07/08. tbl. 105. árg. 2019
Umræða og fréttir
Oflækningar hér eins og í Noregi, segir Sigríður Dóra Magnúsdóttir framkvæmdastjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins
Engin ástæða er að ætla annað en að staða oflækninga sé álíka hér og í Noregi. Þetta segir Sigríður Dóra Magnúsdóttir, framkvæmdastjóra lækninga hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Hún segir heimilislækna oft á tíðum grípa til víðtækari úrræða en þeir telji sjálfir nauðsynleg.
Sigríður Dóra Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri lækninga hjá
Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, sat fund Stefáns Hjörleifssonar
með stjórn Læknafélagsins um snjallt val í lækningum. Mynd/gag
„Það er margvísleg pressa. Það er umfjöllunin í samfélaginu, áhyggjur og mjög oft sem læknar hafa ekki tíma til að bíða og sjá þróunina eða meðhöndla skynsamlega út af tímapressu eða annarri pressu. Það er vissulega raunveruleiki heimilislækna í dag,“ segir hún. Hraðinn og pressan úr mörgum áttum orsaki oflækningar.
„Menn velja oft fljótlegustu leiðina sem er að skrifa út eitthvert lyf eða koma sjúklingi annað í staðinn fyrir að sannfæra hann um að það sé í lagi að bíða og sjá.“ Hún segir því átak um snjallar lækningar, Choosing Wisely, eins og „talað út úr hjarta heimilislæknisins.“ Nauðsynlegt sé að bjóða upp á önnur úrræði sem minnki inngrip og lyfjanotkun.
„Já, ég held að átak sem þetta sé bæði nauðsynlegt og gott inn í umræðuna um að til séu svo mörg úrræði við krankleika og vanlíðan,“ segir hún. Mjög jákvætt væri ef Læknafélagið réðist í átakið. „Þá erum við alveg til í að vera með.“
Sigríður segir heilmikið um að fólk komi með lausnirnar af netinu. „Fólk er oft komið mjög langt frá raunveruleikanum. Búið að finna sér mjög sjaldgæfa sjúkdóma sem hafa jafnvel ekki fundist á landinu og auðvelt að slá á slíkt,“ segir hún. „Þá er kúnstin í samtalinu að fá fram hver ótti skjólstæðingsins er og hverjar væntingar hans eru. Samtalið þarf að ganga út á það,“ segir hún.
Spurð hvort heimilislæknar óttist að verða teknir fyrir á samfélagsmiðlum í kjölfar samtals við sjúklinga segir Sigríður Dóra svo ekki vera. „Þeir óttast frekar tímaleysi og hraða í vinnunni og skort á öðrum úrræðum,“ segir hún. Mikilvægt sé að tryggja læknum þann möguleika sem og ráðrúm til að leyfa hlutunum að þróast og þroskast, því þá sé betur hægt að sjá framvinduna.
„Það er oft miklu erfiðara að gera það en að gera eitthvað til að komast yfir að þjónusta sem flesta.“