1. tbl. 107. árg. 2021
Umræða og fréttir
Frá Embætti landlæknis 36. pistill. Tauga- og geðlyfjanotkun á Norðurlöndum
Notkun lyfja í flestum lyfjaflokkum er áþekk meðal Norðurlandaþjóðanna ef frá er talin notkun tauga- og geðlyfja sem hefur lengi verið hæst á Íslandi.1 Munurinn skýrist að einhverju leyti af því að fleiri einstaklingar fá ávísað tauga- og geðlyfjum á Íslandi (mynd 1). Árið 2019 fengu 36% Íslendinga ávísað einu eða fleiri lyfjum úr flokki tauga- og geðlyfja en 27-29% einstaklinga fengu ávísað á hinum Norðurlöndunum. Frá árinu 2017 hefur heldur dregið úr fjölda notenda á Íslandi en ef hlutfallslega jafn margir notuðu lyfin hér á landi og í Danmörku hefðu 26.000 færri Íslendingar fengið lyfin árið 2019. Notkunin er mjög áþekk á hinum Norðurlöndunum og hefur lítið breyst undanfarin ár.
Mynd 1. Hlutfall einstaklinga sem fá ávísað tauga- og geðlyfjum á Norðurlöndum 2014-2019.
Munurinn á fjölda einstaklinga í löndunum er mismunandi á milli undirflokka tauga- og geðlyfja (sjá mynd 2) en athygli vekur að Danmörk er með hlutfallslega fæsta notendur í öllum flokkum en Danir eru næst hæstir í heildarhlutfalli einstaklinga sem fá tauga- og geðlyf. Þetta bendir til þess að fjöllyfjanotkun tauga- og geðlyfja sé mismikil innan landanna, sem gæti verið rannsóknarefni. Áberandi flestir notendur örvandi lyfja eru á Íslandi en nærri þrefalt fleiri fá lyfin hér á landi miðað við fjölda notenda hjá næstu þjóð.
Mynd 2. Fjöldi notenda helstu tauga- og geðlyfja á Norðurlöndum árið 2019.
Frá árinu 2017 hefur notkun sumra tauga- og geðlyfja á Íslandi heldur minnkað en það er þó enn langt frá því að notkunin verði sambærileg og meðal annarra Norðurlandaþjóða. Mörg tauga- og geðlyf teljast ávanabindandi og er vitað að einhver hópur einstaklinga notar lyfin óhóflega; í of miklu magni og/eða of lengi. Þegar einstaklingar byrja notkun ávanabindandi lyfja er alltaf einhver hætta á að þeir ánetjist lyfjunum. Afleiðingar óhóflegrar notkunar birtast á margvíslegan hátt og geta bæði skert lífsgæði tímabundið en einnig valdið varanlegum skaða. Niðurstöður nýlegrar rannsóknar sýna að á Íslandi eru fleiri sem deyja vegna eitrana en á hinum Norðurlöndunum og að lyf eru ráðandi orsök andláta vegna eitrunar á Íslandi.2 Aðrar afleiðingar óhóflegrar notkunar lyfja eru ótaldar en það er líklega til mikils að vinna, bæði heilsufarslega og fjárhagslega, að draga enn frekar úr ávísunum tauga- og geðlyfjanotkun á Íslandi. Embætti landlæknis veit að læknar halda vöku sinni er kemur að ávísunum ávanabindandi lyfja og hvetur þá til að vera sérstaklega á verði gagnvart lyfjum sem leitt geta til eitrunar og hefur embættið áður vakið athygli á hættulegum lyfjablöndum.3
Heimildir
1. Nordic Welfare dataBASE - knowledge and numbers on Health and Social Protection in Nordic Countries. nowbase.org - desember 2020. | ||||
2. Simonsen KW, Kriikku P, Thelander G, et al. Fatal poisoning in drug addicts in the Nordic countries in 2017. Forensic Sci Int 2020; 313: 110343. https://doi.org/10.1016/j.forsciint.2020.110343 PMid:32563797 |
||||
3. Jóhannsson M, Aradóttir AB, Guðmundsson LS, et al. Hættulegar lyfjablöndur. Frá Embætti landlæknis 15. pistill. Læknablaðið 2016; 102: 461. |