03. tbl. 105. árg. 2019

Umræða og fréttir

Liprir pennar. Veiðilækningar. Hlynur Níels Grímsson

                                             
                                                           Höfundur einn í veiðiferð með Guinness-húfuna sína

Læknablaðið hefur beðið nokkra lipra penna í læknastétt að senda blaðinu hugleiðingar sínar í dagsins önn.

Ég hef setið fleiri fundi og ráðstefnur um heilsu og líðan lækna en ég kæri mig um að muna eða get munað (svona í seinni tíð). Þetta hefur allt saman verið mjög áhugavert. Niðurstaða allra þessara funda og ráðstefna er að læknum líði almennt ekki vel og þar hafi starfið og starfsaðstæður mikið að segja.

Allir þessir fundir og ráðstefnur hafa átt það sameiginlegt að í kjölfar þeirra hefur ekkert breyst í störfum og starfsaðstæðum íslenskra lækna. Nákvæmlega núll. Landspítali heldur áfram að vera alltaf jafn yfirfylltur og venjulega, lýst er yfir neyðarástandi alla miðvikudaga og veikt fólk er almennt séð vinsamlega beðið að halda sig í burtu. Svona til að taka nærtækt dæmi.

Við svona starfsaðstæður er sagt mikilvægt að eiga sér áhugamál til að hvíla hugann áður en maður heldur síðan aftur í vinnuna. Ég á mér líka áhugamál. Ég veiði. Fisk, það er að segja. Mér var einu sinni boðið í gæsaveiði. Sú morgunstund flokkast ekki með hápunktum ævi minnar. Ég sofnaði ofan í skurðinum þar sem beðið var eftir morgunfluginu, hraut hástöfum og svo var ekki einu sinni hægt að vekja lækninn enda kúguppgefinn eftir vaktina deginum áður. Mér var ekki boðið aftur.

En það er þetta með fiskinn, eða öllu heldur silunginn, hef ekki efni á laxinum enda sú veiði löngu hætt að vera fyrir kaupmátt dauðlegra. Mér finnst ég mjög góður veiðimaður, eiginlega frábær. Ég er algerlega útspekúleraður í flugum, flugulínum, flugustöngum og fluguveiðifatnaði. Ég er hættur að veiða á annað en flugu, sem þýðir til dæmis að barnungir synir mínir veiddu mig undir borðið í síðustu Veiðivatnaferð með bensínstöðvarspúnagræjunum sínum. Ég var alls ekkert sár.

Ég veiði auðvitað eingöngu á flugu núorðið, allir vita að fluguveiði er listgreinin sjálf innan veiðanna, æðsta stigið, hverju skiptir þá að hvort maður veiði minna en veiðifélagarnir? Ég er að ljúga. Það skiptir öllu máli hvað maður veiðir marga. Maður er ekki keppnismaður fyrir ekki neitt. Maður fór ekki í gegnum Numerus Clausus fyrir ekki neitt. Verst er þegar eiginkonan gefur í skyn að maður veiði aldrei neitt. Það er bara ekki satt. Það gerist alveg að ég veiði. Sumir alveg ókei stórir. Alltaf hægt að setja hina bara í reyk, þá koma þeir inn á heimilið niðurskornir og vakúmpakkaðir þannig að engin leið er að giska á upphaflega stærð þeirra. 1 - 0 fyrir mér.

En það var þetta með læknaheilsuna. Ég sem sagt veiði. Og hin merkilega staðreynd er sú að mér finnst best að veiða einn, allra helst þar sem tæplega er möguleiki að hitta á aðra mannveru. Þess vegna fer ég iðulega á slóðir forfeðra minna á heiðum Húnaþings. Þaðan er ég runninn. Skrýtið að segja það, en stundum finn ég meira að segja fyrir skyldleikanum þarna uppi á reginheiðum, aleinn með rigningarúðann í andlitið í kvöldsvalanum. Í júní kemur nóttin aldrei á þessum slóðum og mig langar ekki til að fara að sofa. Það eina sem mig langar til að gera er að standa úti í lognkyrru vatninu, heyra úið í himbrimanum og velja næstu flugu úr boxinu í vinstri brjóstvasanum. Og staðreyndin er sú að á þessum stundum hugsa ég aldrei um vinnuna mína. Bara ekki. Og staðreyndin er sú að þessar stundir eru hollar. Þær eru nauðsynlegar til að minna sig á að maður er ekki bara læknir heldur líka maður. Mér er sagt að svona stundir séu kallaðar „núvitund“ á nútímamáli og hægt sé að skrá sig á rándýr námskeið til að þjálfa sig í að upplifa svoleiðis stundir.

Það er ekki fyrr en ég er að keyra niður af heiðunum sem ég man eftir að skráningarfresturinn á næstu ráðstefnu um læknaheilsu er að fara að renna út.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica