03. tbl. 105. árg. 2019

Umræða og fréttir

Haraldur Briem með hálskraga og fálkaorðu

Haraldur fyrrum sóttvarnalæknir er að jafna sig eftir alvarlegt slys á heimili sínu nú á vetrarmánuðum. Aðeins eru þrír mánuðir síðan hann hálsbrotnaði.

                                           
                                            Haraldur Briem er allur að skríða saman eftir alvarlegt hálsbrot á
                                            heimili sínu nú í byrjun vetrar. Mynd/gag

 

hlusta

Við setjumst niður með rjúkandi kaffi í borðstofu þeirra hjóna Haraldar Briem og Snjólaugar G. Ólafsdóttur. Þótt þau hafi verið á sama tíma í Menntaskólanum í Reykjavík kynntust þau ekki fyrr en í háskóla, hann í læknisfræði og hún í lögfræði. Næsta sumar eiga þau gullbrúðkaupsafmæli. Heimili þeirra hjóna er afar hlýlegt og bjart í vetrarsólinni, sem skín inn um gluggana þar sem húsið stendur ofan við Laugardalinn en þar hafa þau búið síðustu tvo áratugi.

„Jú, pabbi Geirs Gunnlaugssonar fyrrum landlæknis var arkitekt og teiknaði þetta hús. Það var byggt 1954. Geir ólst upp hér,“ segir Haraldur þar sem við setjum okkur í stellingar fyrir spjallið. „Hér er frábært að búa.“

                                           
                                           Fjórtán manns fengu heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu í ársbyrjun
                                           úr hendi forsetans og á myndinni eru þau hjónin Eliza Reed forsetafrú og
                                           Guðni Th. Jóhannesson forseti lengst til vinstri. Næst þeim er Margrét
                                           Frímannsdóttir, fyrrum þingmaður, Agnes Anna Sigurðardóttir
                                           framkvæmdastjóri, Ragnar Aðalsteinsson hæstaréttarlögmaður,
                                           Þórhallur Sigurðsson leikari og Páll Óskar Hjálmtýsson söngvari. Fremst
                                           sitja Haraldur Briem og Guðríður Ólafs Ólafíudóttir, fyrrum formaður
                                           Sjálfsbjargar. Mynd/ Gunnar G. Vigfússon

Fékk fálkaorðu í ársbyrjun

Eins og flestir ef ekki allir þekkja var Haraldur sóttvarnalæknir landsmanna. Hann gegndi stöðunni í 18 ár, til ársins 2015, og hefur forysta hans í farsóttum skilað honum fálkaorðu sem hann fékk nú í ársbyrjun.

„Já, þetta var eins og þruma úr heiðskíru lofti,“ segir Haraldur hógvær og hissa að hann væri einn þeirra 14 sem valdir voru til að taka á móti þessari heiðursorðu sem hann fékk fyrir störf sín í þágu heilsuverndar og lýðheilsu.

Þótt Haraldur Briem sé formlega hættur störfum er hann ráðgefandi bæði hjá sóttvarnalækni og landlækni í ýmsum málum. Þá hefur hann stokkið til og leyst eftirmann sinn af og verið settur sóttvarnalæknir. „Sennilega er þá best að kalla mig starfandi sóttvarnalækni, ég er sem sagt varaskeifa ef á þarf að halda,“ segir hann og hlær.

Féll heima og hálsbrotnaði

Mörgum brá þegar þeir sáu Harald með hálskragann á Bessastöðum. Hálsbrotinn tók hann við fálkaorðunni, en hann braut banakringluna, efsta hryggjarliðinn. „Ég er allur að komast á ról,“ segir Haraldur nú þremur mánuðum eftir slysið. „Ég var hér í stofunni með gesti og ætlaði að fara að kveikja ljós yfir einu málverkinu og var með staf. Hann rann til á teppinu og ég skall á kommóðunni. Þannig fór þetta,“ segir Haraldur sem enn hefur rauða bletti á enninu eftir meðferðina.

„Skrúfuð var gjörð á höfuð mér. Ég var með brynju þar sem gjörðin var pinnuð niður,“ segir Haraldur og lýsir því að læknir hans hafi horft á hann eftir fallið og sagt: „Þú ættir nú eiginlega að vera dauður.“ Sjálfur hafi hann haldið að ef menn brotnuðu svo ofarlega á hálsi myndu menn lamast, en svo væri ekki, þótt margir hefðu það ekki af.

„En nú er ég að losna við kragann. Gjörðin þar á undan var bókstaflega eins og þyrnikóróna. Hún var sérkennileg og hana bar ég í tvo mánuði.“

Eftir sársaukafulla reynsluna segir Haraldur heilsuna nú vera að skríða saman. Hann jánkar því að fallið hafi verið áfall. „Já, þetta var erfitt fyrir konuna mína. Hún hjúkraði mér og studdi mig í alla staði og gerir enn.“

Heppinn að vera á lífi

Haraldur hefur því fengið auka tíma á þessari jörð. „Já, ég var heppinn. Læknar vilja meina það.“ En hvernig var þá að koma brotinn inn á spítalann þar sem hann þekkir svo marga? „Jú, maður fer fljótt í það hlutverk að vera bara sjúklingur.“

En áföll sem þetta hafa markað líf Haraldar. Hann hryggbrotnaði ungur maður, sem er meðal ástæðna þess að hann ákvað að verða læknir. Fyrir þann tíma hafði hann velt fyrir sér verkfræði, nú eða arkitektúr.

„Ég var með allskonar óljósar hugmyndir. En svo lenti ég í bílslysi á menntaskólaárunum og braut bakið á mér. Þá heimsótti ég spítala í fyrsta skipti og þótti merkileg stofnun. Starfsfólkið gekk um í halarófu; fyrst prófessorinn, svo yfirlæknirinn, svo deildarlæknirinn og loks hjúkrunarfræðingarnir sem voru með stjörnur í kappanum sem markaði starfsreynsluna og ég hugsaði: ég verð að fara í þetta,“ segir Haraldur og hlær. Slysið var alvarlegt þótt allir hafi komist lífs af.

„Þetta var rússajeppi og við vorum á leið í bæinn eftir fjallgöngu ofan af Hellisheiði um hávetur. Þetta var blæjubíll og við 7 í bílnum. Ég sat í framsætinu og fann dynkinn á bakinu. Hélt þetta væri búið en var þó ekki hræddur – enginn tími til þess.“

Ákvörðunin um að læra til læknis féll ekki öllum vel. „Pabbi reyndi að fá mig ofan af því að verða læknir. Þetta væri svo ógeðslegt, mikið blóð. Sjálfur var hann verkfræðingur og ætli honum hafi ekki fundist það eðlilegt fyrir mig.“

Hálfsænskur Íslendingur í Svíþjóð

Haraldur fæddist í Reykjavík árið 1945 og útskrifaðist úr læknisfræði við Háskóla Íslands árið 1972. Hann lærði, starfaði og kenndi í Stokkhólmi. „Þegar ég sem ungur maður var að huga að framhaldsnámi hitti ég Ólaf Ólafsson [fyrrum landlækni]. Honum fannst það góð hugmynd að ég lærði um smitsjúkdóma í Svíþjóð. Ég gerði það.“

Haraldur hafði forskot á marga lækna sem lærðu í Svíþjóð. Móðir hans var sænsk. Hún lærði íslensku sem töluð var á heimilinu en sænskuna lærði ég í Svíþjóð sem ég heimsótti oft sem barn. „Ég hef aldrei munað eftir mér öðruvísi en að tala tvö tungumál,“ segir hann. „Svíar heyra ekki að ég sé Íslendingur.“

Alnæmi fylgt honum eftir í starfi

Spurður hvað standi upp úr á ferli hans sem smitsjúkdómalæknir segir hann alnæmisfaraldurinn helst hafa litað tímann sinn.

„AIDS var að dúkka upp á 9. áratug síðustu aldar og búin var til farsóttanefnd ríkisins. Ég var ritari hennar og var fenginn til að vinna að lagabreytingum með öðrum.“ Farsótta- og sóttvarnalögunum hafi verið steypt í nýja löggjöf. Hann hafði þá verið yfirlæknir á smitsjúkdómadeild Borgarspítalans og tekið við stöðu sóttvarnalæknis í kjölfarið eftir að nýju sóttvarnalögin tóku gildi í ársbyrjun 1998.

„Síðan hefur gengið á ýmsu og AIDS- faraldurinn markað djúp spor í þetta starf. Alveg frá upphafi hefur maður fylgst með þessum faraldri og hvernig ný lyf gegn HIV sem veldur alnæmi leystu málið á endanum.“ Merkilegt hafi verið að sjá menn við dauðans dyr ganga út af spítalanum eftir að þau voru kynnt til leiks.

Tekið þátt í ýmsu alþjóðasamstarfi

Haraldur nefnir einnig alþjóðlegt samstarf, eins og við Sóttvarnastofnun Evrópusambandsins, og þann heiður að hafa komið að gerð alþjóðaheilbrigðisreglugerðarinnar. „Það er svona sóttvarnasáttmáli þjóðanna,“ segir Haraldur, sem varði töluverðum tíma í Genf í Sviss við reglugerðarsmíðina. Í kjölfarið hafi menn undirbúið sig undir næsta heimsfaraldur inflúensu og að hann gæti orðið eins og spænska veikin sem og aðrar bráðar ógnir við lýðheilsuna sem snerta þjóðir heims.

„Svo kom heimsfaraldur árið 2009, en hann var nú ekki eins alvarlegur og við vorum búin að undirbúa. En öll sú vinna var gríðarlega merkileg og stendur upp úr að hafa tekið þátt í henni: Tryggja okkur bóluefni, tryggja lyf, hlífðarbúnað og undirbúa samfélagið allt til að takast á við þetta vandamál.“ Merkilegt að hugsa til þess að þessi hlífðarbúnaður nýttist vel í öskufalli gosins í Eyjafjallajökli árið eftir en heilsufarleg áhrif eldgosa falla undir sóttvarnalögin.

En er hægt að sjá framtíðarfaraldra fyrir sér? „Nei, við erum alltaf á nálum yfir heimsfaraldri inflúensu, en erum með svo gott vöktunarkerfi í heiminum. Fólk má varla hnerra hinum megin á hnettinum þá veit maður af því,“ segir hann og nefnir þó að alls konar skrítnir hlutir séu að gerast.

Fylgist með framtíðarfaröldrum

„Það fer ekki mjög hátt, en bráðalungnabólga er í gangi á Arabíuskaganum. Dánartíðnin er talsvert há, en hún hefur ekki náð neinu flugi hvað sem verður,“ segir Haraldur. Lungnabólgan orsakist af veiru sem sé náskyld SARS, eða HABL eins og hún nefndist á íslensku, og er oftast kölluð bráðalungnabólga. Þá sé enn glímt við ebólu, nú síðast í Kongó.

„Hún er ólíkleg til að valda heimsfaraldri, en er erfið viðureignar. Fólk smitast af ebólu í Kongó og alltaf ótti við að hún smitist annað. Við vorum með lífið í lúkunum á sínum tíma að fá ebólu hingað frá Vestur-Afríku, til dæmis með heilbrigðisstarfsmönnum sem fóru þangað til að hjálpa. Þá þarf að vera viðbúnaður hérna, sem er bæði flókið og dýrt.“

Margt stendur upp úr löngum ferli, en Haraldur nefnir sérstaklega eitt síðasta verk Páls heitins Skúlasonar í embætti rektors Háskóla Íslands árið 2005. „Hann fór fram á það við mig að koma á laggirnar þverfaglegu námi í lýðheilsufræðum við Háskólann.“ Það gekk eftir og segir Haraldur að hann sé ánægður með að hafa ásamt góðum hópi komið á legg Miðstöð í lýðheilsuvísindum sem var hýst innan læknadeildar eftir nokkurt reiptog á milli deilda.

„Þá varð sú stefna ofan á að kjarninn í lýðheilsufræðunum skyldi vera faraldsfræði og líftölfræði en talsvert var tekist á um það,“ segir hann. Unnur Valdimarsdóttir hafi verið ráðin forstöðukennari við miðstöðina. „Miðstöðin hefur vaxið mjög og margir doktorar að útskrifast og mjög ánægjulegt að sjá.“

Haraldur er ánægður með starfsvalið og ferilinn. „Ekki síst að fara yfir í stjórnsýsluþáttinn og glíma við ráðuneyti, ráðherra og löggjafir. Það er mjög spennandi.“ Læknar megi sýna því meiri áhuga. „Það er mjög gefandi að hafa áhrif á ákvarðanir sem teknar eru um líf og heilsu fólks.“

Haraldur hvetur til bólusetningar

Haraldur Briem fyrrum sóttvarnarlæknir segir dræma þátttöku heilbrigðisstarfsmannna á Landspítala í bólusetningum miður. „Við höfum tekið eftir þessu. Það er furðulegt og við höfum mælt með því að heilbrigðisstarfsmenn láti bólusetja sig, meðal annars gegn inflúensu.“ Haraldur nefnir sérstaklega svínaflensuna og bólusetningar fyrir þann heimsfaraldur.

„Það voru ekki nema 50% sem vildu láta bólusetja sig en um leið og fyrstu sjúklingarnir þurftu að vera á gjörgæslu, tiltölulega ungt fólk komið í öndunarvélar, fór hlutfallið hátt í 90% yfir nótt.“

Haraldur segir bólusetningar minnka líkur á því að heilbrigðisstarfsmenn beri flensu í sjúklinga sína og ávinningurinn sé því mikill. Hann segir að lokum: „Bólusetningar hafa skilað bestum árangri fyrir lýðheilsu í heiminum alla tíð.“



Þetta vefsvæði byggir á Eplica