02. tbl. 105. árg. 2019

Ritstjórnargrein

Kvennadeild Landspítala 70 ára

Hulda Hjartardóttir Yfirlæknir fæðingateymis Landspítala

doi: 10.17992/lbl.2019.02.214

Nú í byrjun þessa árs voru liðin 70 ár frá því að fæðingadeild Landspítalans fékk sitt eigið húsnæði. Undir þessu nafni var deildin þekkt þar til árið 1976 þegar A álman bættist við og fékk þá deildin heitið kvennadeild Landspítala. Á kvennadeildinni fæðast nú 75% allra barna á landinu og nær allar aðgerðir vegna krabbameina í kvenlíffærum fara þar fram auk stórs hluta annarra aðgerða vegna sjúkdóma í kvenlíffærum, fósturláta og þungunarrofa. Að auki fer þar fram mikil göngudeildarstarfsemi, fósturgreining og erfðaráðgjöf.

Það er gaman að geta sagt frá góðum árangri á deildinni og ber þar einna hæst að Íslendingar hafa verið í fararbroddi hvað varðar lága tíðni burðarmálsdauða árum saman. Þessi tíðni var 7,4 árin 1992-1996 en er nú aðeins 3,3 dauðsföll á hver 1000 lifandi fædd börn árin 2012-2016. Við erum þar skrefi framar en hinar Norðurlandaþjóðirnar en Finnar koma næst okkur með tíðnina 3,9/1000. Nýgengi fósturköfnunar hefur einnig lækkað á undanförnum árum. Bætt útkoma nýbura er þeim mun markverðari þegar tíðni keisaraskurða er skoðuð en hún hefur ekki breyst síðastliðin 20 ár og haldist um 17% sem er nálægt þeim 15% sem WHO metur að sé eðlileg tíðni. Þetta er á sama tíma og aldur fæðandi kvenna og þyngd hafa hækkað sem hvoru tveggja hefur sýnt sig að auka hættu á keisaraskurðum og verri útkomu nýbura.

Hverju ber að þakka þennan góða árangur? Ein augljós skýring er að fósturgreining veitir upplýsingar um meðfædd vandamál hjá fóstrum sem hægt er að bregðast við og bjóða þungunarrof í tilviki banvænna galla eða undirbúa meðferð veikra nýbura á sem bestan hátt. En þetta er ekki eina skýringin. Hér á landi er fólk almennt vel upplýst og hefur góðan aðgang að heilbrigðisþjónustu. Starfsfólkið er vel menntað og víðsýnt og það er góð samvinna við heilsugæslu sem sinnir stórum hluta mæðraverndar. Stjórnendur hafa verið framsýnir og metnaðarfullir og lagt mikla áherslu á sannreynd vinnubrögð og er þar Gæðahandbók kvennadeildar í fremstu röð á Landspítala með um 350 útgefin skjöl. Þverfagleg teymisvinna liggur að baki verklagsreglum og tryggir stöðuga notkun þeirra.

Mikil samvinna er með barnalæknum og starfsfólki vökudeildar að ógleymdum svæfingalæknum og starfsfólki skurðstofu. Reglulega er fylgst með árangri og eru virkir árangursmælar meðal annars á fæðingarvaktinni þar sem hægt er að sjá tíðni ýmissa útkoma og inngripa í fæðingar. Nýtt kerfi miðlægrar vöktunar á fósturhjartslætti, ný rafræn mæðraskrá, námskeið fyrir starfsfólk til að þjálfa viðbrögð í bráðaaðstæðum eru allt liðir í því að tryggja öryggi fæðandi kvenna. Atvikaskráning þykir sjálfsögð og reynt er að stuðla að öryggismenningu á ýmsan hátt með fundum og stuðningi við starfsfólk.

Á sama hátt fer fram mikið öryggis- og umbótastarf á kvenlækningadeildum þar sem unnir hafa verið 5 heildstæðir meðferðarferlar á undanförnu ári. Hafði Landspítali einsett sér að vinna 5 slíka ferla á árinu og er þetta því geysilega góður árangur hjá þessari einu deild. Nú um áramótin hófst viðamikil samtímaskráning á krabbameinum í legi, leghálsi og eggjastokkum þar sem skráð verður greining, aðgerð, önnur meðferð og eftirfylgd. Á þetta eftir að veita mikilvægar upplýsingar um árangur meðferðar þessara algengustu krabbameina í kvenlíffærum.

Mikil breyting hefur orðið á legutíma bæði sængurkvenna og eftir aðgerðir á kvenlíffærum. Ein til tvær vikur var algengur legutími á deildinni hér áður á fjórum legudeildum. Snemmútskriftir eru nú orðnar reglan og flestar konur útskrifast á öðrum til þriðja sólarhring eftir keisaraskurði eða legnám, aðrar dvelja þaðan af skemur og legudeildunum hefur fækkað í tvær. Þannig hefur húsnæði kvennadeildarinnar verið endurskipulagt aftur og aftur og reynt að hýsa þá starfsemi sem þar fer fram. Það er þó að mörgu leyti ófullnægjandi, þröngt og óhentugt og stendur það starfseminni talsvert fyrir þrifum. Því miður er enn ríkjandi nokkur óvissa með framtíðarhúsnæði deildarinnar og ekki fyrirsjáanlegt að fæðingaþjónustan fái pláss á nýja spítalanum. Það væri óskandi að eftir áratug verði fæðandi konur og konur sem þurfa aðgerðir á kvenlíffærum auk þeirra sem starfa við að veita þeim þjónustu betur sett með húsnæði og aðbúnað. Við kvíðum þó ekki framtíðinni hvað mannauð varðar því við erum svo lánsöm að á kvennadeildinni vinnur samhentur hópur og það hefur yfirleitt verið auðsótt að fá hæft fólk til starfa. Starfsánægja er með því besta sem gerist á Landspítala og við vonum að okkur takist að bæta enn starfsumhverfið og stefnum á að halda áfram að bæta heilsufar kvenna og nýbura.Þetta vefsvæði byggir á Eplica