07/08. tbl. 105. árg. 2019
Umræða og fréttir
Auka stuðning til að bæta líðan starfsmanna Landspítala segir Ásta Bjarnadóttir sem stýrir mannauðssviðinu þar
Hálft stöðugildi bætist við stuðnings- og ráðgjafateymi Landspítala í haust. Tilgangur teymisins er að efla andlega líðan samstarfsmanna og styðja þá til að takast á við starfið.
Könnun Læknafélagsins sem sýndi að 7% kvenlækna töldu sig hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni kallaði ekki á sérstakar aðgerðir innan Landspítala, enda var þegar hafin vinna við innleiðingu samskiptasáttmála, sem hófst í kjölfar #MeToo- byltingarinnar. Þetta segir Ásta Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri mannauðssviðs spítalans.
Ásta Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri
mannauðssviðs Landsspítalans.
„Könnunin staðfesti það sem við vissum. Það mælist mikið álag og streita og einelti og áreitni koma því miður líka fyrir. Niðurstöðurnar ýttu þó undir að hálfu stöðugildi hefur verið bætt við í stuðnings- og ráðgjafateymi spítalans. Sálfræðingur bætist nú í hóp þeirra 10 sérfræðinga sem verja á bilinu 10%-50% af starfstíma sínum í að sinna líðan starfsfólks spítalans,“ segir Ásta.
Sagði tölurnar sláandi
Landlæknir kallaði eftir því á Læknadögum að brugðist yrði við „sláandi tölum“ úr niðurstöðu könnunar Læknafélagsins á líðan og starfsumhverfi lækna. „Þetta finnst mér með ólíkindum miðað við alla umræðuna sem er í gangi. Þetta er eitthvað sem þarf að skoða strax,“ sagði Alma Möller landlæknir eftir kynningu skýrslunnar þar.
Ásta segir að kvartanir vegna kynbundins áreitis hafi aukist fyrst í kjölfar #Metoo-umræðunnar en síðan dottið niður. Tilfellin séu nokkur á ári.
„Við breyttum verklagi og bjuggum til óformlega leið til að skoða málin án rannsóknar. Mörg mál hafa endað í þeim farvegi,“ segir hún. „Starfsfólk vill oft að málið sé skoðað en vill ekki formlega rannsókn,“ segir hún. Með óformlegri rannsókn njóti þau sem kvarti nafnleyndar. Hvert mál sé einstakt og ekkert eitt sem eigi við um þau öll.
Eftir könnun Læknafélagsins hafi Landspítali fengið í hendur nýjar tölur um starfsanda og viðhorf starfsmanna. Í könnuninni sem nefnist Stofnun ársins sjáist stöðug framför í öllum þáttum frá árinu 2017. Starfsmenn eru bæði ánægðari með stjórnun og starfsanda og stoltari en áður.
„Það eru engar byltingar í tölunum en þær mjakast upp á við,“ segir Ásta raunsæ en sátt við árangurinn. Einnig hafi verið spurt um kynferðislega áreitni og einelti í þeirri könnun, en niðurstöðurnar verði birtar í sérstakri skýrslu sem enn hefur ekki borist.
Ásta telur að vinnan við Samskiptasáttmála spítalans sé að skila sér í þessum bætta árangri. Sáttmálinn hafi litið dagsins ljós á vordögum 2018 eftir fimmtíu fundi þar sem starfsmenn lögðu til efni í sáttmálann. Sáttmálinn sé nú í innleiðingu.
„Kafli átta í sáttmálanum tekur sérstaklega á kynbundinni áreitni, kynferðislegri áreitni og einelti sem er bannað samkvæmt lögum að láta viðgangast,“ segir hún. Í haust eigi að endurtaka könnun innan spítalans sem gerð var í desember 2017 til að sjá hvort árangur hafi náðst.
Aukin þjónusta auglýst
„Við vitum að líðan starfsmanna er mikilvæg sem er meginástæða þess að við erum með stuðnings- og ráðgjafateymi,“ segir hún. Starfsfólk geti þar fengið tíma hjá fagaðilum: sálfræðingum, félagsráðgjöfum, hjúkrunarfræðingum, iðjuþjálfum og geðlækni. Með því að fjölga þessum sérfræðingum nú sé hægt að hafa meira frumkvæði í að bjóða aðstoð vegna þeirra vandamála sem komi upp.
„Við stefnum á að auglýsa aukna þjónustu stuðnings- og ráðgjafateymisins eftir sumarfrí. Þetta er áherslumál hjá okkur í ljósi þess hvernig tölur um kulnun og brottfall mælast,“ segir hún.
Starfsfólk láti vita af óæskilegri hegðun
Mikilvægt er að fólk láti vita af óæskilegri hegðun. „Helst strax, og helst beint við gerandann,“ segir Ásta Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri mannauðssviðs Landspítala. „Það er minna umburðarlyndi fyrir óæskilegri hegðun en áður,“ segir hún og að aukin meðvitund sé um hvað sé heilbrigð hegðun og hvað ekki.
„Við viljum að fólk láti í sér heyra ef það sér eitthvað óæskilegt. Aðhaldið í nærumhverfinu er mjög mikilvægt,“ segir hún. Fólk eigi ekki að kyngja því þegar það verði fyrir óæskilegri hegðun, eða verður vitni að henni. „Ef fólk tjáir sig og það er menninginn, náum við mestum árangri.“