01. tbl. 105. árg. 2019

Umræða og fréttir

Embætti landlæknis 27 pistill. Ný reglugerð um vélskömmtun lyfja væntanleg

Fyrir liggur endurskoðun á reglugerð um skömmtun lyfja1 sem á margan hátt er barn síns tíma því hún fjallaði að mestu um skömmtun í öskjur eða „lyfjabox“, en nú er vélskömmtun orðin ráðandi í lyfjaskömmtun og aðeins örfá apótek bjóða uppá skömmtun í lyfjabox.

Nokkuð hefur borið á því að ávanabindandi lyf séu sett í skömmtun en slík lyf eru yfirleitt ekki ætluð til notkunar nema skamman tíma í einu. Fyrir ákveðin lyf getur beinlínis verið nauðsynlegt að taka hlé á notkun til að forðast þolmyndun og ávanabindingu. Of algengt er að sjúklingar taki til dæmis svefnlyf og róandi lyf samfellt svo árum skiptir og sýnir lyfjagagnagrunnurinn að tæplega þriðjungur þeirra sem eru á svefnlyfjum í dag voru það einnig fyrir 15 árum síðan.

Önnur hlið á lyfjaskömmtun er að hún er talin spara tíma lækna. Þetta er sennilega ein aðalástæða þess að vélskömmtun er afar mikið notuð á hjúkrunarheimilum. Lyfjameðferð, ekki síst hjá öldruðum, krefst þess að meðferðarsamband sé reglulegt. Hættan við skömmtun er sú að ekki verði hugað nógsamlega að því að draga úr eða hætta alveg gjöf ákveðinna lyfja.

Þegar notkun ávanabindandi lyfja hjá sjúklingum er vaxandi eða í mikilli óreiðu þykir læknum oft hægðarauki að því að koma reglu á töku þessara lyfja með því að koma þeim í skömmtun. Það sem gerist því miður iðulega er að sjúklingar fara að fá ávísað aukalega ávanabindandi lyfjum við hliðina á föstu lyfjaskömmtuninni. Einnig eru dæmi um að einstaklingar séu í skömmtun á sambærilegum ávanabindandi lyfjum hjá tveimur læknum í einu. Við skammtímalyfjagjöf og niðurtröppun ávanabindandi lyfja er hægt að setja þessi lyf í skömmtun en þá þarf að vera mjög skýrt í hversu langan tíma, hvenær ætti að minnka skammta og hvenær ætti að hætta gjöf lyfjanna.

 

Skömmtun svefnlyfja (ATC N05C)

Alls hafa 33.579 einstaklingar fengið ávísað svefnlyfjum það sem af er árinu 2018, þar af hafa 1366 einstaklingar fengið ávísað meira en tveimur skilgreindum dagsskömmtum að meðaltali hvern dag ársins. Um 4000 einstaklingar fengu svefnlyf skömmtuð og 804 læknar ávísuðu svefnlyfjum á sjúklinga í skömmtun á árinu 2018. Í Sérlyfjaskrá segir um langalgengasta svefnlyfið, zópíklón, að meðferðartíminn skuli vera eins skammur og hægt er, og ekki lengri en 2-4 vikur.

 

Skömmtun róandi- og kvíðastillandi lyfja (ATC N05B)

Alls fengu 25.173 einstaklingar ávísað róandi- og kvíðastillandi lyfjum það sem af er árinu 2018, þar af fengu 400 einstaklingar ávísað meira en tveimur skilgreindum dagsskömmtum að meðaltali hvern dag ársins. 2243 einstaklingar fengu róandi lyf skömmtuð. Í Sérlyfjaskrá segir um algengasta róandi- og kvíðastillandi lyfið, alprazólam, að meðferðartímabilið skuli vera eins stutt og mögulegt er, og ekki lengra en 8-12 vikur.

 

Skömmtun ópíóíða (ATC N02A)

Meira en 58.000 einstaklingar fengu ávísað ópíóíðum það sem af er árinu 2018. Í sérlyfjaskrá segir um eitt algengasta verkjalyfið í N02A, Parkódín forte, að ,,takmarka skal lengd meðferðar við 3 daga og ef virk verkjastilling næst ekki skal ráðleggja sjúklingum að leita álits læknis“.

Algengt er að læknar sem sinna öldrunarþjónustu hafi marga einstaklinga í skömmtun á ávanabindandi lyfjum og er skömmtun algengari meðal eldri einstaklinga, sjá mynd 1 .

Í Sérlyfjaskrá eru skýrar leiðbeiningar um tímalengd notkunar ávanabindandi lyfja. Nýverið skilaði nefnd á vegum velferðarráðuneytisins af sér skýrslu2 þar sem segir: „Ávanabindandi lyfjum verði almennt ekki ávísað eftir símaviðtal og þau ekki sett í vélskömmtun“. Ennfremur: „Vélskömmtun bensódíazepína er í flestum tilfellum ósamrýmanleg kröfunni um eins stuttan meðferðartíma og mögulegt er og ætti því að öllu jöfnu ekki að eiga sér stað nema um sé að ræða meðferð við flogaveiki eða að skömmtunin sé skipulögð til að draga úr eða hætta notkun lyfs.“ Lyfjateymi Embættis landlæknis hvetur lækna til þess að tileinka sér þessar ábendingar velferðarráðuneytisins.

 

Heimildir

1. Velferðarráðuneytið. Drög að reglugerð um skömmtun lyfja. samradsgatt.island.is/oll-mal/$Cases/Details/?id=104 - desember 2018.
 
2. Velferðarráðuneytið. Aðgerðir til að sporna við misnotkun lyfja sem geta valdið ávana og fíkn. stjornarradid.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=3d1a8517-5f66-11e8-942c- 005056bc530c - desember 2018.  
 
3. Lyfjagagnagrunnur Embættis landlæknis.  
 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica