12. tbl. 105. árg. 2019

Umræða og fréttir

Fréttasíðan

WMA lýsir yfir andstöðu við klónun manna

                                 
                                  Huti vinnuhópsins á vegum WMA. Reynir Arngrímsson í aftari röð.                                 

Alþjóðasamtök lækna, WMA, hafa að frumkvæði Læknafélags Íslands samþykkt í yfirlýsingu að erfðarannsóknir eigi fyrst og fremst að gera í þágu sjúklinga. Leggja eigi áherslu á að virða sjálfsákvörðunarrétt þeirra og óskir.

„Erfðapróf eða erfðameðferð skal aðeins fara fram með upplýstu samþykki sjúklings,“ segir í fréttatilkynningu LÍ.

Reynir Arngrímsson, formaður LÍ, sat aðalfund félagsins í Tbilisi í Georgíu nú í október og er yfirlýsingin sögð afdráttarlaus um andstöðu Alþjóðasamtaka lækna gegn klónun á mönnum eða klínískri nýtingu á erfðatækni til breytinga á fósturfrumum og kímlínufrumum manna.

Björn Zoega lætur fara

Karólínska sjúkrahúsið í Svíþjóð sagði 600 starfsmönnum upp í byrjun nóvembermánaðar en 550 misstu vinnuna í maí á þessu ári. Björn Zoega, forstjóri spítalans, segir að með þessari aðgerð sé leitast við að koma á jafnvægi til framtíðar, en enn þurfti að huga að kostnaðaraðhaldi. Framtíðarsýn hans sé að fókusinn verði á vinnu, rannsóknir og þjálfun í stað þess að einblína öllum stundum á rekstur.

Sjúkrahótelið mikil búbót

                                                           

Sjúkrahótelið sem opnaði í vor er mikla búbót fyrir geisladeild Landspítala. Þetta sagði Jakob Jóhannsson, yfirlæknir geislameðferðar krabbameina á Landspítala, á málþingi vegna 100 ára afmælis geislunar á Íslandi.
Hótelið geri það að verkum að einungis 10 stór skref þurfi til að komast í geisla.

Sólrún Rúnarsdóttir, hótelstjóri Sjúkrahótelsins, segir stefna í mjög góða nýtingu hótelsins og nánast sé fullbókað fram að jólum. „Við höfum tekið 70 herbergi í notkun.“ Aðeins 5 stand nú ónotuð.

Jakob nefndi að um 1600 manns greinist með krabbamein á ári. 775 einstaklingar hafa á árinu 2017 verið geislaðir. „Það segir mér að við erum ekki að ofgeisla, en við spyrjum hvort við séum að vangeisla,“ sagði Jakob á málþinginu.

Semja við Sjúkratryggingar um frekari geislameðferðir hér heima

Samningaviðræður á milli Sjúkratrygginga Íslands og Landspítala svo að spítalinn geti nú þegar boðið hnitmiðaða geislameðferð hér á landi eru á byrjunarstigi. Þetta segir Hlíf Steingrímsdóttir, framkvæmdastjóri aðgerðasviðs í nýju skipuriti Landspítala. Spítalinn er tilbúinn og bíður niðurstöðunnar til að hefjast handa en semja þarf um að fjármagnið sem áður fór í að greiða fyrir þessar aðgerðir erlendis fari til spítalans.

Hanna B. Henrysdóttir, heilsuhagfræðingur og eðlisfræðingur á geislaeðlisfræðideild Landspítala, segir stefnt að því að meðhöndla meinvörp í heila með tækninni. Hún sé mun nákvæmari en sú sem nú er í boði og minnki aukaverkanir til muna.

                                                                         
                                                                         Hanna B. Henrysdóttir,
                                                                        eðlisfræðingur á geislaeðlisfræðideild
                                                                         Landspítala, talaði á málþingi
                                                                         sem haldið var á 100 ára afmæli
                                                                         geislameðferða á Íslandi. Mynd/gag

„Búist er við að um 40 manns njóti meðferðarinnar árlega,“ segir hún. Kostnaðurinn við hugbúnaðinn og uppsetninguna sé um 100 milljónir króna. „Við munum hætta að senda sjúklinga út til London í gammahnífinn, sem þýðir einnig að þeir sjúklingar sem við treystum ekki til að senda út geta fengið meðferð á Íslandi í staðinn. Það yrði meira jafnræði þar,“ segir Hanna sagði frá tækninni á málþingi um geislameðferð krabbameina í 100 ár, sem haldið var 7. nóvember á Landspítala.

„Okkur vantar að geta gefið svona háan skammt,“ sagði hún. „Í staðinn fyrir að gefa skammtinn á allan heilann erum við aðeins að gefa á meinvörpin og hlífum því heilbrigðum vef sem veldur því miklu minni aukaverkunum.“

Hlíf og Hanna segjast vongóðar um að hefjast handa sem fyrst, Hanna nefnir árið 2020. „En nú stendur spítalinn í miklum breytingum. Ástandið er skrýtið. Yfirstjórnin tekur breytingum,“ segir hún og að hún óttist að það geti valdið því að ákvarðanir frestist.

Hækkandi lyfjakostnaður krefjandi fyrir heilbrigðiskerfi heimsins

„Sífellt fleiri fá krabbamein og sífellt fleiri lifa það af,“ sagði Linda Aagaard Thomsen, lyfjafræðingur hjá Danska krabbameinsfélaginu, á opnum fyrirlestri á ráðstefnu norrænna læknanema, FINO 2019, í Hringsal Barnaspítalans. Hún er meðlimur í vinnuhópi á vegum ECL ECL (The Association of European Cancer Leagues) og European Fair Pricing Network og fjallaði um áskoranir sem felast í kostnaði og aðgengi að nýjum krabbameinslyfjum. Ráðstefnan er árleg og á 5 ára fresti hér á landi.

                                           
                                            Linda Aagaard Thomsen, lyfjafræðingur hjá Danska
                                            krabbameinsfélaginu, hélt opinn fyrirlestur á árlegri ráðstefnu norrænna
                                            læknanema, en ráðstefnan er haldin 5. hvert ár hér á landi. Mynd/gag

Thomsen ræddi um hvernig lyfjakostnaður danska ríkisins hefði síðustu ár hækkað vegna krabbameinslyfja. 9% fjármagns til heilbrigðiskerfisins fari í lyf í Danmörku. „Einn þriðji þessarar upphæðar fer í krabbameinslyf,“ sagði hún og fór yfir hvernig upphæðin hefur hækkað ár frá ári. Árið 2007 hafi 5 milljarðar danskra króna farið í lyf en nú 9,2 milljarðar danskra króna, eða 175 milljarðar íslenskra króna.

Thomsen sagði að lyfjaverð leiki æ stærra hlutverk við meðferðina. „Verðið er á uppleið rétt eins og umræðan um hvort meðferðirnar séu sjálfbærar.“ Stjórnvöld reyni að bregðast við þessum aukna vanda og lækka verð.

„Þau velja jafnvel á milli lyfja því þau telja sig ekki hafa efni á þeim öllum,“ sagði hún og nefndi sem dæmi í fyrirspurnum að hollensk yfirvöld hefðu hafið lyfjaframleiðslu til að sporna við vandanum.

Hún sagði frá samvinnunni innan ECL þar sem 25 félög frá 23 Evrópulöndum hafi frá árinu 2013 unnið að því að allir Evrópubúar fái árangursríkustu meðferð við krabbameini sem völ er á. „En til þess þarf að vera gagnsæi í verðlagningu lyfjanna.“

Hún fór einnig yfir aðrar áskoranir í erindi sínu, eins og ólíka löggjöf milli landa, sem geti haft áhrif á hvort lyfin fáist. Þá hafi ECL einnig skoðað hvort lyfin sem eru gefin væru eins árangursrík og ætla mætti. „Við höfum séð að krabbameinssjúklingar í Evrópu hafa ekki aðgang að sömu meðferðunum,“ sagði hún og nefndi til að mynda ólíka meðferð við lungnakrabbameini. Þær nýjustu væru ekki endilega í boði í austurhluta Evrópu.

„Þegar við lítum á markaðinn síðustu 10 ár sjáum við mikinn mun á því hvað býðst í hverju landi. Við sjáum hvernig fátækari lönd geta keypt lyfin á lægra verði, en selja þau jafnharðan. Við sjáum einnig að sum þessara ódýrari lyfja seljast upp,“ segir hún. „Við sjáum hvernig lyfjafyrirtæki skortir hvata til að halda ódýrari lyfjum á markaðnum. Þegar þau framleiða ný og dýrari lyf taka þau ódýrari lyfin af markaði. Það hefur mikil áhrif á fátækari lönd Evrópu. Við sjáum því mikinn mun á austur- og vesturhluta Evrópu,“ sagði hún.

Fjöldi verkefna komið út úr samstarfi læknanema

Bjargráður, Ástráður og Bangsaspítalinn eru allt verkefni sem ráðist hefur verið í hér á landi eftir árlega ráðstefnu norrænna læknanema. Ráðstefnan er 5. hvert ár hér á landi og voru gestirnir í ár um 60 með 10 skipuleggjendum. Þetta segir Sólveig Bjarnadóttir, formaður Félags læknanema og ein skipuleggjenda ráðstefnunnar. Hún var ánægð með viðburðinn.

                                            
                                             Teitur Ari Theodórsson og Sólveig Bjarnadóttir við fyrirlestur Lindu
                                             Aagaard Thomsen á FINO 2019, ráðstefnu norrænna læknanema. Mynd/gag

„Þessi opni fyrirlestur Thomsen stóð upp úr,“ segir Sólveig. Einnig hafi verið ánægjulegt hve margir erlendu gestanna tóku þátt í skemmtidagskrá ráðstefnunnar. Þeir hafi farið í ferð um Suðurland.

Ráðstefnugestir sátu 9 fyrirlestra og tóku þátt í vinnubúðum. „Frábært er að fá tækifæri til að hitta norræna læknanema. Við fáum hugmyndir að verkefnum og höfum sýnt að við framkvæmum þær,“ segir hún.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica