02. tbl. 105. árg. 2019

Umræða og fréttir

Ráðherrann steig í „ljónagryfjuna“. Svandís Svavarsdóttir í Hringsalnum

                                          
                                           Það er ekki á hverjum degi sem starfsmenn Landspítala hafa
                                           heilbrigðisráðherra í sigti, og Hringsalurinn var alveg pakkaður
                                           föstudagsmorguninn 11. janúar þegar Svandís mætti á klukkutíma fund
                                           læknaráðs.

                                           
                                             Agnes Smáradóttir krabbameinslæknir spurði ráðherra um
                                             krabbameinsáætlunina.

„Mitt markmið númer eitt, tvö og þrjú er að styrkja opinbert heilbrigðiskerfi. Ekki af því að ég hafi sérstakan áhuga á að setja opinberan rekstur ofar öðrum tegundum af rekstri heldur vegna þess að það er mikilvægt, og sýnir sig í samanburði á milli heilbrigðiskerfa, að öflugt opinbert kerfi er alltaf kjarninn í sterku heilbrigðiskerfi,“ sagði Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra á opnum fundi læknaráðs Landspítala um miðjan janúar. Auk heilbrigðisstefnunnar væri annað meginmarkmið sitt að draga úr greiðsluþátttöku sjúklinga sem sé hér ríflega 17%.

                                           
                                            Svandís var með stuttan inngang og svo gátu viðstaddir spurt. Ebba
                                            Margrét Magnúsdóttir formaður læknaráðs stýrði þessu af alkunnri
                                            röggsemi.

„Alþjóðaheilbrigðisstofnunin segir að það eigi að vera um 15% til þess að það gerist aldrei, eða minnsta kosti sjaldan, að fólk neiti sér um heilbrigðisþjónustu vegna efnahags.“ Dæmi séu um slíkt hér á landi.

Heilbrigðisráðherra áréttaði mikilvægi þess að eiga gott samstarf við Landspítala. „Ég hef átt það og ég vil þakka sérstaklega fyrir það á þessum fundi.“

                                             
                                              Ungir og gamlir brennandi af spurningaþörf.

                                               
                                                Pálmi V. Jónsson hefur vakið umræður um velferð aldraðra og spurði
                                                ráðherra beint.

                                               
                                                Skýrsla landlæknis, kulnun lækna, svokallaður mönnunarvandi,
                                                Landspítali og byggingarlóðin, hamarshögg og sprengingar, - örlítið brot
                                                af því sem bar á góma.

Skortur á líknarrýmum

Pálmi V. Jónsson, yfirlæknir á öldrunarlækningadeild, reið á vaðið í umræðunum og benti á að skortur væri á líknarrýmum. Tíu til fimmtán manns á hverjum tíma þyrftu á líknarþjónustu að halda. Fjölga þyrfti rýmunum, hvort sem væri í Kópavogi, Vífilsstöðum eða nýja hjúkrunarheimilinu á Seltjarnarnesi.

„Ég vil benda á að þegar nýi Sólvangur opnar, bætist við eitt pláss. En þá losnar gamla rýmið. Þar eru 55 rými og í stað þess að fara í endurnýjun sem tekur um tvö ár mætti nýta þau strax  fyrir hvíldarinnlagnir,“ sagði Pálmi. Hann benti einnig á að þörf væri fyrir öldrunargeðdeild. „Það eru engir málsvarar fyrir geðsjúka aldraða sem láta almennilega í sér heyra. Það er stórkostlegt vandamál,“ sagði hann.

Svandís sagðist hlusta þegar Pálmi ræddi öldrunarmál. „Ég veit að hann talar af mikilli reynslu,“ sagði hún.  „Við þurfum að horfa til sveigjanlegri og fleiri úrræða en við gerum,“ sagði hún. „Við erum svolítið föst í þessari hefðbundnu nálgun að eftir því sem við fjölgum nýjum hjúkrunarrýmum leysum við vandann. En ég vil nefna að á Akureyri er verið að vinna að spennandi tilraunaverkefni. Þar er verið að nýta fjármagn sem hefði nýst fyrir 10 hefðbundin hjúkrunarrými í að minnsta kosti þrisvar sinnum fleiri dagdvalarrými til þess að koma til móts við vilja íbúanna að vera í dagdvöl alla daga ársins en ekki aðeins virka daga og fara svo heim eftir kvöldmat. Betri lífsgæði, betur farið með fé og betri og sveigjanlegri þjónusta,“ sagði Svandís.

Þá sagðist hún vera sammála um Sólvang. „Ég er sammála þér að við getum horft til þessara rýma sem losna til að vinna á fráflæðisvanda Landspítalans.“

 

Áhyggjur af fáum svæfingalæknum

Viðar Magnússon, svæfingalæknir á Landspítala og yfirlæknir bráðaþjónustu utan sjúkrahúsa, sagðist hafa áhyggjur af mönnun svæfingalækna á svæfingadeild Landspítala í Fossvogi.

„Þetta er deild sem skiptir mjög miklu máli, en við höfum á undanförnum árum verið í vandræðum með að manna deildina almennilega,“ sagði Viðar og nefndi að meðal ástæðna væri talað um aðstöðuleysi og ráðningarkjör, auk fárra möguleika á hlutastarfi.

Svandís sagði mönnunina tengjast nýjum spítala og að aðstæður standist samanburð við það sem best gerist í heiminum. „Það er snúið að sinna þjónustu á heimsmælikvarða við aðstæður og húsnæði sem eiga fyrir löngu að heyra sögunni til. Það er mjög mikil áskorun,“ sagði hún.

„Ég vil líka segja það að ég hef verið að horfa sérstaklega til mönnunar í hjúkrun vegna þess að það er þrástef þegar við erum að ræða mönnunarvandann hér,“ sagið hún. „Þá vil ég horfa til þess að kjaramál snúist um meira en launin í umslagið. Þau snúast líka um starfsandann, starfsumhverfið og vaktaálagið. Er möguleiki á starfsþróun og framvindu, vísindastarfi og svo framvegis?“ Hún hafi þegar sett saman tillögur sem hún feli forstjórum allra heilbrigðisstofnanna að skoða og meta. Farið verði yfir árangurinn á ráðherrafundi í apríl.

Viðar nefndi einnig dauðann. Samfélagið þurfi að huga að honum. „Við eigum erfitt með að sleppa okkar gamla fólki. Ég hef horft á eftir tveimur ömmum á síðastliðnum tveimur árum deyja á hjúkrunarheimilum. Mér fannst það ferli dragast um of.“ Fólk eigi erfitt með að sleppa takinu af ástvinum sínum. „Við þurfum að taka það upp hvenær og hvar við eigum að sleppa.“

Svandís tók undir þau orð og sagði vert að ræða gildi almennt í heilbrigðisþjónustu sem og siðferðileg álitamál. „Við höfum ekki mjög þroskaða umræðu um slík mál á Íslandi,“ sagði hún. Gildin þurfi að vera skýr.

 

Umsátursástand við uppbygginguna

Læknar ræddu líka ónæði af uppbyggingu svæðisins. Theódór Sigurðsson gjörgæslulæknir sagði þau oft í fáránlegu návígi við sprengingarnar vegna byggingar nýja spítalans. Brynja Ragnarsdóttir fæðingarlæknir sagði unnið við umsátursástand.

„Hér er verið að byggja og sprengja allan hringinn. En eftir sitjum við og það eru engin áform um að bæta eða stækka aðstöðu sem er löngu úrelt, sem styður ekki við nútíma fæðingarþjónustu eða aðra þjónustu við konur,“ sagði hún

Svandís sagði rétt að slaka ekki á skóflunni og vert að komast sem fyrst yfir þann fasa sem valdi ónæðið. Hún sagðist engin svör hafa við því hvers vegna kvennadeildin hafi ekki verið með í þessum uppbyggingaráformum. Hins vegar sé nú aðeins unnið að fyrsta áfanganum.

„Stundum er talað um að þegar fyrsta áfanga verði lokið séum við búin að nútímavæða aðbúnað íslenskrar heilbrigðisþjónustu, en það er auðvitað ekki svo. Taka þarf fleiri þætti til skoðunar. Í öðrum áfanga þurfum við líka að skoða hvernig við sjáum heilbrigðisþjónustuna til lengri tíma og aukna áherslu á göngudeildarþjónustu,“ sagði Svandís.


Krabbameinsáætlun í augsýn

Agnes Smáradóttir, yfirlæknir á krabbameinsdeildinni, spurði um krabbameinsáætlunina sem gerð hafi verið fyrir nokkrum árum og endurskoðuð fyrir einu til tveimur árum. „Við höfum ekkert heyrt af henni. Erlendis er lögð áhersla á að slík áætlun sé til og eftir henni farið. Hver er staðan á krabbameinsáætluninni og hvernig á að innleiða hana?“

Svandís svaraði um hæl: „Krabbameinsáætlunardrögin, sem liggja á mínu borði, eru í raun staðfest, en það hefur farist fyrir að kynna það.“ Þau þurfi að kynna viðkomandi stofnunum fyrir innleiðingu.

Þorgerður Sigurðardóttir, svæfingalæknir á gjörgæslu í Fossvogi, spurði hvort ekki væri tími til kominn að ráða nýtt fólk í hlutastörf? Svandís sagðist standa algjörlega með afstöðu forstjórans og forystu spítalans varðandi kröfur til ráðningarhlutfalls starfsmanna.

„Ég hef enga ástæðu til annars en að treysta forystu spítalans í þeim efnum enda er það á borði spítalans sjálfs að taka afstöðu og ég hlutast ekki til um ákvarðanir um slík mál inni í neinum stofnunum – ekki Landspítala frekar en öðrum.“

Kristján Guðmundsson hjartalæknir spurði að lokum um lokun Hjartagáttarinnar og hvort ráðherra hyggðist beina því til stjórnar spítalans að endurskoða ákvörðunina?

Svandís sagði vert að rýna allar ákvarðanir sem teknar væru. „Ég veit að margar spurningar hafa vaknað við þessa ákvörðun og ég veit líka að margar af ástæðum þess að þessi niðurstaða varð úr voru óhjákvæmilegar.“ Þetta sé eitt af því sem spítalinn þurfi að taka til skoðunar. „Því við eigum að taka ábendingar landlæknis alvarlega,“ sagði hún.Þetta vefsvæði byggir á Eplica