11. tbl. 105. árg. 2019

Umræða og fréttir

Fréttasíðan

Landspítali sker niður vegna launanna

Segja öryggi sjúklinga ógnað

Öryggi sjúklinga er ógnað á Landspítala vegna manneklu, sagði Marta Jónsdóttir, formaður hjúkrunarráðs Landspítalans í fréttum RÚV þann 21. október.

Landspítali hefur boðað skipulagsbreytingar vegna vanreiknaðs launakostnaðar vegna launahækkana sem nemur um milljarði á ári og tekur vaktaálagsauka af hjúkrunarfræðingum og ljósmæðrum. Marta segir það jafngilda 5 prósenta launalæknnun. Hjúkrunarfræðingar hugsi sér til hreyfings.

      

Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra sagði í sjónvarpsfréttum 20. október að launahækkanir hafi ekki verið bættar, enginn hafi hugsað sér að launahækkanir til heilbrigðisstétta ætti að koma niður á þjónustunni.

Ebba Margrét Magnúsdóttir, formaður læknaráðs spítalans, sagði þá einnig að ekki ætti að mæta hallarekstri spítalans með niðurskurði eða skipulagsbreytingum. Nú verði að gefa í en ekki draga saman seglin á spítalanum.

Augnlæknir yfir frímúrurum

Kristján Þórðarson augnlæknir hefur tekið við sem stórmeistari Frímúrarareglunnar á Íslandi. Hann tók við stöðunni af Val Valssyni, fyrrverandi bankastjóra, sem var stórmeistari Frímúrarareglunnar frá árinu 2007. Kristján hefur síðustu ár verið kanslari reglunnar.

Landlæknir á Höfðatorg

Landlæknir flytur með starfsemi embættisins á Höfðatorg í Katrínartúni í nóvember. Embættið verður á 6. hæð. Það leigir húsnæðið af Regin fasteignafélagi. Húsnæðið er 1500 fermetrar en um 80 starfa hjá embættinu.

 

                                         
                                          Læknanemar lögðust á eitt við að merkja og pakka nýútgefnum
                                          Læknanemanum svo spenntir læknar og læknanemar fái eintakið sitt
                                          fljótt. Hér eru Hlíf Samúelsdóttir, á 4. ári, og svo þau Alda Kristín
                                         Guðbjörnsdóttir og Helga Margrét Þorsteinsdóttir, í efri röð, Hrafn Hlíðdal
                                         Þorvaldsson og Birna Brynjarsdóttir, sem öll eru á 6. ári og í ritnefndinni.
                                         Einnig eru í ritnefndinni: Arnar Snær Ágústsson, Hrafnhildur Bjarnadóttir,
                                         Andrea Björg Jónsdóttir og Guðrún Margrét Viðarsdóttir. Blaðið er prentað
                                         í Prenttækni rétt eins og Læknablaðið. Mynd/Prenttækni

Læknaneminn þekkir Læknanemann

Skrif í blað læknanema oft fyrsti vísir að vísindastarfi þeirra

„Við vinnum að blaðinu í heilt ár og því er mikið fagnaðarefni að sjá það útgefið,“ segir Helga Margrét Þorsteinsdóttir sem situr í mannmargri ritstjórn Læknanemans.

70. árgangur tímarits þeirra, Læknanem-- inn, kom út nú í október. Blaðið telst til fimm stiga vísindatímarits í ár líkt og undanfarin sjö ár. Höfundar ritrýndra greina fá því akademísk stig fyrir skrif sín.

Nemarnir gripu til þess ráðs í ár að dreifa blaðinu sjálfir til að spara sendingarkostnað. Það gerðu nemar á 4. ári og rann ágóðinn til útskriftarferðar þeirra. Ritstjórnin hjálpaði til við útburðinn.

„Mér fannst huggulegt að bera blaðið út. Var með gott podcast í eyrunum og laumaði blaði í lúgu,“ segir Helga Margrét. Mikil vinna liggi að baki. „En þegar allir leggjast á eitt verður verkið léttara. Það munar um hverja einustu hönd. Það vilja allir Lækna-nemanum vel.“

Mikið sé um viðeigandi fræðslu í blaðinu fyrir læknanema. „Við vitum best hverju ber að impra á. Það er alltaf stemning fyrir blaðinu og að fara yfir hvað hefur gerst í hverju aðildarfélagi. Það skiptir máli,“ segir hún en með skrifum í blaðið stígi margir sín fyrstu skref á vísindaferli sínum. Alls eru 233 skráðir í Félag læknanema.

GAG

Fá Viagra án lyfseðils í Noregi     

Norskur læknir bendir á að tækifæri til lækninga fari forgörðum. Karlar eldri en 18 ára munu geta keypt stinningarlyfið Viagra án lyfseðils í apótekum í Noregi frá næsta ári.     

                                                                               
                                                                             Ingunn Björnsdóttir,
                                                                             dósent við lyfjadeild
                                                                             Óslóarháskóla.
                                                                             Mynd/aðsend.

„Þetta er fyrst og fremst aðgengisspursmál; að hafa sem flestar leiðir opnar svo að karlar leiti síður á svarta markaðinn,“ segir Ingunn Björnsdóttir, dósent við lyfjafræðideild Óslóarháskóla og fyrrum varaformaður Lyfjafræðingafélags Íslands. „Viagra getur haft aukaverkanir og milliverkað við önnur lyf – en falsað Viagra getur í versta falli drepið,“ bendir hún á.

Í norska læknablaðinu Tidsskriftet bendir Ragnhild Ørstavik aðstoðarritstjóri á að í stað þess að rétta körlunum Viagra yfir búðarborðið hefði þurft að skoða hvaða ástæður séu að baki stinningarvandanum. Talið sé að 20-40% miðaldra karla glími við þann vanda og rótin sé misjöfn.

Ørstavik bendir á að konur séu vanar því að láta skoða æxlunarfæri sín. Alls 214.245 sinnum hafi konur haft samráð við heimilislækna í Noregi varðandi greiningu á „kviðarholi kvenna“ en enginn af 20 aðalflokkunum í hagskýrslum Noregs nái til kynfæra karla.

Ingunn bendir á að í norskum apótekum sé, ólíkt hér á landi, einnig hægt að fá bólusetningar fyrir ferðalög og flensu hjá lyfjafræðingi. Þá megi selja neyðargetnaðarvörn utan apóteka, þótt dæmi þess séu fá ef nokkur.

„Íslensk yfirvöld mættu gjarnan feta í fótspor þeirra norsku með það sem góð reynsla er af. Enn er ekki komin reynsla á sölu apóteka á Viagra, en þar sem norsku apótekin hafa hingað til uppfyllt væntingar yfirvalda þegar kemur að astmalyfjaleiðbeiningum, hjartalyfjaleiðbeiningum og bólusetningum fyrir flensufaraldri þykir mér líklegt að einnig takist vel til með Viagra.“ segir hún.

Í grein Ørstavik kemur fram að árið 2018 hafi meira en 6 milljónir meðferðarskammta verið seldir til rúmlega 107.000 notenda fyrir rúmlega 180 milljónir norskra króna, eða 2,55 milljarða íslenskra króna, í Noregi. Samkvæmt upplýsingum -Lyfjastofnunar voru skammtarnir 388.676 hér á landi fyrir rétt tæpa 51 milljón króna. Það gerir rétt rúma eina töflu á hvert einasta mannsbarn þessa lands, börn, konur og karla.

Ørstavik bendir á að gríðarlegur ágóði sé af sölu falsaðra stinningar-lyfja en hagnaðurinn sé um 2000 sinnum hærri en fyrir kókaín. Á sama tíma séu viðurlög lítil við því að selja fölsuð lyf. Í alþjóðlegri herferð á síðasta ári hafi 37% lyfjanna sem lagt var hald á í Noregi verið seld sem lyf við ristruflunum.

Ingunn segir, spurð hvort andstaða við tilfærslu lyfjauppáskrifta frá læknum til lyfja-fræðinga sé mikil í Noregi, viðhorfið helst það að telja að „næg armæða sé fyrir allar heilbrigðisstéttir“ eða eins og Norðmenn orði það: „der er armod nok til alle“. Menn þurfi því ekki að togast á um sjúklingana. Þeir geti þess í stað veitt þeim sem besta þjónustu. Það sé markmiðið. GAG

Heimild: Ørstavik R. Fordi det er flaut?
Tidsskr Nor Lægeforen 2019; 139: 1221.


Verðandi mæður sleppi snusi á meðgöngu

Börn eru líklegri til að fá hærri blóðþrýsting eftir 6 ára aldur ef móðir þeirra notaði sænsku snus tóbaksvöruna á meðgöngu. Þetta er samkvæmt nýrri rannsókn Feliciu Nordenstam við Karólínska sjúkrahúsið sem birt hefur verið í bandaríska hjartatímaritinu Journal of American Heart Association. Rannsókn hennar sýndi að börnin höfðu 4,2 mmHg hærri slagbilsþrýsting en börn mæðra sem ekki notuðu snus, samkvæmt vef Karólínska sjúkrahússins. 40 börn hafi komið að rannsókninni.

Jafnlaunavottunin á Landspítala mistök

„Það eru alvarleg mistök að halda áfram með starfsmatskerfið til jafnlaunavottunar sem Landspítali og Sjúkrahúsið á Akureyri vinna að. Kerfið er ónothæft og fangar hvorki eðli né inntak læknastarfsins,“ sagði Reynir Arngrímsson, formaður Læknafélags Íslands, í forsíðufrétt Fréttablaðsins mánudaginn 7. október.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica