10. tbl. 105. árg. 2019

Umræða og fréttir

Nefnd í #MeToo málið fyrir Læknafélagið

Læknafélag Íslands hefur falið nefnd að fjalla um málefni skýrslunnar Íslenski læknirinn - Könnun á líðan og starfsaðstæðum íslenskra lækna, sem unnin var að frumkvæði stjórnar félagsins. Samskipta- og jafnréttisnefnd undir forystu Ólafar Söru Árnadóttur, handa- og skurðlækni hefur fundað tvívegis frá því í vor.

                                           
                                                              Ólöf Sara Árnadóttir, handa- og skurðlæknir.

„Við erum eingöngu búin að fá skýrsluna í hendur og höfum ekki fundað sérstaklega um hana. Við höfum því ekki tekið hana fyrir en munum leggja fyrstu drög að framhaldinu í kjölfar hugmyndavinnu á fundi 23. október,“ segir hún.

„Við hittumst á tveggja mánaða fresti,“ segir Ólöf. Nefndinni er ætlað að sjá til þess að fræðsla og forvarnir séu virk og að Landspítali fari að lögum og komi í veg fyrir einelti og áreitni.

„Við ætlum að þrýsta á stofnanir og tryggja að þær séu með áætlun til að koma í veg fyrir áreitni og einelti og fylgja því eftir,“ segir Ólöf.

Ólöf Sara kynnti niðurstöður tengdar #MeToo úr skýrslunni á alþjóðlegri ráðstefnu forsætisráðherra #Metoo – moving forward, sem haldin var í Hörpu um miðjan septembermánuð. Hundruð kvenna sóttu ráðstefnuna, en niðurstöðurnar voru fyrst kynntar á Læknadögum í janúar.

Þær sýna að 7% kvenlækna hefðu upplifað kynferðislega áreitni í vinnu síðastliðna þrjá mánuði og 1% karllækna árið 2018 . Það hefðu 47% kvenlækna reynt á starfsævinni og 13% karlkyns lækna.

Ólöf leiddi hóp 433 kvenlækna og læknanema sem sendu frá sér yfirlýsingu vegna kynbundinnar mismununar, kynferðislegrar áreitni og ofbeldis undir myllumerkinu #ekkiþagnarskylda í desember fyrir rétt tæpum tveimur árum.

Hún segir samskipta- og jafnréttisnefndina hafa sprottið úr Metoo-vinnuhópnum. Hluti hans skipi þessa nýju nefnd en tveir frá hverju aðildarfélagi Læknafélagsins eigi þar sæti.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica