1. tbl. 107. árg. 2021
Umræða og fréttir
Smásaga úr héraði eftir Magnús R. Jónasson
Árið er 1976. Tveir ungir læknar á leið í hérað til Patreksfjarðar. Kandídatsárinu að ljúka og alvara lífsins blasti við. Ekki þótti okkur það lítið verkefni að bera ábyrgð á heilsufari íbúa á víðáttumiklum suðurhluta Vestfjarðakjálkans og annast sjúkrahús á staðnum. Við þóttumst færir í flestan sjó og ekki víla fyrir okkur að sinna hverju því sem upp kynni að koma. Á Patreksfirði dvöldum við í tvö ár og ekki man ég til þess að mér hafi verið sérstaklega hælt fyrir læknisstörf mín í héraðinu. Mér var hins vegar, merkilegt nokk, hælt bæði fyrir tannlækningar og dýralækningar, sem ég kunni ekkert í.
Gamla réttin á Geirseyri. Handan Patreksfjarðar sést fremst í Örlygshöfn og utar í Hænuvík. Fyrir neðan er Vatneyri og svo Blakkurinn við sjónarrönd. Myndina tók Daníel Bergmann og er birt í Árbók Ferðafélags Íslands 2020: Rauðasandshreppur hinn forni. Gísli Már Gíslason og Ólafur B. Thoroddsen.
Áður en við fórum vestur var því gaukað að okkur að enginn tannlæknir væri í héraðinu og varla vorum við komnir á staðinn þegar eini dýralæknirinn á suðurhluta Vestfjarða yfirgaf svæðið og ekki von á neinum í staðinn. Við vissum að tannlæknir kæmi einu sinni til tvisvar á ári fáa daga í senn en sjaldnast að Patreksfirðingar fengju tannpínu akkúrat þá daga. Það fylgdi líka sögunni að þar vestra væri fólki ekkert sérstaklega annt um tennur sínar og venjulega fyndist þeim eina lausnin við tannpínu að losna við tönnina. Því var einnig hvíslað að okkur að gervigómar í efri og neðri væru ekki sjaldgæfar fermingargjafir þar um slóðir. Nú voru góð ráð dýr, stuttur tími til stefnu og einhvern veginn varð maður að bjarga sér. Ég hafði í skyndi upp á gömlum Læknanema með grein eftir Jón Sigtryggsson prófessor í tannlækningum með leiðbeiningum um tanndrátt fyrir héraðslækna. Svona mál hafði greinilega komið upp áður. Þessa grein las ég með athygli, kynnti mér hinar ýmsu gerðir tanga eftir því hvaða tönn skyldi taka og æfði mig í einrúmi á handbrögðunum með þykjustutöng í hendi. Þá kom upp annað vandamál, sem var deyfingar við tanntöku. Ég talaði við tannlækninn minn, spurði hvort hann gæti bent mér á góðar leiðbeiningar fyrir byrjendur í tanndeyfingum. Þá vildi svo vel til að hann hafði nýlega fengið auglýsingabækling fyrir deyfingarlyf og viti menn, með fylgdu leiðbeiningar um deyfingar hinna ýmsu tanna sem hann bauðst til að gefa mér, alger hvalreki. Málinu reddað og nú var haldið í tannlæknalaust hérað með þetta veganesti.
Ekki leið á löngu þar til bóndi úr sveitinni kom á stofu og bar sig illa vegna tannpínu og vildi endilega að ég fjarlægði sökudólginn hið snarasta. Ég bað manninn um að opna munninn og við mér blasti slangur af tönnum hér og þar sem áttu það sameiginlegt að líta út sem hálfbrunnin eða albrunnin eldfjöll og mátti ekki á milli sjá hver leit verst út, allar mundu flokkast sem geiflur. Hann benti mér á sökudólginn og hann var ekki til í neinar málamiðlanir, tönnin skyldi fara og það hér og nú. Ekki sá ég að það mundi breyta miklu fyrir tannstatus bóndans þó ein geiflan fyki. Nú var komið að því.
Ég sagi honum að ég yrði að bregða mér í næsta herbergi til að ná í tanntökusettið en ég passaði mig alltaf á að hafa það í öðru herbergi. Ég skaust fram, greip grein Jóns Sigtryggssonar ofan úr hillu og leiðbeiningarnar um deyfingu og renndi í gegnum þetta á örskotsstundu að mér fannst og tók um leið létta æfingu með viðeigandi töng og æfði handbrögð við að leggja mandibular-deyfingu sem ég hafði aldrei gert áður. Vonaði að enginn kæmi inn og sæi mig við þessar æfingar. Fór svo inn til bóndans með tangirnar og bað hann að afsaka biðina, ég hefði lent í símtali, maður mætti aldrei koma fram án þess að lenda í símanum.
Ég sá það á svip bóndans að hann trúði ekki orði af því sem ég sagði. Ég tók mér stöðu fyrir framan hann með deyfingarsprautuna í hendinni og bað hann að opna munninn. Hann gerði það en skellti munninum aftur þegar ég nálgaðist og horfði nú fast og ákveðið í augu mín og spurði: Þú hefur gert þetta áður – er það ekki? Ég lét mér hvergi bregða, horfði ámóta fast og ákveðið í augu hans og svaraði: Að sjálfsögðu – opnaðu nú munninn. Ekki veit ég hvort hann trúði mér en hann opnaði munninn og ég deyfði hann. Deyfingin tókst vel, líklega byrjandaheppni, og svo hófst sjálf athöfnin. Greip töngina, kom henni vandlega fyrir á tönninni, hnúarnir hvítnuðu, hélt úlnliðnum stífum samkvæmt leiðbeiningum og byrjaði að reyna að losa um tönnina. Leyfði mér að gjóa augunum á andlit bóndans og var ekki viss um að honum litist á blikuna. Beitti þolinmæðinni, hélt áfram með hægum en öruggum hreyfingum og allt í einu var tönnin laus. Nú stóð ég fyrir framan bóndann, við störðum báðir á tönnina í tönginni eins og naut á nývirki og mátti ekki á milli sjá hvor var meira hissa. Náði fljótt áttum og lauk þessu með kæruleysislegu yfirbragði. Fyrstu tanntökunni lokið.
Leið nú fram á þorra. Þorrablót í sveitinni voru skemmtanir sem áttu sér engar líkar og að sjálfsögðu vorum við mætt á svæðið. Eftir frábæran þorramat, skemmtiatriði og í góðri stemningu losnaði um borðhaldið. Ég var varla staðinn á fætur þegar bóndinn sem ég dró tönnina úr um haustið kom til mín og sagðist endilega þurfa að tala við mig í trúnaði. Ég vissi ekki á hverju ég átti von. Ekki óvenjulegt að fólk tæki mann afsíðis á ýmsum stöðum, til dæmis í kaupfélaginu, og segði manni sjúkrasögur og vildi fá úrlausn sinna mála. Var hann óánægður með síðustu samskipti okkar við tanntökuna? Hvað vissi ég? Hann hafði ekki kvartað. Það var hins vegar ekki heiglum hent að finna eitthvað prívat í félagsheimilinu á þorrablóti til að ræða trúnaðarmál. Bændur og búalið fylltu hvern krók og kima og fólk naut stundarinnar. Loks tókst okkur að finna lausan kima. Það var undir stiganum upp á loft og þangað dró hann mig á fjórum fótum inn í hornið undir stiganum. Þetta hlaut að vera eitthvað mjög alvarlegt. Þarna húktum við á hækjum okkar, hann leit flóttalega út úr horninu og sagði í hálfum hljóðum:
Það tókst svo andsk... vel hjá þér að rífa úr mér tönnina í haust, ertu ekki til í að hreinsa á mér kjaftinn?
Ég segi kannski síðar frá afrekum mínum í dýralækningum.