06. tbl. 105. árg. 2019

Umræða og fréttir

Selfyssingurinn Óskar Reykdalsson er nýr forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins - Ætlaði að verða góður íþróttamaður - helst heimsmeistari

                                          
                                          Óskar hefur mjög gaman af íþróttum, ekki síst körfubolta, en hann æfði
                                          í mörg ár með „Kristjánsbræðrum“ á Selfossi körfubolta þrisvar í viku.
                                          Óskar er í fremri röðinni, lengst til hægri.
                                          Ljósmynd/Magnús Hlynur Hreiðarsson.

Óskar Sesar Reykdalsson tók nýlega við starfi forstjóra á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins en hann er sérfræðingur í heimilislækningum og stjórnun heilbrigðisþjónustu. Óskar er fæddur í heimahúsi á Selfossi 1960 og ólst þar upp.

Þegar Óskar er spurður út í unglingsárinn og menntun sína kemur fram að samhliða grunnskólagöngunni á Selfossi var hann mikið í íþróttum. „Ég er stúdent 1980 frá MS og lauk svo prófi í læknisfræði 1986. Þá fór ég til Svíþjóðar í heimilislækningar og tók þar sérfræðipróf 1993. Ég fór í stoðkerfisfræði og hef kennt samskiptafræði í stoðkerfishlutanum í læknadeild. Ég tók meistarapróf frá Bifröst 2011 í stjórnun heilbrigðisþjónustu og fékk viðurkenningu sem sérfræðingur í þeim málum. Ég er þá með tvær sérgreinar,“ segir Óskar.

                                            
                                            Óskar Sesar Reykdalsson sem tók við stöðu forstjóra Heilsugæslu
                                            höfuðborgarsvæðisins 1. janúar 2019, skipaður af heilbrigðisráðherra.
                                            Óskar er fæddur og uppalinn á Selfossi. Mynd/LSH/Þorkell

Byrjaði í ruslinu

Óskar hefur víða komið við í atvinnulífinu í gegnum árin. „Já, ég fór eins og aðrir unglingar að vinna á sumrin við það sem bauðst, til dæmis byrjaði ég í ruslinu og vann mig upp þaðan í fisk og svo í vegagerðina og múrverk. Var í löggunni nokkur sumur, fyrst á Akureyri og svo í Kópavogi. Þetta var allt góð reynsla áður en ég fór að vinna innan heilbrigðisgeirans,“ segir Óskar og rifjar upp fyrsta heilbrigðisstarfið. „Fyrst vann ég sem ,,hjúkka“ á elliheimilinu Grund eitt sumar en svo sem læknanemi í afleysingastörfum á Akranesi, Hveragerði og í Þorlákshöfn. Eftir námið fór ég á Fáskrúðsfjörð og var þar í eitt og hálft ár áður en ég tók kandídatstímabilið. Eftir að ég varð sérfræðilæknir vann ég í Falun í Svíþjóð en þar var ég við nám. Um tíma vann ég líka á Högbo brug en þar er sérhæfð verkjameðferð stunduð. Ég vann þar í 7 ár.“ Þegar tal okkar færist yfir í fjölskylduhagi Óskars kemur í ljós að heilbrigðiskerfið á hug allra barna hans og tengdabarna, þau vinna öll í þeim geira sem læknar og heilbrigðisstarfsmenn.

Ætlaði að verða heimsmeistari

En ætlaði Óskar alltaf að verða læknir eða leitaði hugurinn eitthvað annað? „Ég var eins og flestir, lifði fyrir líðandi stund og hugsaði ekki of mikið fram í tímann. Fyrirmyndirnar voru frekar bílstjórar og verktakar en allt kom til greina. Ég ætlaði að verða góður íþróttamaður, helst heimsmeistari. En það voru draumar sem ég hafði hvað mest í huga eins og margir aðrir. Reyndar var móðuramma mín að hvetja mig að verða læknir, þannig að það getur nú verið að það hafi haft áhrif, hver veit.“

Allir hafa rétt á að hafa heimilislækni

Hið nýja forstjórastarf Óskars leggst vel í hann en hann hefur verið að koma sér inn í starfið á síðustu mánuðum. „Já, þetta er heilmikið starf. Allir eiga rétt á að hafa heimilislækni og það er mikilvægt að halda áfram uppbyggingu heilsugæslunnar til að hún geti staðið undir væntingum um öflugt gæðastýrt starf, opið aðgengi byggt á góðri heilbrigðisþjónustu og að réttur sjúklingur sé að réttum stað. Heilsugæslan verði fyrsti viðkomustaður sjúklinga á höfuðborgarsvæðinu eins og hún er víðast hvar á landsbyggðinni. Öldrun þjóðar er mikil áskorun og þar erum við á heilsugæslunni algerir lykilaðilar til að vel takist til. Þá er mikilvægt að tryggja öflugt samstarf við sveitarfélög, sérgreinalækna, spítalann og einkareknar heilsugæslustöðvar svo dæmi sé tekið,“ segir Óskar.

700 starfsmenn á 20 stöðum

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins er með um 700 starfsmenn í vinnu og er með rekstrareiningar á um 20 stöðum á höfuðborgarsvæðinu. Um er að ræða 15 heilsugæslustöðvar, göngudeild sóttvarna, geðteymi og Þroska og hegðunarstöð. (Fjórar heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu eru einkareknar og eru þá samtals 19 stöðvar). Þá er núna rekin Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu sem er mikilvæg eining í því að þróa starfið og umbreyta eftir því sem best verður gert.

300 viðtöl á hverjum degi

Þegar Óskar er spurður út í þjónustustig Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og helstu tölur í því sambandi kemur fram að bráðaþjónustan er mjög góð á heilsugæslunni. Ástæðan er sú að á hverjum tíma eru um 40 starfsmenn, bæði læknar og hjúkrunarfræðingar, sem taka á móti fólki sem ekki getur beðið eftir hefðbundnum pöntuðum tíma. Þetta eru bráð og hálfbráð mál. Heilsugæslan sinnir meira en 60% allra viðtalsbeiðna innan tveggja sólarhringa. Þar að auki eru um 300 viðtöl daglega á síðdegisvöktum heilsugæslustöðva. Það eru því um 1000 höfuðborgarbúar sem daglega fá þjónustu heilsugæslunnar án þess að eiga pantaðan tíma. Sumir mæta á dagvinnu heilsugæslunnar, aðrir á síðdegisvöktum og enn aðrir á Læknavaktinni í Austurveri en það er vaktþjónusta heilsugæslunnar eftir lokun.

Með græna fingur

Að endingu er Óskar beðinn um að segja frá helstu áhugamálum sínum en þau eru fjölmörg. „Já, ég er nú svo heppinn að hafa mörg áhugamál. Sum hver sem tengjast vinnunni og sum allt öðru. Ég hef gaman af því að ferðast og nýt þá mest að vera innan um fjölskylduna, með börnunum mínum og barnabörnum. Ég hef mjög gaman af því að vinna í garðinum, hann er stór og skemmtilegur. Þar er ég alltaf eitthvað að smíða og vinna. Ég hef afskaplega gaman af að vera úti í náttúrunni að ganga, skoða og njóta. Ég hef gaman af að taka myndir af náttúrunni og landinu og vinna með þær. Svo fer ég í ræktina og hoppa þar eitthvað, sit stundum lengi í heita pottinum og læt hugann reika. Þá er notalegt að lesa góðar bækur, leysa sudoku, spjalla við vini og kunningja og fara í bíó, svo eitthvað sé nefnt.“

Sumarið leggst mjög vel í Óskar og hans fjölskyldu, þau ætla að reyna að nýta tímann vel með barnabörnunum, fara með þau á reiðnámskeið og vera dugleg að nota sundlaugarnar á höfuðborgarsvæðinu. Í ágúst verður svo farið með stórfjölskylduna í vikuferð til Danmerkur. Þetta verða lokaorð Óskars: „Ég hef mikla trú á heilbrigðismálum hér á Íslandi og er sannfærður um að við berum gæfu til að gera þjónustuna en betri en verið hefur og með hagsmuni sjúklinga að leiðarljósi“.Þetta vefsvæði byggir á Eplica