03. tbl. 105. árg. 2019

Umræða og fréttir

Stofnfrumur bæti líf Parkinson-sjúklinga í stað fósturfrumna, rætt við Arnar Ástráðsson

Átta fóstur þarf í eina ígræðslu til að bæta líf Parkinson-sjúklings

                                           
                                           Arnar Ástráðsson heila- og taugaskurðlæknir í Árósum hefur síðustu 13
                                           ár unnið við rannsóknir hjá Harvard.
                                           Mynd/gag

 

hlusta

Stofnfrumur munu leysa fósturfrumuígræðslur í Parkinson-sjúklinga af hólmi. Skortur hefur verið á fósturfrumum, en 8 fóstur þarf til einnar frumuígræðslu í hvern Parkinson-sjúkling. Með stofnfrumuígræðslum verður einnig tekið á siðfræðilegum og pólitískum álitamálum auk þess sem stofnfrumurnar eru ekki taldar mynda æxli, ólíkt því sem fósturfrumurnar eru taldar geta. Þetta kom fram í fyrirlestri Arnars Ástráðssonar læknis sem eftir erindi sitt á Læknadögum ræddi við Læknablaðið.

Arnar kynnti niðurstöður rannsóknateymis síns við Harvard á stofnfrumuígræðslum í apa. Hann vonar að stofnfrumuígræðsla verði rútínumeðferð við Parkinson í framtíðinni en ígræðslurnar séu gerðar til að minnka skjálfta og stífleika og taka á hægum hreyfingum Parkinson-sjúklinga. Arnar segir að allar ígræðslur í Evrópu séu um þessar mundir gerðar með fósturfrumum.

                                            

Aðgerðir sem breyta lífi fólks

„Við höfum séð það í Svíþjóð og víðar að ígræðslur breyta lífi sjúklinganna mjög mikið. Þeir hafa af þessu bata og geta minnkað lyfjameðferð og í sumum tilfellum hætt henni,“ segir Arnar sem hefur síðustu 22 ár starfað erlendis.

Arnar er heila- og taugaskurðlæknir við háskólasjúkrahúsið í Árósum og hefur síðustu 13 ár einnig starfað við Harvard Neuroregeneration Institute. Hann er því meðal fremstu vísindamanna á þessu sviði og byggja rannsóknirnar nú á niðurstöðum fyrri rannsókna hans og félaga.

„Okkur tókst að sýna fram á að dópamínfrumur gætu lifað í putamen í heila í að minnsta kosti 14 ár eftir ígræðslu og allar síðari rannsóknir á nýjum meðferðum á stofnfrumum byggja á að þetta virki,“ segir hann.

Arnar segir kenningar rannsóknarhóps hans þær að frumuígræðsla muni bæta virkni lyfja og minnka aukaverkanir þeirra á hreyfingu: „Erfitt er að fá þessi lyf til að virka á síðustu stigum Parkinson þegar mjög fáar dópamínmyndandi heilafrumur eru eftir. Til þess að þau virki verða að vera starfandi dópamínfrumur eftir til að taka upp þessi lyf,“ sagði Arnar en ígræðslurnar með hnitastungu í djúpkjarna hluta heilans (putamen) fjölgi dópamínmyndandi frumum.

Ígræðsla í apa og rottur

Rannsóknir þeirra byggja á niðurstöðum úr ígræðslum í apa og rottur. „Við erum að fá síðustu niðurstöður úr öpum, sem lofa góðu, og við eigum eftir að fá frekari niðurstöður úr rottutilraunum, en við gerum ráð fyrir að þessar ígræðslur verði prófaðar á mönnum innan eins til tveggja ára,“ segir Arnar og bætir við: „Klínískar rannsóknir eru þegar farnar af stað í Japan. Þeir byrjuðu í haust, en við erum enn með umsókn hjá FDA í Bandaríkjunum um leyfi til þess að fá að hefja þessar rannsóknir á sjúklingum í Bandaríkjunum.“

Spurður hvernig áhugi hans á Parkinson-rannsóknum hófst segir Arnar að hann hafi alltaf viljað verða heilaskurðlæknir. „Ég hafði mikinn áhuga á heilanum og starfsemi hans. Ég á líka systur sem er með mjög slæma fötlun vegna hreyfisjúkdóms. Það kveikti hjá mér áhuga á að hægt væri að lækna slíka sjúkdóma í framtíðinni.“ Flestir glími við Parkinson. „Ef þetta tekst hjá Parkinson-sjúklingum verður mögulega hægt að nýta þetta fyrir aðra sjúkdóma í heila líka,“ segir Arnar.

Tímafrekar framfarir

En sér hann fyrir sér að ævin endist til að leysa vandann? „Það er spurning. Mér finnst tíminn líða ótrúlega hratt og síðustu 13 ár, eða frá því að ég fór þarna fyrst, hafa liðið mjög hratt. Þó hafa orðið framfarir, en þær taka stundum langan tíma og það þarf að tryggja öryggi meðferðarinnar.“

James M. Schumacher heila- og taugaskurðlæknir á sjúkrahúsum í Sarasota og Boston tók þátt í Parkinson-málstofunni á Læknadögum, en hann hefur síðustu 8 ár unnið við rannsóknina að ígræðslum í apana. Þar var einnig Tipu Z. Aziz, frá Oxford, sérfræðingur í djúpkjarnaörvun, sem Arnar bendir á að sé sú skurðaðgerð sem sé viðurkennd í dag. Svo var þar yfirmaður Arnars og prófessor í Árósum, Jens Christian Sørensen, sem hefur rannsakað málefnið í áratugi.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica