1. tbl. 107. árg. 2021

Umræða og fréttir

Úr penna stjórnarmanna LÍ. Læknafélagið um áramót. Reynir Arngrímsson

Læknadagar 2021 - gleðidagar

Læknadagar 2021 verða með nýju sniði þetta árið í samræmi við breyttar aðstæður og samkomutakmarkanir. Ekki þarf að fjölyrða um mikilvægi símenntunar lækna, sem hefur legið í láginni allt árið sem var að líða. Vegleg fræðsludagskrá verður í boði eins og sjá má annars staðar í blaðinu. Læknadagar eru ekki hagnaðardrifinn viðburður og til að hægt sé að bjóða upp á jafn metnaðarfullan viðburð þarf að kosta ýmsu til. Aðeins er hægt að halda slíkri fræðsludagskrá uppi með sameiginlegu átaki allra félagsmanna. Þátttökugjöldum nú eins og áður er stillt í hóf til að standa undir kostnaði við uppsetningu og útsendingu dagskrárinnar. Allir sem vilja fylgjast með Læknadögum verða að vera með skráningu í sínu nafni. Nú geta læknar nálgast fyrirlestrana og annað efni í mánuð, sem skapar sveigjanleika fyrir þá og vinnustaðina. Úrvalið er fjölbreytt og með þessu fyrirkomulagi þarf enginn að missa af áhugaverðum málþingum. Auk fjölbreyttrar fræðslu- og símenntunardagskrár verða félagslega hlutanum einnig gerð skil á innri síðu ráðstefnunnar með sýningum á ýmsu gleðiefni úr fórum lækna.

Kjaramál – skref í áttina

Þann 7. desember síðastliðinn var skrifað undir nýtt samkomulag um breytingar og framlengingu á kjarasamningi LÍ og ríkisins eftir 22 mánaða samningaþóf. Samkomulagið felur fyrst og fremst í sér breytingar á grunnlaunum og að stigið var skref til samræmingar við kjarasamning Skurðlæknafélags Íslands ásamt breytingum á orlofskaflanum sem fela meðal annars í sér lengingu orlofs hjá yngri læknum í 30 daga. Á móti koma ákvæði um breytingar á frestun og fyrningu orlofs. Helsti ávinningur samkomulagsins var að sérstaklega var stigið skref hvað varðar launasetningu sérnámslækna og er vonast til að það styrki uppbyggingu og áhuga á framhaldsnámi á Íslandi og bæti hag þeirra lækna. Er það líka í samræmi við stefnu „lífskjarasamkomulagsins“ um áherslu á lægri launaflokkana. Ekki náðist samkomulag um styttingu vinnuvikunnar né ýmis ákvæði sem þarf að laga fyrir ákveðna hópa fremur en heildina. Það skal ekkert dregið úr því að margt þarf að leiðrétta sem ekki hefur náðst fram í fyrri samningum. Grunnlaunahækkun skilar sér til allra og hefur áhrif til hækkunar annarra launaliða samningsins. Áhersla á grunnlaunahækkun var í samræmi við niðurstöður skoðanakönnunar LÍ á meðal félagsmanna en 80% settu það í fyrsta sæti sem forgangsatriði í kjaramálum. Næst komu aðgerðir til þess að draga úr álagi, 47%, stytting vinnuvikunnar, 37%, hærra vaktakaup, 30%, og endurskoðun frítökuréttar, 23%. Bókanir sem fylgja samningnum eru 14 og taka til ýmissa mála. Sumar sem varða alla lækna, svo sem um veikinda- og slysarétt, og aðrar sem lúta að hagsmunum ákveðinna hópa. Má þar nefna læknisþjónustu og mönnun lækna í dreifbýli, skoðun á framkvæmd ákvæðis 3.2.4 um helgunarálag, sem fjallað er um í lögfræðipistli blaðsins, og um fræðslumál lækna og skráningu símenntunar, sem aðalfundur LÍ hefur lagt áherslu á í ályktun sinni. Lengi vel var tekist á um þessi atriði í samningaviðræðunum en að lokum fallist á að setja bókanir sem kveða á um sameiginlega vinnuhópa sem skoða málin. Til að styðja lækna sem taka þátt í þessum vinnuhópum til undirbúnings hefur verið ráðinn verkefnastjóri og er það nýjung í starfsemi og eftirfylgni kjarasamninga LÍ.

Kandídatsárið – tími á endurskoðun

Hafin er endurskoðun á reglugerð um menntun, réttindi og skyldur lækna og skilyrði til að hljóta almennt lækningaleyfi og sérfræðileyfi. Mikilvægt er að skilyrðum um veitingu almenns lækningaleyfis sé komið í sama farveg og á Norðurlöndum. Þar hefur verið afnumin krafa um viðbótarstarfsnám að afloknu háskólaprófi í læknisfræði til að hljóta almennt lækningaleyfi. Þetta misræmi er nú þegar farið að valda þeim sem fara í framhaldsnám vandræðum. Félag læknanema hefur vakið athygli heilbrigðis- og háskólayfirvalda á þessu misræmi og kallað eftir viðbrögðum. Eyða verður þeirri óvissu sem mismunandi reglur milli landanna geta valdið. Taka ber undir áhyggjur Félags læknanema um ójafnræði sem þetta getur skapað fyrir þá sem útskrifast hérlendis og hyggja á framhaldsnám erlendis en líka fyrir þá sem ljúka grunnnámi erlendis með almennu lækningaleyfi og flytjast heim. Hyggilegast sýnist að með embættisprófi frá læknadeild HÍ hljóti nemendur jafnframt almennt lækningaleyfi í stað tímabundins lækningaleyfis að fyrirmynd til dæmis Noregs og Svíþjóðar. Fyrsta ár eftir útskrift sé hluti af framhaldsnámi eða undirbúningi framhaldsnáms læknis með almennt lækningaleyfi. Því fyrr sem óvissunni er eytt, því betra.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica