé, hrossum og nautgripum.14

Gæði heyjanna hafa farið eftir því hvernig til hefur tekist með þurrk á því fyrir hirðingu og hvernig það var varið fyrir raka yfir veturinn. Það verður að teljast sennilegt að heyið hafi yfirleitt haldist betra í hlöðum en í heystæðum, og er skemmtileg lýsing á því í Fljótsdæla sögu, sem segir frá því að Sveinungur barg Gunnari Þiðrandabana frá Droplaugarsonum með því að fela hann í heystæðu. Þegar Helgi Droplaugarson gengur í hlöðuna segir: „Þá mælti Sveinungur: Nú skaltu standa í durum, en eg mun ganga í hlöðuna og umhverfum heyið. Eg mun og ganga upp á heyið og velta af ofan því, er vátt er. Er þér ófært að fara upp á heyið, fyrr en ég hef hreinsað áður, því að þú ert skartmaður mikill. Vil eg eigi að saurgist klæði þín. Sveinungur fer nú upp á heyið, leggur Austmanninn niður á stálið innanvert, vefur nú at honum flögu mikla og þurra, veltir nú öllu saman út af stálinu og lætur liggja flögurnar.“15

Í Sturlungu segir á einum stað um Sturlu Þórðarson: „Sturla hafði risið upp, þegar lýsti, og gekk hann til töðugarðs. Þar vóru fyrir húskarlar og rufu heydes, er drepið hafði um haustið.“16 Þarna er lýst þurru heyi í hlöðu og votu heyi í heygarði. Bændur hafa átt í látlausu stríði við að ná saman góðum heyjum á sumrin og að verja þau fyrir raka og skemmdum yfir veturinn. Er líklegt að þeir hafi verið á stöðugu undanhaldi í því stríði þar til hagur þeirra fór að batna í byrjun 20. aldarinnar.

Á fyrstu öldum eftir landnám var bústofn fjölbreyttari en síðar varð og bændur treystu meira á beit. Árið 1226-27 var fellivetur mikill og drápust 100 naut fyrir Snorra Sturlusyni í Svignaskarði.17 Það gefur auga leið að Snorri hefur ekki ætlað að hafa öll þessi naut á fóðrum. Greinilegt er að gegningar hafa skipað minni sess í vetrarstörfum á þeim tíma en seinna varð, en líklegt má þó telja að frá upphafi landnáms hafi þeir skaðvaldar fundist í heyryki, sem seinna „urðu margra manna bani hér á landi“.

Eldri frásagnir af heysjúkdómum

Oft getur tekið langan tíma að finna samband sjúkdóma og þess sem veldur. Þannig voru reykingar orðnar útbreiddar um allan heim þegar glöggir menn bentu á það að lungnakrabbamein hafði aukist fimmtánfalt í Englandi og Wales á árabilinu 1922-47, og það gæti ekki stafað af bættri greiningu einni saman. Þarna væri annað-hvort um að kenna útbreiðslu reykinga eða mengunar vegna vaxandi bílaumferðar.18 Alkunna er að raki og mygla innandyra hafa margskonar heilsuskaðleg áhrif á suma sem við þetta búa, en erfiðlega hefur gengið að finna hvað veldur þessum einkennum.19 Sama má segja um heysjúkdóma, að þeir hafa lengi verið kunnir meðal Íslendinga en það var ekki fyrr en á síðasta hluta síðustu aldar að orsakir þeirra og útbreiðsla voru könnuð.

Einar Sigvaldi Sigurjónsson bóndi í Firði á Seyðisfirði að slá sín tún. Eyjólfur Jónsson tók myndina um 1940.

 

 

Fyrstu heimildir sem við höfum fundið og vísa til heysjúkdóma er í óprentaðri lækningabók séra Odds Oddssonar á Reynivöllum í Kjós, sem talin er skrifuð snemma á 17. öld og varðveitt er í handriti. Þar kemur fyrir orðið heysótt næst á eftir orðinu lungnasótt.20

Í lækningabók sem Hannes Gunnlaugsson skrifaði um 1670 stendur: „Við hriðjum, heysótt, berl(ings)hósta, brjósterf(iði), voghræki og stuttum andadrætti, tak brennisteinsblómstur, anis, sykur, gjör þar af smákringlur og iðka kvölds og morgna.“21 Næsta víst er að fleiri dæmi um orðið finnist í lækningabókum í handritum frá síðari öldum.

Á síðasta hluta 17. aldar, eða frá 1681 til dauðadags 1695, vann maður að nafni Guðmundur Ólafsson að orðabók fyrir Svía sem varðveitt er í handriti. Þar er dæmi um orðið heysótt og þýtt sem „morbus“.22

Orðið heysótt kemur einnig fyrir í kvæðinu Einbúavísur eftir Benedikt Jónsson í Bjarnanesi (um 1664-1744) og er 21. erindi svohljóðandi:

Kýrnar bind á klafann eg,
klára fjós og brynni,
læt í meisa, mjólka, géf,
mæddur af heysóttinni.

Hér er orðið heysótt tengd vinnu við þurrhey.23

Um 1730-40 byrjaði Jón Ólafsson Grunnvíkingur á íslenskri orðabók með latneskum þýðingum. Heysótt er þar lýst svo: „Heysoott etiam dicitur malum qvoddam cum inappetentia ciborum conjunctum, qvod interdum iis accidit, qvi hyemali tempore in fænili condensatum fænum acu fænaria (vel unco fænario) solvunt.“24 Þýðing höfundar EGP hljóðar svo: „Heysótt kallast einnig slæmska með lystarleysi, sem þeir fá stundum, sem á vetrartíma leysa saman þjappað hey í heygarði með heynál eða heykrók.“ Jón Grunnvíkingur var viss um samband sjúkdómsins við hey; menn fengu hann af því að leysa hey í heygarði á vetrum.

Af þeim dæmum um heysótt sem hér hafa verið rakin er ljóst að orðið, og merking þess, hefur verið vel þekkt í málinu frá dögum Odds Oddssonar eða fyrr.

Árið 1790 skrifar Sveinn Pálsson læknir grein sem hann nefnir Registur yfir íslenzk sjúkdóma nöfn. Þar fjallar hann um heysótt. „Heysótt nefnist veikleiki er tilfellur þeim er gefa myglað og illa verkað hey á vetrum, og er hann alþekktur úti á Íslandi, orsakast hann af phlogistískum dömpum út heyinu, er sjúgast inn með andardrættinum, og af sér leiða kvefsótt, hæsi, hósta og öll en sömu tilfelli, og annað phlogistískt loft og dampar, svo sem af kolum, brennusteini, forar-mýrum og öðru þessháttar.“25 Sveinn lætur þessa lýsingu nægja, að heysótt sé alþekkt úti á Íslandi og orsakist af bólguvaldandi ryki í mygluðu og illa verkuðu heyi sem menn andi að sér, og valdi kvefsótt, hæsi og hósta.

Nú er hins vegar stutt á milli birtra greina um heysótt því Jón Pétursson fjórðungslæknir í Norðlendingafjórðungi birti grein 1794 sem hann kallaði Um líkamlega viðkvæmni. Þar segir: „Brjóstþröng eða brjóstþyngsli þau, sem margur maður yfir kvartar hér á landi, kalla ég hér heysótt, til aðgreiningar frá öðrum brjóstsjúkdómum. Þessi veikleiki er ekkert annað, en það sem læknarar kalla Asthma convulsivum. Þessi sjúkdómur er innifalinn í langvinnri tregðu, þá er hinn sjúki dregur andann; stundum linast þessi kvilli að sönnu, en kemur aftur og aftur með köstum; er þá sem brjóstið sé samanreyrt, með mikilli óhægð, þrengingu, og suðu fyrir brjóstinu, svo hinn veiki má í rúminu uppréttur sitja. Hósti er ætíð þessum kvilla samfara, meiri eða minni, af hverjum þó ekki annað í fyrstu gengur upp en vatnsfroða ein, eður og aðeins lítið blóðlituð froða.“

Jón segir síðan: „Því verður ekki neitað, að heysóttin illa umhirt, eða lengi forsómuð, verður margra manna bani hér á landi; eftir því sem veikleikinn magnast, verða brjóstþrengslin og þyngslin meiri og ákafari, þar til sjúkdómurinn um síðir umbreytist í fullkomna, ólæknandi megrusótt (phthisin), eða vatnsýki, bæði í brjósti og annarstaðar á líkamanum.“26

Jón segir einnig frá vinnumanni sínum sem hafði haft heysótt sjö ár og nágranna sínum með sama sjúkdóm. Fylgir þar nákvæm, og í augum okkar nútímamanna, allkostuleg meðferðarlýsing sem ekki verður rakin hér.

Hannes Jónsson bóndi og landpóstur á Núpsstað í Fljótshverfi að raka. Gunnar Rúnar Ólafsson tók myndina 1958.

 

Líður nú alllangur tími þar til heysjúkdóma á Íslandi er getið á prenti. Jón Finsen læknir starfaði sem héraðslæknir á Norðaustur- og Austurlandi um 10 ára skeið og varði síðan doktorsritgerð í Kaupmannahöfn 1874 og fjallaði þar ýtarlega um efnið. Frásögn Jóns, töluvert stytt, hljóðar svo í þýðingu höfunda: Á Íslandi kemur ósjaldan fyrir lungnasjúkdómur sem aðeins verður vart á vetrum þegar skepnum er gefið hey og gerir eingöngu vart við sig hjá þeim sem leysa hey úr stáli og hrista úr því rykið fyrir gjöf. Við að anda að sé rykinu, sér í lagi þegar heyið er lélegt og myglað, fær sá sem það gerir hósta, svolítinn uppgang og andþyngsli, sem oft eru mjög mikil, einkum á kvöldin. Einkennin haldast meðan hey er gefið á vetrum, en hverfa yfir sumartímann. Jón tekur fram að hann hafi ekki séð sjúkling í kasti.27

Hann segir einnig, að það sé enginn vafi á að lungnasjúkdómurinn sé ólíkur þeim sjúkdómum sem kallaðir hafa verið „Höfeber“, „Sommarastma“ og „typisk Forsommarkatarr“ og færir fyrir því sannfærandi rök. Hann leggur áherslu á að einkenni heysóttar („Hökatarr“) séu bundin við lungun og við vinnu á veturna, en einkenni „Höfeber“ nái einnig til slímhúðar í nefi og augum og til koks, höfuðs og taugakerfis, og komi fyrir á vorin og sumrin.

Nú er komið að góðum ráðum til að minnka hættuna af heysóttinni. Jón Hjaltalín landlæknir skrifar í Heilbrigðistíðindi 1870: „Heysótt á mönnum og skepnum. Þegar heyið er myglað eða leiri blandað, veldur það heysótt bæði mönnum og skepnum. Hún getur oft orðið allill, og jafnvel hættuleg. Slíkt hey þarf að hrista einkar vel, áður það er gefið, og er óhultast fyrir garðmanninn, að binda þunnum klút fyrir andlitið, meðan hann er að leysa og hrista heyið. … Brjóstþyngsli þau, er heysóttin gjörir, geta orðið mjög alvarleg, og er allajafnan nauðsynlegt að leita læknisráða við þeim.“28

Guðmundur Hannesson prófessor fjallaði einnig um heysjúkdóma í grein í Skírni 1913. Þar segir: „Heykvef. Svo ég nú nefni annað dæmi, er lungun sýkjast, vil ég minnast á heykvef eða heymæði sem sumir kalla. Fjármenn sem eru að vetrinum í mygluðum eða rykmiklum heyjum sýkjast oft að mun af þessu ryki og ólofti. Hér sem oftast endranær kemur skýr áminning frá náttúrunni. Maðurinn fer að fá hóstauppgang og mæði.“29

Þórbergur Þórðarson rithöfundur hefur eftir séra Árna Þórarinssyni á einum stað í ævisögu hans: „Heymæði var algeng þar vestra og endaði oft með tæringu.“30

Heysótt viðist ekki síður hafa verið vel þekkt í hrossum og Jón Hjaltalín skrifar í bók sinni um kvilla á kvikfénaði: „Um Heysótt (Lunge=Betændelse): Einkenni veiki þessarar eru þessi: Hestinum er þungt um andann, hann hefir jafnaðarlega hósta og hriglu, og mæðist strax við minnstu áreynslu; nasirnar eru útspenntar og rifbeinin ganga upp og niður.“31

Þegar haft er í huga hve vel Jón Finsen skrifar um heysótt, og að Guðmundur Hannesson prófessor þekkti vel til heysóttar, er undarlegt hve heilbrigðisskýrslur, sem ná frá árinu 1891, eru lengi vel þöglar um þennan sjúkdóm. Það verður þó breyting á þegar Páll Kolka héraðslæknir á Blönduósi segir í skýrslu sinni fyrir árið 1935: „Heymæði er algeng í karlmönnum, sem orðnir eru miðaldra, og á vafalaust sinn þátt í því að gera marga lungnabólgu banvæna. Margir kvarta sárlega undan henni nú eftir 2 votviðrasöm sumur og lélega verkun á heyjum.“32 Í skýrslu fyrir árið 1936 skrifar Páll Kolka ítarlega um heysjúkdóma: „Heymæði er sjúkdómur, sem er allalgengur hér, þótt hann sé nýr fyrir mér í praxis. Hann veitir ýmsum þungar búsifjar, jafnvel mönnum á besta aldri, svo þeir verða ófærir til gegninga á vetrum. Ef til vill eru meiri brögð að þessu nú en áður vegna undangenginna óþurkasumra, en hann er nú alvarlegt íhugunarefni og hefir talsverða sociala þýðingu, því einyrkjabændur geta orðið óverkfærir við lífsstarf sitt af hans völdum. Auk þess sem oft er samhliða um að ræða emphysema hjá rosknum mönnum, þá er áreiðanlega, ekki síst hjá ungum mönnum, ein aðal orsökin sjúkdómsins allergie fyrir heyryki – sennilega sveppum eða myglunni í rykinu – svo að sjúklingarnir fá astmakennda mæði, þegar þeir koma í hey. Venjulegar heygrímur koma að litlum notum, því að öndunarflötur þeirra er allt of lítill... … Ég hef gegnlýst ýmsa menn með heymæði og séð greinilega pneumoconiosis hjá sumum þeirra, sem lengi hafa verið í heyjum. Þar sem leir er í heyjum, getur myndast hrein og bein silicosis í lungum þessara manna, og hef ég slíkan mann hér á Blöndósi, sem hefur greinileg steinlungu og er algerður öryrki, rúmlega sextugur, enda er ekki gómstór blettur í lungum hans óskemmdur. Ég álít, að heymæði gæti verið merkilegt rannsóknarefni fyrir íslenska sveitalækna, og er mikil þörf á því, að reynt sé að fyrirbyggja hana.“33

Páll Kolka hefur nú lýst allvel lokastigi heysóttar, en í skýrslu fyrir árið 1941 kemur hann með brýningu um að eitthvað sé gert í málinu, þótt enn líði 40 ár þar til af því verður. Hann skrifar: „Heymæði er að mínu áliti algengasti atvinnusjúkdómur þeirra karlmanna, er sveitavinnu stunda, og er mörgum svo hvimleiður, að þeir eru lítt eða ekki færir til gegninga. Kemur það sér skiljanlega ekki vel fyrir einyrkja. Ég er ekki í vafa um, að oftast er um reglulega allergie fyrir heyryki að ræða. Þetta er svo alvarlegt atriði, að full þörf væri á að gera einhverjar skipulagsbundnar rannsóknir á þessum kvilla, tilraunir til að lækna hann og verjast honum. Væri mjög æskilegt, að önnur hvor af Rannsóknarstofum Háskólans tæki að sér að rannsaka, hvers konar allergen eru algengust í heyi, og léti læknum í té efni til herðingar gegn þeim.“34 En það eru fleiri en Páll Kolka sem láta sig málið varða. Karl Guðmundsson héraðslæknir í Dölum skrifar 1939: „Töluvert algengur kvilli hér. Minna bar þó á heymæði í vetur en síðastliðinn vetur, og er einkum tvennt, er valda mun: Annars vegar góð hey og hins vegar það, að nú eru margir farnir að nota heygrímur við allar gegningar eftir fyrirsögn læknis, og að því er virðist með góðum árangri. Er næsta einkennileg sú mikla þögn, er um sjúkdóm þennan ríkir meðal íslenskra héraðslækna, ekki óalgengari en hann mun vera. Í mörgum tilfellum gerir hann menn öryrkja að meira eða minna leyti og um lengri eða skemmri tíma. Virðist þó sem prophylaxis geti komið hér að miklum notum, sé hún hafin í tíma.“35

Tempest Anderson tók myndina 1890 eða 1893, af heyflutningum við Mývatn.

 

Björn Sigurðsson á Hvammstanga leggur einnig orð í belg: „Mjög mikið hef ég orðið var við heymæði (heyastma) á ýmsum stigum, og er leiðinlegt til þess að vita, hve lítið er hægt að gera fyrir þessa sjúklinga, því þótt heygrímur geti gert nokkuð gagn, er ekki nándar nærri allir, sem finnst, að þeir þoli þær.“36

Þegar kemur fram undir 1960 er af og til minnst á heymæði í heilbrigðisskýrslum, en meira talað um astma og ofnæmi fyrir heyi. Árið 1956 segir í umsögn Ólafs Björnssonar í Helluhéraði: „Margir bændur þjást af heymæði og verða óvinnufærir fyrir aldur fram vegna lungnaþembu. Ekki er fátítt, að cor pulmonali verði slíkum sjúklingum að aldurtila.“37

Hér látum við staðar numið við þetta sögulega yfirlit, enda stutt í að hafnar séu kerfisbundnar rannsóknir á heysjúkdómum.

Umræða

Þótt ekki sé vitað hvenær menn gerðu sér fyrst grein fyrir tengingu vinnu í heyryki við lungnasjúkdóma er þó ljóst af framan skráðum heimildum að þetta samband var þekkt um aldamótin 1600 og slík þekking hefur líklega verið vel kunn, því Oddur Oddsson sá ekki ástæðu til að skýra orðið „heysótt“ í lækningabók sinni. Orðið kemur svo oft fyrir á sautjándu öld og Sveinn Pálsson segir sjúkdóminn alþekktan í grein sinni 1790. Í ítarlegri grein Jóns Péturssonar 1794 segir að heysótt verði margra manna bani hér á landi. Jón Finsen skrifar svo enn ítarlegar um sjúkdóminn og sýnir fram á að heysótt sé annars eðlis en höfeber; sjúkdómur, sem hafði verið skilgreindur 1873 af Charles H Blackley.38

Þegar farið er í heilbrigðisskýrslur kemur í ljós að heysjúkdómar eru algengir út um land og valda miklu heilsutjóni. Það er athyglisvert að héraðslæknar kalla eftir átaki til að rannsaka þessa sjúkdóma en tala fyrir daufum eyrum þar til komið er fram á níunda áratug 20. aldar.

Örn Elíasson læknir safnaði saman skráðum gögnum um heysjúkdóma 1977. Gagnasafn hans hófst með grein Sveins Pálssonar og náði til Dýralækningabókar Magnúsar Einarssonar frá 1931, þar sem fjallað er um heymæði í hestum. Höfum við notið góðs af gagnasafni hans við þessa samantekt. Hann ritaði tvær greinar um þetta efni sem vakið hafa töluverða athygli.39,40

Við höfum hvorki fundið orðið heysótt eða heymæði í orðabók yfir fornt norrænt lausamál (Dictionary of Old Norse Prose, onp.ku.dk), þannig að það fyrirfinnst ekki í eldri texta en lækningabók Odds Oddssonar. Hins vegar fundum við margar tilvitnanir um heymæði með hjálp ritmálssafns Orðabókar Háskólans sem nú tilheyrir Árnastofnun.

Við vitum ekki hvort einhver þekking var í Evrópu miðalda á sambandi vinnu í heyryki og sjúkdóma í öndunarfærum, en Ítalinn Bernardino Ramazzini, sem kallaður hefur verið faðir atvinnusjúkdómafræðinnar, lýsti árið 1713 öndunarfærasjúkdómum hjá þeim sem fengust við að mæla og sigta myglað korn.41

Það var svo 1932 að lýst var í Bretlandi ákafri mæði, bláma og fíngerðum hnökrum í lungum þeirra sem höfðu unnið í afar mygluðu heyi.42

Ekki er við því að búast að í tilvitnuðum textum frá 1790 og síðar séu nákvæmar lýsingar á einkennum heysjúkdóma, þar sem alla þekkingu skorti á þessum sjúkdómum. Jón Pétursson lýsir nokkuð greinilega einkennum astma, og þegar sjúkdómurinn er langvarandi fylgir honum megrun og bjúgmyndun, sem bendir til öndunarbilunar og hjartabilunar, sem leiðir til dauða. Jón Finsen sýnir fram á með góðum rökum að um annars konar sjúkdóm væri að ræða en gróðurofnæmi (hay fever). Páll Kolka kemst næst því að lýsa þessum sjúkdómi í lungum því hann sá að hann gat endað með lungnaþembu og í sumum tilfellum bandvefshersli í lungum (pneumoconiosis).

Það sem vekur athygli við þessar frásagnir er að hvergi er minnst á einkenni frá nefi og augum, sem voru þó algengustu einkennin þegar rannsókn fór fram á heysjúkdómum undir lok síðustu aldar.43

Því vaknar sú spurning hvort orsakir bráðaofnæmis í heyi hafi fyrst komið til sögunnar á síðustu öld, þótt einnig kunni að vera að einkennin frá lungum hafi haft svo alvarleg áhrif á starfsgetu og almenna vanlíðan að þeim einkennum sé fremur haldið til haga en einkennum frá nefi og augum, sem síður hafa gert menn óvinnufæra.

Samantekt

Fyrstu heimildir um heysjúkdóma eru frá fyrri hluta 17. aldar með orðinu heysótt sem þá kemur fyrir í lækningabók. Síðar á öldinni kemur orðið fyrir í vísu þar sem segir „mæddur af heysóttinni“. Auk þess kemur það fyrir í orðabókum frá svipuðum tíma og um 1730-40 er skrifað í orðabók: „Heysótt kallast einnig slæmska með lystarleysi, sem þeir fá stundum, sem á vetrum leysa saman þjappað hey í heygarði með heynál eða heykrók.“ Í lok 18. aldar skrifar Jón Pétursson furðu greinargóða lýsingu á heysjúkdómum og segir þar: „Því verður ekki neitað að heysótt illa um hirt, eða lengi forsómuð, verður margra manna bani hér á landi.“ Jón Finsen getur þess í doktorsritgerð sinni 1874 að einkenni heysjúkdóma séu annars eðlis en frjónæmi (hay fever), sem þá hafði nýlega verið skilgreint.

Árið 1870 skrifar landlæknir leiðbeiningar fyrir bændur um það hvernig draga megi úr hættu af heysjúkdómum með því að binda þunnan klút fyrir andlitinu þegar hey er leyst úr stæðum.

Í skýrslum héraðslækna, sem ná frá árinu 1891, er varla minnst á heysjúkdóma fyrr en 1935 en eftir það er þeirra alloft getið og einstaka læknar gefa þeim töluvert pláss í skýrslum sínum og hvetja til þess að þeir séu rannsakaðir. Í skrifum sem sagt er frá í þessari grein er ekki minnst á einkenni IgE-miðlaðs ofnæmis í nefi og augum, sem þó voru algengustu einkennin tengd vinnu í heyryki þegar þessir sjúkdómar voru rannsakaðir á árunum eftir 1980.

 

Heimildir

 

1. Landnámabók. 5. og 6. kafli Sturlubókar og Hauksbókar. Íslenzk fornrit. I. Hið íslenzka fornritafélag, Reykjavík 1968: 36-9.
 
2. Vilmundarson Þ. Íslenzk fornrit. XIII. Reykjavík 1991: s. cxc.
 
3. Orms þáttur Stórólfssonar. 2. kafli. Íslenzk fornrit. XIII. Hið íslenzka fornritafélag, Reykjavík 1991: 400.
 
4. Tómasson Þ. Heyannir. Sæmundur, Selfoss 2018: 67.
 
5. Egils saga Skallagrímssonar. 30. kafli. Íslenzk fornrit. II. Hið íslenzka fornritafélag, Reykjavík 1991: 78.
 
6. Jónasson J. Íslenzkir þjóðhættir. 2010: 78. (Ljósprent útgáfu frá 1934.)
 
7. Guðmundsson B. Íslenskir heyskaparhættir. Hið íslenska bókmenntafélag, Reykjavík 2018: 69-114.
 
8. Eyrbyggja saga. 37. kafli. Íslenzk fornrit. IV. Hið íslenzka fornritafélag, Reykjavík 1935: 99-103.
 
9. Þórðar saga hreðu. 9. kafli. Íslenzk fornrit. XIV. Hið íslenzka fornritafélag, Reykjavík 1959: 208.
 
10. Íslendinga saga. 84. kafli. Sturlunga. I. Reykjavík 1946: 348.
 
11. Vésteinsson O. Mygluskán og hálfblautur ruddi. Hvernig geymdu menn hey til forna? Sagnir 1989; 10: 18-26.
 
12. Saga Íslands IV. Hið íslenska bókmenntafélag, Reykjavík 1989: 296.
 
13. Jónsson T. vedur.is/loftslag/loftslag/landnam
 
14. Saga Íslands VIII. 1989: 212-5.
 
15. Fljótsdæla saga. 19. kafli. Íslenzk fornrit. XI. Hið íslenzka fornritafélag, Reykjavík 1950: 273-7.
 
16. Sturlu saga. 21. kafli. Sturlunga. I. Reykjavík 1946: 91.
 
17. Íslendinga saga. 60. kafli. Sturlunga. I. Reykjavík 1946: 314-5.
 
18. Doll R, Hill AB. Smoking and carcinoma of the lung; preliminary report. Br Med J 1950; 2: 739-48.
https://doi.org/10.1136/bmj.2.4682.739
PMid:14772469 PMCid:PMC2038856
 
19. Cox-Ganser JM. Indoor dampness and mould health effects - ongoing questions on microbial exposures and allergic versus nonallergic mechanisms. Clin Exp Allergy 2015; 45: 1478-82.
https://doi.org/10.1111/cea.12601
PMid:26372722 PMCid:PMC4667360
 
20. AM. 700 a, 4to, bl.17r. Handrit í Árnastofnun.
 
21. ÍB. 144, 8vo. 46. grein. Handrit í Landsbókasafni Íslands, Háskólabókasafni.
 
22. N. 2: 2. Handrit í Konunglega bókasafninu Stokkhólmi.
 
23. Nockur Gaman-Kvædi. Kaupmannahöfn 1832: 75.
 
24. AM. 433, fol. Handrit í Árnastofnun.
 
25. Pálsson S. Íslenzk sjúkdóma nöfn. Rit hins konunglega íslenzka lærdómslistafélags 1790; 11: 221.
 
26. Pétursson J. Um líkamlega viðkvæmni. Rit hins konunglega íslenzka lærdómslistafélags 1794; 13.
 
27. Finsen J. Iagttagelser angaaende Sygdomsforholdene i Island. Kaupmannahöfn 1874: 85-6.
 
28. Hjaltalín J. Heilbrigðistíðindi. Reykjavík 1870; 1: 40.
 
29. Hannesson G. Lyf og lækningar. Skírnir 1913; 87: 24.
 
30. Þórðarson Þ. Ævisaga séra Árna Þórarinssonar. IV. Á Snæfellsnesi. Reykjavík 1948: 29.
 
31. Hjaltalín J. Lækninga-Bók um þá helztu kvilla á kvikfénaði. Kaupmannahöfn 1837: 53.
 
32. Heilbrigðisskýrslur 1935: 72.
 
33. Heilbrigðisskýrslur 1936: 60-1.
 
34. Heilbrigðisskýrslur 1941: 61.
 
35. Heilbrigðisskýrslur 1939: 66.
 
36. Heilbrigðisskýrslur 1939: 66-7.
 
37. Heilbrigðisskýrslur 1956: 100.
 
38. Blackley CH. Experimental Researches on the Causes and Nature of Catarrhus Aestivus (Hay-Fever or Hay-Asthma). Oxford Historical Books, Abingdon 1988.
 
39. Elíasson Ö. Heymæði á Íslandi. Læknablaðið 1982; 68:16-39.
 
40. Eliasson O. Farmer's lung disease: a new historical perspective from Iceland. J Hist Med Allied Sci 1982; 37: 440-3.
https://doi.org/10.1093/jhmas/XXXVII.4.440
PMid:6759573
 
41. Ramazzini B. De morbus artificium diatriba. University of Chicago Press, Chicago 1940.
 
42. Campell JM. Acute Symptoms following Work with Hay. Br Med J 1932: 1143-4.
 
43. Gíslason D, Ásmundsson T, Magnússon V, et al. Bráðaofnæmi í tveimur landbúnaðarhéruðum á Íslandi. II Samband heyverkunaraðferða og einkenna af heyryki. Læknablaðið 1988; 74: 309-13.

 

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica