1. tbl. 107. árg. 2021

Umræða og fréttir

Læknar geta notið Læknadaga í heilan mánuð, Margrét Aðalsteinsdóttir stýrir þeim

„Sveigjanleikinn verður í fyrirrúmi. Langar vaktir eða búseta utan höfuðborgarsvæðisins þurfa ekki að hindra þátttöku á Læknadögum, allir geta notið dagskrárinnar,“ segir Margrét Aðalsteinsdóttir, starfsmaður Fræðslustofnunar lækna og Læknafélagsins. Hún heldur utan um Læknadaga í ár sem fyrri ár.

„Já, það er eins með Læknadaga og aðrar ráðstefnur um þessar mundir. Rafrænir,“ segir hún. Ráðstefnunni verður streymt frá Hörpu dagana 18. til 22. janúar. Gæðin verða því mikil. Sérstök heimasíða heldur utan um dagskrána og sér Advania um hana en tæknimenn Hörpu sjá um útsendinguna.

„Ekkert Teams, engir tækniörðugleikar,“ lofar Margrét. „Hægt verður að horfa á málþingin í beinni en einnig nálgast þau í mánuð eftir útsendinguna. Enginn þarf því að missa af málþingunum þótt fleiri en eitt séu í gangi á hverjum tíma.“

Málþingin eru mæld í tugum, eða yfir 30 auk hádegisfyrirlestra. Vel yfir 130 manns taka þátt í umræðum og halda fyrirlestra. Aðgangseyrir er 30.000 krónur.

Fyrsta læknaþingið sem Margrét Aðalsteinsdóttir hafði yfirumsjón með var þriggja daga endurmenntunarþing lækna haldið á Hótel Loftleiðum árið 1994. Á Læknadögum 2021 er Margrét enn skipperinn í brúnni og með alla (rafmagns-)þræði í hendi sér. Mynd/gag



Þetta vefsvæði byggir á Eplica