07/08. tbl. 105. árg. 2019

Umræða og fréttir

Særi ég kveisu allra handa kyns . . . um heilsugæslu miðalda

Kveisustrengur frá mótum miðalda og nútíma segir sögu um „læknisfræði“ fortíðar

Hvað á einn vesæll útslitinn bóndi og fjölskyldufaðir að gjöra þegar allskyns kveisur herja á hann? Ekki er lengur hægt að leita til munkanna því klaustrin eru lokuð og eydd. Enn er hálf önnur öld í að Bjarni Pálsson verði landlæknir svo það er úr vöndu að ráða. Píetisminn allsráðandi í kirkjunni sem sinnir engu nema syndum og illgjörðum almennings. Æ, hvað skal til bragðs taka?

Þannig hefur honum eflaust liðið þessum sem lá í bæli sínu um 1600 og vafði um sig kveisustrengnum sem hér má sjá. Á hann er margt ritað beggja megin á íslensku, latínu og grísku, Biblíutextar á latínu í bland við særingar á íslensku. Þeim stöðum þar sem textinn er mergjaðastur var komið fyrir við þau líffæri sem ollu mestu verkjunum. Engum sögum fer af því hvort strengir sem þessir hefðu tilætluð áhrif á heilsufar manna, en allt var betra en að veslast upp og deyja svo eflaust hafa ýmsir reynt þetta.

                                                                        
                                                                           Kveisustrengur, sá eini sem
                                                                           varðveist hefur. Lengdin er 58,4 og
                                                                           breiddin 10,8 sentimetrar. Lbs fragm.
                                                                          14. Mynd: Handritadeild Landsbókasafns.

 

Frá klaustrum til nútíma læknisfræði

Tíminn eftir siðaskipti og fram á átjándu öld hefur ekki verið auðveldur þeim sem áttu við vanheilsu að stríða. Rannsóknir Steinunnar Kristjánsdóttur og fleiri fornleifafræðinga á íslenskum klaustrum hafa sýnt fram á að þau voru í raun velferðarkerfi Íslendinga, þangað leituðu sjúkir lækninga og líkna og fengu eflaust margir góða þjónustu eins og það heitir núna. Með siðaskiptunum um miðja 16. öld hverfur þetta velferðarkerfi eins og dögg fyrir sólu. Hin nýju kirkjuyfirvöld sáu enga ástæðu til þess að framlengja líf þessa pápíska fyrirkomulags.

En fólk hélt áfram að veikjast og verða fyrir slysum. Hvað átti það að gera? Engin voru læknavísindin og kirkjan leit það í raun óhýru auga að fólk væri að fást við kukl og galdur sem margir sóttu í þegar hallaði undan fæti. Um þetta vitnar svonefnd Kýraugastaðasamþykkt sem Oddur biskup Einarsson gaf út árið 1592 en þar stóð meðal annars: „þeir sem fara með kukl, töfra og rúnir, svo sem eru ristingar eður aðrar þess konar særingar og kveisublöð, og annan þvílíkan djöfulskap, með hverjum þeir látast lækna mein og kránkdæmi manna, straffist af prestinum […] því oss virðist þvílíku fylgja stór guðlöstun.“

                                             
                                              Strandagaldur Galdrasýning á Ströndum starfar á tveimur stöðum.
                                              Á Hólmavík er aðalsýningin en á Klúku í Bjarnarfirði er Kotbýli kuklarans
                                              þar sem sjá má Jón lærða að störfum við skriftir. Mynd: Ágúst Atlason.
                                              Strandagaldur ses.

Þessi samþykkt er nokkuð merkileg því svo er að sjá sem yfirvöldin hafi mörg hver hneigst til þess að líta á svonefndan hvítagaldur sem varnarviðbragð sem ekki væri ástæða til að amast við. Öðru máli gegndi um svartagaldur sem var sannanlega af illum rótum runninn og því bannfærður.

Þetta breyttist árið 1617 þegar Kristján IV konungur gefur út konungsbréf um galdramenn og vitorðsmenn þeirra. Þar er allur galdur, hvítur jafnt sem svartur, settur í sama hólf og skyldi straffað fyrir með útlegð, húðláti eða brennu. Þetta er upphafsstefið í íslenska galdrabrennutímanum sem hefst með fyrstu brennunni árið 1625 í Svarfaðardal. Næstu áratugina voru 23 karlar til viðbótar brenndir í málum þar sem galdrar komu við sögu, en aðeins ein kona, sem er alveg öfugt við það sem gerðist í öðrum löndum álfunnar.

Á mótum tveggja tíma

Þrátt fyrir þessa myrku tíma í lífi Evrópubúa má merkja að gerjun sé hafin víða um álfuna. Ofurtök hinnar refsiglöðu kirkju á daglegu lífi valda því þó að þeir sem hugsa öðruvísi verða að fara leynt með sitt sýsl. Menn eru samt byrjaðir að fikra sig inn á þá braut að skoða náttúruna á hennar eigin forsendum en ekki í gegnum trúarbrögðin.

Íslendingar áttu sína fulltrúa í þessari hreyfingu og þar má telja Jón lærða Guðmundsson sem fæddist árið 1574 athyglisverðasta fulltrúa Íslendinga í henni. Hann stendur á mótum tveggja tíma, er á kafi í gömlu hjátrúnni, trúir á drauga og álfa og skrifar kveisustrengi og fjandafælur. Samhliða því stundar hann vísindarannsóknir og skrifar lýsingar á dýrum, steintegundum, jurtum og þess háttar. Þetta var ekki einsdæmi hér á landi. Jón var heldur eldri en Isaac Newton sem var samtímis að reikna út gang himintunglanna og skrifa eðlisfræðiformúlur en reyndi einnig að breyta blýi í gull.

Jón lærði gæti verið höfundur kveisustrengsins sem var sýndur í Safnahúsinu í vor. Um það verður aldrei neitt sannað, en Viðar Hreinsson setur þessa kenningu fram í bók sinni um lífshlaup Jóns. Víst er um að Jón skrifaði svona lækningatæki og rithönd strengsins er ekki ósvipuð þeirri sem er á kveri sem varðveist hefur og Jón skrifaði. Sumt er þó öðruvísi svo fræðimenn treysta sér ekki til að slá neinu föstu. En Jón skrifaði tvö kvæði á árunum 1611-1612 og dugðu þau til að kveða niður tvo drauga á Snæfjallaströnd.

Strengurinn sem hér er sýndur er sá eini sem hefur varðveist en hann fannst á Hólum í Hjaltadal og hafði verið notaður sem gagn í réttarhaldi yfir einhverjum sem var að reyna lækningamátt hans. Af skiljanlegum ástæðum reyndu flestir þeir sem fengust við galdra að eyða sönnunargögnunum og það veldur því að íslensk galdrahandrit sem varðveist hafa má telja á fingrum annarrar handar.

Að drepa og fyrirkoma kveisu

Kveisustrengurinn sem hér sést er slitið, ekki mjög faglega unnið pergament. Signingar og særingar gera ráð fyrir hreyfingum með notkun strengsins. Biblíutextar á latínu eru merkilegt nokk úr frægri þýðingu Erasmusar frá Rotterdam sem var ekki á hverju strái hérlendis. Hægt er að lesa handritið með nokkurri fyrirhöfn og hér er dæmi um textann sem þar er að finna:

Sjálfan Guð er ég biðjandi að hann ljái mér lífstungu læknisorða … ég signi þig … fyrir flogkveisu, fyrir fárkveisu, fyrir blóðkveisu, beinkveisu, jarðar-, lofts-, vinds- og vatnskveisu og allskonar kveisu, fyrir hinni reginrömmu kveisu. Ég skal drepa og henni fyrirkoma svo hún skal ekki meira mega en maðkur í eldi þá er heitast brennur … Særi ég kveisu allra handa kyns úr höfði þínu og heila, úr hálsi og herðum, úr andliti, augum og augnabrám, úr brjósti, kvið og baki … úr merg og mænu, úr leggjum og liðum og liðamótum, úr öllum þínum samtengdum líkama … og svo lýkur þessu með grískum heitingum sem eiga að losa viðkomandi við allra handa kveisugrand.

Tak kött, drep hann…

Um hinn hugsanlega höfund kveisustrengsins, Jón lærða, er það að segja að hann slapp lengi vel undan afskiptum yfirvalda. Séra Guðmundur Einarsson prófastur á Snæfellsnesi skrifaði gegn Jóni og nefndi átta villukenningar Jóns í drauganiðurkvaðningu hans og „fyrirboðinni lækningakonst“. Jón fluttist til Akraness undan Guðmundi en árið 1631 var hann dreginn fyrir dóm sakaður um að hafa skrifað nokkur kver og blöð sem innihéldu meðal annars „ristingar fyrir gulusótt, útsótt, matleiða, hósta, kláða og höfuðverk“.

Jón andmælti en það stoðaði lítt og hann var dæmdur í útlegð fyrir þessi skrif. Hann fór til Kaupmannahafnar og reyndi að fá dómnum breytt en það gekk ekki lengra en svo að hann mátti hafast við á Austurlandi. Þar bjó hann síðustu ár sín í skjóli Brynjólfs biskups í Skálholti.

Þegar kemur fram undir lok 17. aldar er hætt að brenna fólk og húðstrýkja fyrir að leita sér lækninga. Á 18. öld hverfur Guð að mestu úr lækningunni, en nýjar aðferðir voru framan af ekki endilega betri. Til dæmis þessi meðferð við handarmeini: Tak kött, drep hann, set höndina inn í hann og geymið þar í 2-3 daga. Gætið þess að taka ætíð kött varman og skiptið um kött á 2-3ja daga fresti. Mikilvægi þess að skipta oft um umbúðir var mönnum ljós þá sem nú.

Ský á auga er nú orðið fjarlægt með einfaldri aðgerð. Á þessum tíma komu kettir líka við sögu því lækningin er þessi: Tak svartan kött, drep hann og skerið af höfuðið. Brennið það og myljið í duft sem borið skal á augað. Nú hafa leysigeislar og önnur nútímakonst leyst kettina af hólmi.

Heimildir fyrir þessari grein eru sóttar í heimasíðu Galdrasýningar á Ströndum en þó einkum í ágæta leiðsögn Gunnars Marels Hinrikssonar starfsmanns handritadeildar Landsbókasafns um sali Safnahússins á Safnadegi í vor.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica