06. tbl. 105. árg. 2019

Umræða og fréttir

Þórir Einarsson Long er ungur vísindamaður Landspítala

                                                                           

„Já, vissulega kom valið mér verulega á óvart, en ég skráði mig til leiks og vonaði það besta,“ segir Þórir Einarsson Long sem útnefndur var ungur vísindamaður Landspítala á ráðstefnunni Vísindum á vordögum sem haldin er árlega. Jón Jóhannes Jónsson kynnti valið fyrir hönd Vísindaráðs og fær Þórir fjárupphæð til að kynna rannsókn sína erlendis. „Ég lít á þetta sem hvatningu til að halda áfram rannsóknum.“

Þórir segir rannsóknarstörf fara vel með klínískri vinnu við lækningarnar. „Þetta er ákjósanleg leið til að velta hlutum fyrir sér og hvaða aðferðum er best að beita til að fá sem réttasta niðurstöðu. Rannsóknarstarfið er líka svolítið frí frá hefðbundinni klínískri vinnu um leið og það hjálpar til við að hugsa akademískt um það sem við læknar gerum í daglegu starfi.“

Þórir stendur á þrítugu og útskrifaðist með kandidatspróf í læknisfræði frá Háskóla Íslands 2015. Hann lauk kandídatsári á Landspítala 2016 og stefnir á að verja doktorsritgerð sína í desember. Titill ritgerðar hans er „Bráður nýrnaskaði – Nýgengi, áhættuþættir, endurheimt nýrnastarfsemi og lifun.“

En af hverju lyf og nýru? „Samspil lífeðlis-, lyfja- og sjúkdómafræði er heillandi við fagið. Lífeðlisfræðilegar pælingar eru miklar og bæði áhugaverðir og skemmtilegir sjúkdómar fylgja þessu fagi.“

Þórir ákvað á síðasta ári í Menntaskólanum við Hamrahlíð að fara í læknisfræði. „Mér líkar vel og sé ekki eftir þessu vali.“

Helga heiðursvísindamaður Landspítala

                                                  

Helga Jónsdóttir, prófessor í hjúkrunarfræði við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands og forstöðumaður hjúkrunar langveikra fullorðinna í samtengdri stöðu á Landspítala, er heiðursvísindamaður Landspítala 2019. Helga hefur komið að birtingu ríflega 70 ritrýndra tímaritsgreina og hafa á þriðja tug hjúkrunarfræðinga lokið meistaraprófi undir hennar leiðsögn.

Kári kjörinn í eina virtustu akademíuna

                                                   

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, hefur verið kjörinn í bandarísku vísindaakademíuna, National Academy of Sciences (NAS). Kári er fyrstur Íslendinga inn í hana. Inngöngu fá menn aðeins eftir tilnefningu kjörins meðlims í henni. 100 nýir félagar úr hópi vísindamanna voru kjörnir í þetta sinn, þar af 25 erlendir. Kjör í akademíuna er viðurkenning á mikilvægu framlagi til vísinda en NAS er ein virtasta stofnun bandarísks vísindasamfélags.

Runólfur fær fimm milljóna verðlaunafé

                                                    

Runólfur Pálsson yfirlæknir hefur hlotið fimm milljóna króna verðlaun úr Verðlauna-sjóði í læknisfræði og skyld-um greinum. Árni Kristinsson og Þórður Harðarson, fyrrum prófessorar við Háskóla Íslands og yfirlæknar við Landspítala, stofnuðu verðlaunasjóðinn árið 1986. Verðlaunin eru ein þau stærstu sem veitt eru fyrir vísindastörf hér á landi.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica