05. tbl. 105. árg. 2019

Umræða og fréttir

Lyfjaskortur alþjóðlegur vaxandi vandi

Yfir 100 tilkynningar um yfirvofandi lyfjaskort höfðu borist Lyfjastofnun í aprílbyrjun. Lyf skorti í 45 skipti. Lyfjaskortur er ekki einsdæmi á Íslandi.

                                           
                                            Ebba Margrét Magnúsdóttir, Rúna Hauksdóttir Hvannberg,
                                            Hjalti Kristinsson og Alma Möller ræða lyfjaskort á fundi Læknaráðs.
                                            Mynd/gag

„Mér finnst við illa stödd á 21. öldinni að sé ekki hægt að fá ódýr sýklalyf á landinu. Við getum heldur ekki notað þær getnaðarvarnir sem hafa verið á boðstólum í 40 ár,“ sagði Ebba Margrét Magnúsdóttir, formaður Læknaráðs, í inngangi sínum um lyfjaskort á landinu á opnum fundi Læknaráðs. „Mér skilst á barnalæknum, innkirtlasérfræðingum, jafnvel krabbameinslæknum að þetta sé meiriháttar vandamál. Ekki aðeins fyrir sjúklinginn heldur tefur líka vinnu lækna,“ sagði hún. Spurt var hvað Lyfjastofnun ætlaði að gera í lyfjaskorti á landinu.

Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar, benti á að búist væri við að stofnunin reddaði málunum en það væri í raun ekki hennar hlutverk. „Lyfjastofnun er ekki falið að hafa eftirlit með lyfjaskorti, heldur að hafa umsjón með fyrirtækjunum sem flytja inn lyf.“ Lyfjastofnun hafi þó gripið til ýmissa ráða.

Hjalti Kristinsson, deildarstjóri lyfjaöryggisdeildar Lyfjastofnunar, benti á að 40 sinnum hafi verið tilkynnt sérstaklega um lyfjaskort á vef stofnunarinnar. Sett hafi verið upp lyfjaskortssíða þar sem um 30 tilkynningar komi á mánuði. Unnið sé að því að tilkynningarnar verði rafrænar, með lista yfir lyfin sem skorti og ráð í slíkum vanda. Farið sé að norskri og sænskri fyrirmynd.

Rúna benti á að lyfjaskortur væri ekki séríslenskt fyrirbæri. „Lyfjaskortur er vaxandi alls staðar,“ sagði hún. Í fyrra hafi til að mynda komið upp að allar getnaðarvarnarpillur vantaði í Hollandi. „Hollenski heilbrigðisráðherrann varð að standa í sjónvarpinu og bera ábyrgð á börnunum sem myndu fæðast,“ sagði hún.

„Stundum er gott að vera lítil, stundum er það slæmt. Stundum getum við reddað lyfjum fyrir lítinn markað en stundum sitjum við algerlega afskipt.“ Helst sé skortur á sýklalyfjum, getnaðarvörum og öðrum gamalreyndum lyfjum.

Rúna sagði öll lönd vinna ötullega að málinu en staðan sé sú að flest lyfin sem framleidd eru fyrir Evrópu eru framleidd á sama stað í Kína. Vandi þar hafi því víðtæk áhrif. Þá hafi breytingar innan lyfjaiðnaðarins áhrif, sem og að samheitalyf eru ekki nógu mörg. Þá hafi pakkastærð lyfja áhrif og einnig eftirspurn. Samningar við Landspítalann geti einnig valdið lyfjaskorti hér á landi.

„Landspítalinn gerir samning og fær ágætis verð fyrir eitthvert lyf. Komi sú staða upp að viðkomandi aðilar geta ekki afhent er Landspítali tryggður en þarf að kaupa frá hinum sem gerðu ekki ráð fyrir að selja. Þá kemur upp lyfjaskortur,“ lýsti hún.

Rúna benti á að settar séu skyldur í lyfjalögum á heildsala og apótek að tilkynna komi upp skortur. Sama skylda hvíli á markaðsleyfishöfum. Þeim beri að útvega ófáanleg lyf sem sé þó erfitt nái skorturinn út fyrir landsteinana. Lyfjastofnun geti veitt undanþágu frá fylgiseðlum, áletrunum og slíku í skorti.

Hún sagði að heimildin hafi verið nýtt í auknum mæli, en á því hafi verið vandkvæði, því þá þurfi í flestum tilvikum nýjan lyfseðil frá lækni. Gera þurfi reglugerðarbreytingar til að einfalda ferlið. „En þá skiptir máli að upplýsa lækninn,“ sagði Rúna og benti á að þar mætti fylgja fordæmi Norðmanna.Þetta vefsvæði byggir á Eplica