11. tbl. 105. árg. 2019

Umræða og fréttir

Bréf til Læknablaðsins - um grein um nárakviðslit

                                            

Ég vil þakka gott Læknablað sem ég les með ánægju í byrjun hvers mánaðar. Eftir lestur síðasta tölublaðs 9/2019 langar mig að koma á framfæri athugasemdum við grein á bls. 385 sem ber heitið Nárakviðslit – yfirlitsgrein. Greinin er vel upp sett, með aðgreindu (box) viðbótarefni er tekur til skilgreininga og líffærafræði, ásamt myndum sem sérstaklega voru gerðar fyrir þessa grein. Athugasemdir mínar taka til þessara tveggja síðastnefndu þátta. Í boxi 2 Líffærafræði nárans má lesa eftirfarandi:

„Á fósturskeiði myndast náragangurinn (inguinal canal) þegar sáðstrengurinn (funicle) gengur niður í pung“

Sáðstrengur er ekki til sem líffæraheiti á íslensku, hvorki í merkingunni sáðrás (ductus deferens) né kólfur (funiculus spermaticus). Kólfurinn samanstendur meðal annars. af sáðrás, eistnaslagæð og eistnabláæðum sem gjarnan koma fyrir sem bláæðanet sem kallast kólfsflækja (plexus pampiniformis). Þegar þessi texti (box 2) er borinn saman við mynd 1 A. hluta má sjá „sáðstreng“ svara til kólfs og í honum er sáðrás merkt sérstaklega sbr. að ofan. Í B. hluta sömu myndar er „sáðstrengur“ það aðskilinn frá eistnaæðum, að hér er væntanlega verið að sýna sáðrás.

(funicle) er dregið af latneska orðinu fūniculus sem er strengur (cord). Eitt og sér (innan sviga) tengist orðið almennri líffærafræði, en hefur enga þýðingu í sértækri líffærafræði.

„Sáðstrengurinn inniheldur sáðrás (vas deferens) og eistnaæðar (spermatic artery/vein)“

Almennt er talað um sáðrás sem ductus deferens en í alþjóða líffærafræði er vas deferens, sem sáðrás, ekki til. Þess ber að geta að á mörgum myndum/texta, sem finna má á netinu og í Gray‘s Anatomy, má sjá líffæraheitið vas deferens í merkingunni sáðrás, en ductus er réttara að nota, þar sem vas svarar til æða, innihaldandi blóð eða vessa (umræða hefur átt sér stað varðandi orðanotkun Gray‘s þar sem alþjóða viðurkenndri orðanotkun er oft ekki fylgt).

Í alþjóða líffærafræði eru arteria og vena spermatica alls ekki til. Í gömlum heimildum má rekast á internal spermatic artery/vein en þessi æðaheiti eru löngu horfin.

Hvað varðar textann almennt, er hann sambland af íslensku og ensku þegar kemur að lýsingu á líffærafræðinni og er það miður þó ekki sé hann efnislega rangur, fyrir utan athugasemdir að ofan, að viðbættu því að enginn vöðvi heitir rectus vöðvi.

Mynd 1 A. hluti. Hér er vert að athuga slíður beins kviðvöðva vagina musculi recti abdominis, en það er ekki í 3 hlutum eins og sýnt er á mynd – svarandi til þeirra þriggja vöðvalaga sem mynda kviðvegginn og eru hliðlægt við beinan kviðvöðva.

Mynd 1 B. hluti. Hér er sjónarhornið innanfrá og út og er því niður (inferior) stefna/lega ytri mjaðmaræða (a. et v. iliaca externa) óvenjuleg í hæsta máta. Einnig er myndræn túlkun á mjaðmakambi óvenjuleg og það vantar að klára hliðlæga (bein) lokun á vöðvagloppunni sem liggur hliðlægt undir nárabandinu, en þannig má sýna hvernig mjaðmakamburinn tengist (er samvaxinn) lífbeininu.

Almennt, hvað varðar textamerkingar í mynd, er hann sambland af íslensku og ensku þegar kemur að lýsingu á líffærafræðinni og er það miður.

Ég starfa við kennslu í líffærafræði við læknadeild HÍ og að auki starfaði ég að hluta í mörg ár við læknisfræðilega myndsköpun. Ég er reiðubúinn að liðsinna og gefa ráð hvað varðar líffærafræðileg álitaefni og/eða myndræna framsetningu á líffærafræði hvenær sem er.

Með kveðju

Hannes Petersen læknir

Heimildir

1. Nomina Anatomica - Líffæraheiti. Ritstjóri Magnús Snædal. Heimskringla, Háskólaforlag Máls og menningar, Reykjavík 1996.
 
2. Líffæri mannsins. Heinz Feneis. Heimskringla, Háskólaforlag Máls og menningar, Reykjavík 1991.  
 
3. Terminologia Anatomica. Federative Committee on Anatomical Terminology. Thieme, Stuttgart - New York 1998.  
 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica