1. tbl. 107. árg. 2021
Umræða og fréttir
Meiri líkur á öndunarfærasýkingum ef D-vítamín skortir, segir Hannes Hrafnkelsson, heimilislæknir á Seltjarnarnesi
„Rannsóknir benda til þess að ef einstaklingur er lágur í D-vítamíni aukist líkur á öndunarfærasýkingum, sem er hægt að fækka með því að gefa reglulega D-vítamín“
Hannes Hrafnkelsson heimilislæknir hvetur til inntöku D-vítamíns og bendir á að það hjálpi þeim sem veikist af COVID-19. Mynd/gag
„Nýleg rannsókn í Nature sýnir að fólk sem lagðist inn á sjúkrahús vegna COVID-19 og hafði lágt D-vítamín-gildi fór verr út úr veikindum sínum en það sem mældist með eðlilegt D-vítamín,“ segir hann og hvetur til árvekni og inntöku vítamínsins, sérstaklega nú í faraldrinum þegar margir séu enn meira inni við en áður. Sólarljós er helsta uppspretta D-vítamíns að sumri til.
Rætt verður um mikilvægi D-vítamíns á Læknadögum 21. janúar. Hannes opnar málþingið. „Það er löngu komið í ljós að vítamínið er mjög mikilvægt en það þarf að minna á það,“ segir hann og nefnir þekktar afleiðingar D-vítamínskorts eins og beinkröm og beinmeyru. Nú sé vitað að D-vítamín hefur áhrif á margvíslega starfsemi líkamans.
Hann vísar í fræðigrein sem birtist í Læknablaðinu í maí á þessu ári og Berglind Gunnarsdóttir heimilislæknir leiddi, sem sýnir að þéttni D-vítamíns í blóði hjá meirihluta barna og ungmenna hér á landi, eða um 60% þeirra, sé undir ráðlögðum gildum Embættis landlæknis. „Í endurteknum mælingum voru 40% krakka undir því sem landlæknir ráðleggur. Bara 13% voru með endurtekið gildi sem landlæknir metur nægjanlegt,“ segir hann.
Rannsóknin var gerð á sömu krökkum aftur með nokkurra ára millibili og segir Hannes ljóst að þegar ungbarnaeftirliti sleppir hætti margir foreldrar að gefa krökkunum D-vítamín. „Við sáum að mjög lítill hluti 7 ára krakka var að taka lýsi eða D-vítamín.“
Hann hvetur til átaks í öllum aldurshópum og þá sérstaklega hjá þeim í áhættuhópi eins og gert er í fræðigreininni í Nature. Ekki hafi skort á umræðu um mikilvægi þess, sem þó virðist litlu skila. „Við foreldrarnir berum þessa ábyrgð,“ segir hann. Embætti landlæknis mælir með að hver taki um 800 einingar daglega og tekur Hannes undir þær ábendingar. Ekki hafi þó verið hægt að sýna fram á skaðleg áhrif D-vítamíns þótt fólk taki allt að 4000 einingum á dag.
Nefnir hann að einstaklingar með skert frásog, eins og til dæmis þeir sem hafi undirgengist aðgerðir vegna offitu, gætu þurft stærri skammta en þá sem Embætti landlæknis ráðleggur.
„Hópurinn fer stækkandi,“ segir hann. „Þeir sem hafa látið taka hluta þarmanna eru sumir með þann fylgikvilla að frásoga ekki vítamínin eins vel og áður. Þeir geta því þurft meira.“
Hannes Hrafnkelsson heimilislæknir hvetur til inntöku D-vítamíns og bendir á að það hjálpi þeim sem veikist af COVID-19. Mynd/gag