1. tbl. 107. árg. 2021

Umræða og fréttir

Veirugreiningartækið komið, segir Karl G. Kristinsson, prófessor og yfirlæknir á sýkla- og veirufræðideild

„Léttir og ánægja,“ segir Karl G. Kristinsson, prófessor og yfirlæknir á sýkla- og veirufræðideild Landspítala, en nýtt veirugreiningartæki sem beðið hafði verið eftir kom til landsins 13. desember. Von var á tækinu í nóvember en það getur greint allt að 4000 sýni daglega. „Við höfum ekki fengið einhlítar skýringar á seinkuninni aðrar en ástandið vegna COVID.”

Karl segir að vegna samstarfs við Íslenska erfðagreiningu þar sem 18 starfsmenn deildarinnar hafi haft aðstöðu, hafi seinkunin ekki komið að sök. „Við höfum því verið með fullnægjandi afkastagetu, en með tækinu getum við flutt til baka.“

Þrír tæknimenn frá Bretlandi eru væntanlegir í janúar til að setja tækið upp og reiknað er með að taka það í notkun um 20. janúar. „Fyrst um sinn verður það aðallega nýtt fyrir COVID. Við vitum ekki hvernig faraldrinum vindur fram og hvenær verður komið hjarðónæmi en þá notum við það fyrir aðrar rannsóknir. Þetta tæki getur greint miklu fleira en COVID. Bæði veirur og bakteríur,“ segir hann.

„Við getum því boðið mun betri þjónustu, styttri svartíma og fleiri rannsóknir.“

Karli G. Kristinssyni yfirlækni á Landspítala er létt því að tækið sem beðið hefur verið eftir er komið í hús. Það verður sett upp í janúar. Mynd/LæknablaðiðÞetta vefsvæði byggir á Eplica