10. tbl. 105. árg. 2019

Umræða og fréttir

Alma vill sjá markviss skref til jafnréttis í heilbrigðiskerfinu

Landlæknir segir nám í opinberri stjórnsýslu hafa opnað augu sín fyrir ólíkri stöðu kynjanna. Skoða þurfi stöðu ungra kvenna í heilbrigðisstéttum í kjölfar #MeToo sagna og það álag sem læknar greini frá

„Ómeðvituð framkoma í garð kynjanna og munur er ekki eitthvað sem maður lagar og breytir yfir nótt. Mikilvægt er því að vera með augun opin og vera meðvituð. Við höldum gjarna að við séum komin lengra í jafnréttismálum en við erum í raun,“ segir Alma D. Möller landlæknir.

                                          
                                          Alma Möller opnaði augun fyrir ólíkri stöðu kynjanna í námi í opinberri
                                          stjórnsýslu þar sem nemendur fengu gögn og staðreyndir á borðið sem
                                          sýndu muninn. Mynd/gag

Alma hefur spurt Læknafélag Íslands hvort búið sé að greina frekar gögnin úr skýrslu sem Ólafur Þór Ævarsson geðlæknir vann fyrir félagið um líðan lækna og hvernig tekið hafi verið á málum eftir að niðurstöðurnar birtust. Þar kom meðal annars fram að fyrir rétt tæpu ári hafi 7% kvenlækna talið sig hafa orðið fyrir kynbundnu ofbeldi eða kynferðislegu áreiti. Þá töldu 47% kvennanna en 13% karla sig hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni á vinnustað einhvern tímann á ævinni.

Niðurstaðan var kynnt á Læknadögum í Hörpu í upphafi árs og sagt var frá niðurstöðunum á ráðstefnu forsætisráðherra, #MeToo ― Moving Forward, í Hörpu nú í september. Hún sýndi einnig að 67% lækna töldu sig undir of miklu álagi, að 65% töldu sig hafa fundið fyrir einkennum streitu síðustu 6 mánuði eða lengur og í þessum tilvikum mun fleiri konur en karlar.

Hefur áhyggjur af ungu konunum

„Ég myndi vilja sjá könnunina greinda betur,“ segir Alma. „Ég hef áhyggjur af ungum konum í heilbrigðisstéttum. Rannsóknir hafa sýnt að konur skila fleiri vinnustundum heima. Þá hefur maður áhyggjur af ungum kvenlæknum í þungri vinnu með þung heimili, hvernig þeim gangi að samræma vinnu og einkalíf. Það eru gerðar sífellt meiri kröfur í einkalífinu, ekki aðeins í vinnunni,“ segir hún.

Spurð um þá niðurstöðu að af 35 launahæstu læknunum sem nefndir voru í Tekjublaði Frjálsrar verslunar væri ein kona, bendir hún á að niðurstöðurnar séu ekki áreiðanlegar, þar sem ekki sé hægt að meta forsendur útreikninganna og ekki ljóst hvernig raðist á listann, en hún telji eðlilegt að launamunur kven- og karllækna verði skoðaður og að það verði gert innan hverrar stofnunar.

„Eru þarna eðlilegar skýringar eins og meira vinnuframlag karla? Það gæti verið og er þá vert á að minna á að fjölmargar rannsóknir sýna að enn þann dag í dag skila konur fleiri vinnustundum innan heimilis. Ef fram kemur óútskýrður launamunur þarf svo sannarlega að taka á því,“ segir hún.

Ólík staða á vinnumarkaði

„Það er auðvitað ekki í verkahring landlæknis að hafa skoðanir á launum en sem kona læt ég mig slíkt varða og get tjáð mig almennt, ekki síst eftir að hafa lagst yfir fræðin um kynjaðar skipulagsheildir í námi í opinberri stjórnsýslu í vetur sem leið. Það er nefnilega þannig að það er ennþá talsverður munur á stöðu kynjanna á vinnumarkaði þegar grannt er skoðað, þar liggja fjölmargar rannsóknir að baki,“ segir hún en Alma útskrifaðist í sumar með diplómagráðu í opinberri stjórnsýslu.

„Í náminu opnuðust augu mín fyrir ýmsu sem ég hafði ekki gert mér grein fyrir enda eru kynbundinn munur og staðalímyndir svo rótgrónar og ómeðvitaðar,“ segir hún, en binda megi vonir við að jafnlaunavottun bæti þar úr.

„Minna má á í þessu sambandi að grunnlaun hjúkrunarfræðinga eru að mati Ríkisendurskoðunar 12% lægri en sambærilegra háskólastétta, þar tel ég víst að eimi eftir af kynbundnum launamun.“

Alma bendir á að rannsóknir hafi sýnt að konur séu síður í því að semja um eigin hag, sem geti fræðilega verði skýring á launamun. „Kannski væri ekki úr vegi að Læknafélagið héldi námskeið í slíkri samningatækni sérstaklega fyrir konur,“ veltir hún fyrir sér.

Alma segir að einmitt námskeiðið um kynjaðar skipulagsheildir hafi komið sér hvað mest á óvart í náminu. „Við lærðum hvernig við horfum á hluti með kynjuðum gleraugum. Ég hef aldrei verið upptekin af því. Mér finnst ég hafa fengið mín tækifæri,“ segir hún.

„Ég hef verið yfirlæknir bæði svæfinga- og gjörgæslu. Ég var fyrsta konan til að verða landlæknir, fyrsta konan til að verða þyrlulæknir. Ég hef fengið mín tækifæri og kannski ekki verið að hugsa nógu mikið um jafnréttismál,“ segir hún hreinskilnislega.

Konur spurðar öðruvísi en karlar

„En það rann upp fyrir mér ljós hvað kynjamismunun er rótgróin og ómeðvituð; að við hugsum út frá kyni og staðalímyndum sem við höfum búið til sjálf. Eftir námskeiðið horfi ég öðrum augum á hlutina. Ég sé þetta meira og meira,“ segir hún.

„Þegar ég tók við landlæknisembættinu var ég spurð hvort ég væri kvíðin. Heldur þú að Birgir Jakobsson hafi verið spurður hvort hann væri kvíðinn fyrir starfinu? Ég er ekki kvíðin og ég held að ég hafi eingöngu verið spurð af því að ég er kona,“ segir Alma.

„Var ekki forsætisráðherra spurð hvort hún væri feimin að hitta Pence? Þegar Drífa Snædal tók við sem forseti ASÍ, var sagt: Já, þú bara hoppar út í djúpu laugina,“ segir Alma og blaðamaður samsinnir orðum hennar enda var hún sjálf spurð þegar hún tók við sem ritstjóri næststærsta dagblaðs landsins fyrir rúmum áratug hvort meira yrði um prjónauppskriftir í blaðinu og hver sæi um ungabarnið sem beið heima.

„Ég sé þetta betur og betur, svo maður tali nú ekki um #MeToo-hreyfinguna. Hún virkilega opnaði augu mín,“ segir Alma.

Brá við #MeToo-sögurnar

„Mér brá auðvitað þegar ég las sögurnar sem íslenskir kvenlæknar deildu í sambandi við #MeToo. Svo brá mér líka við könnunina sem Læknafélagið gerði. Það hefði verið áhugavert að vita, ef búið er að vinna með þá könnun frekar, hvort þar sæjust ólíkar niðurstöður miðað við kyn og aldur.“

Samkvæmt tölum Landspítala voru konur rétt tæp 80% starfsmanna Landspítala seinni hluta árs 2017. Þær voru 57% stjórnenda og 64% æðstu stjórnenda. „Varðandi yfirmannsstöður almennt er mikilvægt að hvetja konur til að sækjast eftir þeim og auðvitað að þær njóti sannmælis við ráðningar.“

Alma vitnar í námið og bendir á að konur glími ekki aðeins við glerþakið, heldur einnig glerklifið (glas cliff) og glerrúllustigann. „Þakið er enn við lýði, en glerklifið er einnig merkilegt. Konur eru oft frekar valdar í háar stöður þegar vandræði eru í fyrirtækinu eða stofnuninni. Síðan er það glerrúllustiginn. Hann leiðir til þess að þegar karlar fara inn á svæði sem eru almennt talið yfirráðasvæði kvenna rísa þeir oft hratt til metorða.“

Alma segir vert að staldra við og velta þessum málum fyrir sér. „Ég hef áður leitt þetta málefni hjá mér en þegar ég fór að velta þessu fyrir mér sjást merkin víða. Það skiptir máli að hafa augun hjá sér. Það skipti máli að festa sig ekki í staðalímyndum heldur taka á málinu.“

Ákvað að halda náminu áfram sem landlæknir

„Ég hef aldrei hætt í neinu,“ var hugsun Ölmu Möller þegar hún var ráðin í embætti landlæknis á vormánuðum í fyrra, nýbúin að skrá sig í nám í opinberri stjórnsýslu. „Ég ákvað því að drífa námið áfram meðfram nýju starfi.“

Alma hefur afar víðtækan bakgrunn. Hún er með doktorspróf í svæfinga- og gjörgæslulækningum og lauk meistaranámi í stjórnun og lýðheilsu í HR, námi sem hófst árið 2008 og var stýrt af Guðjóni heitnum Magnússyni lækni í samvinnu við Columbia-háskóla.

„Engin skörun var á milli meistaranámsins og diplómanámsins, sem kom mér á óvart,“ segir Alma þar sem við setjumst niður á skrifstofu hennar á Rauðarárstíg 10, þangað sem helmingur starfsliðs Embættis landlæknis flutti vegna veikinda starfsmanna úr glæsilegu húsnæðinu á Barónstíg. Staðsetningin er tímabundin.

Alma vill hvetja lækna sem hafa áhuga á stjórnun að mennta sig í því fagi. Mikilvægt sé fyrir heilbrigðiskerfið að hafa góða stjórnendur. „Við vitum að næsti yfirmaður er mikilvægur varðandi vellíðan í vinnu og árangur eininga, auk þess sem það eru miklar áskoranir sem heilbrigðiskerfið stendur frammi fyrir,“ segir hún.

„Það er vaxandi kostnaður og erfitt að manna. Kerfið verður sífellt flóknara. Það er öruggt að miklar breytingar eru framundan, stöðugar breytingar og gríðarlega mikilvægt að við fáum menntaða stjórnendur.“

Nám í opinberri stjórnsýslu lýtur að því að framfylgja stefnu stjórnvalda og reka stofnanir, almannatengsl og lög eru einnig kennd. „Námið var það gagnlegt og skemmtilegt að ég hef velt því fyrir mér að klára meistaranám í faginu. En ég ætla í það minnsta að taka eina önn í frí,“ segir Alma og brosir.

„Ég fann það í fyrra starfi sem framkvæmdastjóri á Landspítala að ég hefði viljað breiðari þekkingargrunn þegar ég tók stjórnvaldsákvarðanir; tók ákvarðanir um réttindi og skyldur manna og mér fannst ég þurfa að efla mig í lögum. Ég tala nú ekki um í þetta starf sem landlæknir, þá er lagaþekking nauðsynleg,“ segir hún.

„Það verður miklu skemmtilegra að vinna þegar maður er með grunn og vel undirbúinn. Þá er skemmtilegra að læra þegar maður eldist og tengir námsefnið við það sem maður hefur reynt í starfi.“

„Það skemmtilegasta sem ég veit er að læra nýtt,“ segir Alma Möller landlæknir að lokum en hún var ekki sú eina í fjölskyldunni sem útskrifaðist í sumar úr háskólanum. „Við útskrifuðumst fjögur. Sonurinn í lögfræði og dóttir og tengdasonur í jarðvísindum; eldfjallafræði. Það var mjög gaman.“

                                            
                                             Frá vinstri, Daníel tengdasonur Ölmu, master í jarðvísindum,
                                             Helga Kristín, dóttir hennar, master í eldfjallafræði, Alma sjálf, diplóma
                                             í opinberri stjórnsýslu, Jónas sonur hennar, BA í lögfræði og Andrea,
                                             tengdadóttir sem var að ljúka 3. ári læknisfræði. Mynd/í einkaeiguÞetta vefsvæði byggir á Eplica