1. tbl. 107. árg. 2021

Umræða og fréttir

Yfir 600 íslenskir læknar í útlöndum, sagði Ásta Valdimarsdóttir á Heilbrigðisþingi 2020

Alls eru 602 íslenskir læknar erlendis. 60% þeirra eru í Svíþjóð, 19% í Noregi, 10% í Bandaríkjunum, 7% í Danmörku og 4% í Bretlandi. „Líklega eru 190 af þeim í sérnámi, ef maður skoðar aldurssamsetninguna,“ sagði Ásta Valdimarsdóttir, ráðuneytisstjóri heilbrigðisráðuneytisins, á Heilbrigðisþingi 2020.

60% íslenskra lækna erlendis eru í Svíþjóð. Talið er að 190 af um 600 læknum erlendis séu í sérnámi.

Hún sagði að búast mætti við að 60 útskrifist úr grunnlæknanámi erlendis árið 2025. Þar af útskrifist 53 frá Slóvakíu, eða 20 fleiri en verði árið 2024. Sjá má á tölum ráðuneytisins að læknanemum í Ungverjalandi fækkar á meðan þeim fjölgar í Slóvakíu. Þrír útskrifast á ári frá Danmörku fram til ársins 2025.

Ásta sagði frá því að 222 stundi sérnám í læknisfræði hérlendis í ár, þar af séu 68 í heimilislækningum. Hún nefndi einnig að 95 séu í meistaranámi í hjúkrunarfræði og 38 í ljósmóðurfræði. Þá séu 125 í diplómanámi.

Hún segir mjög jákvæða þróun í heimilislækningum. „Það hefur verið lögð áhersla á það hjá ráðherra að auka sérfræðinám í heimilislækningum,“ sagði hún. Þá væri verulega ánægjulegt að sjá fjölgunina í doktorsnámi við Háskóla Íslands, úr 11 árið 2015 í 34 árið 2019.

Ásta fór einnig yfir samanburð við önnur ríki. Þar kom fram að færri læknar væru að meðaltali á hverja 1000 íbúa hér (3,9) en í Svíþjóð (4,1), Danmörku (4,0) og Noregi (4,8). Miðað var við nýjustu gögn OECD (2016-2018). Þar kom einnig fram að laun lækna sem hlutfall af meðallaunum landsmanna væru 2,1 hér á landi, 2,3 í Svíþjóð, 2,6 í Danmörku en 1,8 í Noregi.

„Hér erum við þó með mun fleiri sérfræðilækna en almenna lækna,“ sagði Ásta. Hún fór einnig yfir mat á mannaflaþörf miðað við spá forsvarsmanna 33 heilbrigðisstofnana. Fram kom í svörum þeirra að mikill skortur væri á hjúkrunarfræðingum, bæði á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni. Þörfin væri minni hjá sjálfstætt starfandi stofnunum en ríkisreknum. Fram kom að ekki væri metinn mikill skortur á læknum á höfuðborgarsvæðinu en meiri skortur væri á landsbyggðinni.

Ráðuneytið leggur mat á þörf eftir mannfjöldaspá til ársins 2030. Það telur að fjölga þurfi starfsfólki innan heilbrigðiskerfisins almennt um 12% samkvæmt „háspá“ eða þeirri sem metur þörfina mesta.

Offita mest hér í Evrópu

„Ísland er núna með hæsta hlutfall fólks í ofþyngd í Evrópu,“ sagði Ásta Valdimarsdóttir, ráðuneytisstjóri heilbrigðisráðuneytisins þegar hún fór yfir tækifærin í áskorunum sem heilbrigðiskerfið horfir fram á. „Við erum að nálgast Bandaríkin. Þetta eru hræðilegar tölur,“ sagði hún.

„Við sjáum að sjálfsögðu aukinn stoðkerfisvanda á Íslandi. Við sjáum 50% aukningu milli ára á blóðsykurslækkandi lyfjum – þá er ég ekki að tala um insúlín.“

Ásta Valdimarsdóttir fór yfir fjölda leyfa og áætlanir um mannafla í heilbrigðiskerfinu á Heilbrigðisþingi í lok nóvember. Mynd/SkjáskotÞetta vefsvæði byggir á Eplica