05. tbl. 104. árg. 2018
Fræðigrein
Bót og betrun. Lækningar í Skriðuklaustri á fyrri hluta sextándu aldar. Steinunn Kristjánsdóttir
Inngangur
Fornleifarannsóknir leiddu nýverið í ljós að sérhæfður spítali var rekinn í klaustrinu á Skriðu í Fljótsdal á fyrri hluta 16. aldar. Skriðuklaustur var stofnað seint á 15. öld af einkaaðilum í samstarfi við Skálholtsbiskup eftir langvarandi hörmungar í landinu vegna náttúruhamfara og farsótta. Því var síðan lokað vegna siðaskiptanna eftir aðeins 6 áratuga rekstur. Á rekstrartíma þess voru 8 önnur klaustur starfandi í landinu en klausturstofnanir urðu alls 14 frá því fyrsta klaustrið var stofnað að Bæ í Borgarfirði árið 1030 þar til það síðasta, Skriðuklaustur, var stofnað árið 1493. Klaustrin náðu mörg – ekki öll – að festa sig í sessi eftir töluverða erfiðleika fyrstu aldirnar eftir kristnitöku og urðu ásamt biskupsstólunum að umsvifamestu kirkjulegu stofnunum í landinu fram til siðaskipta. Þau höfðu það hlutverk að þjóna almenningi með margvíslegum hætti og tóku að sér þurfamenn, það er sjúka, fátæka, heimilislausa og örvasa gamalmenni. Ráku sum þeirra spítala, eins og gert var á Skriðuklaustri.1 Enn fremur gat almenningur allur, hvort sem það voru karlar, konur eða börn, kosið að flytjast í klaustrin án þess að taka vígslu og starfa fyrir þau í þágu almættisins og samfélagsins alls. Voru þeir kallaðir leikmenn til aðgreiningar frá hinum vígðu.
Líkneski af heilagri Barböru fannst við
uppgröftinn. Það er aðeins 30
cm á hæð en hefur eigi að síður gegnt mikilvægu
hlutverki í
spítalahaldinu í klaustrinu. Hægt var að heita á það til að lækka
sótthita.
Líkneskið var illa brotið þegar það fannst en hefur nú verið límt
saman.
Ekki tókst þó að líma turninn á það en hann er helsta einkenni heilagrar
Barböru. Líkneskið er nú varðveitt í Þjóðminjasafni Íslands. -
(Mynd: Jónas Hallgrímsson.)
Klausturspítalinn á Skriðu
Skriðuklaustur var rekið í um 1500 fm stórri byggingu sem reist var á túnflöt í hvarfi frá bænum á Skriðu í Fljótsdal. Voru klausturhúsin að hluta til á tveimur hæðum. Heimakirkja var á staðnum en önnur kirkja reist í klaustrinu, enda hlutverk þeirra afar ólík. Skóli var þar fyrir börn, bæði stúlkur og drengi, ef marka má heimild þess efnis í Fornbréfasafni Íslands.2 Í sömu heimild kemur fram að klausturhúsunum hafi verið skipt í misheilög rými, sum opin öllum en önnur aðeins reglubræðunum sjálfum. Þessi skipting kom einnig fram þegar rústir klausturhúsanna voru grafnar upp en rýmin í þeim voru að minnsta kosti 13. Þau rými sem opin voru almenningi voru sjúkraskáli, gestaskáli, auk annarra veraldlegra rýma eins og til dæmis geymslur, eldhús, matsalur og búr. Reglubræðurnir höfðu hins vegar einir aðgang að innsta hluta kirkjunnar, eigin svefnskála, stofu príors og samtalsherbergi, svo eitthvað sé nefnt (mynd 2).3
Uppdráttur af húsaskipan á Skriðuklaustri (mynd: Steinunn Kristjánsdóttir
og Vala Gunnarsdóttir).
Brotið herðablað úr beinagrind ungs manns sem jarðaður var í
kirkjugarði Skriðuklausturs. (Mynd: Guðný Zoëga, úr gröf 43.)
Fram kemur í skjali um vígslu klausturkirkjugarðsins að klaustrið hafi átt að þjóna sem gististaður fyrir ferðamenn, eins og pílagríma og sjúka, og öðluðust þeir rétt til greftrunar í kirkjugarði þess ef þeir dóu meðan á dvölinni stóð þar.4 Af uppgreftinum mátti sömuleiðis ráða að gistiskálinn hafi verið reistur fyrstur af öllum rýmum klaustursins en á efri hæð hans – sem var eins konar baðstofuloft – var lokaður sjúkraskáli. Þar bjuggu einnig gamalmenni og fátækir, auk sjúkra, sem áttu þar athvarf samkvæmt reglu Ágústínusar en Skriðuklaustur starfaði samkvæmt henni. Þá eru hér ótaldir fjölmargir leikmenn af báðum kynjum og á öllum aldri sem störfuðu við klaustrið og höfðust að líkindum við í gestaskálanum.
Dæmi um klofinn góm á beinagrind unglings.
(Mynd: Guðný Zoëga, úr gröf 22.)
Uppgröftur á gröfum innan kirkjugarðsins á Skriðuklaustri sýndi alltént að þar voru bæði skjólstæðingar og leikmenn jarðaðir, rétt eins og reglubræðurnir sjálfir. Þannig var það alla jafna í klaustrum.5 Af tæplega 300 gröfum sem grafnar voru upp þar voru um það bil 130 grafir leikmanna, 150 grafir sjúklinga og loks um 20 grafir vígðra. Kirkjugarðurinn var jafnframt deildaskiptur, samkvæmt áðurnefndri skiptingu. Þá vakti athygli að sjúklingar með samskonar kvilla og mein voru jarðaðir saman.
Ein sullblaðran mældist 17 cm í þvermál (mynd: Lilja Laufey Davíðsdóttir,
úr gröf 126.)
Hnífur til að taka fólki blóð, fundinn í rústum Skriðuklausturs. Það var
gert til lækninga og almennrar heilsubótar. Eins var blóðtaka talin vera
áhrifarík leið til að hreinsa sig af syndum (mynd: Giuseppi Venturini,
nr. 2003-36-498).
Hvaða sjúkdómar hrjáðu fólk sem dó í spítalanum á Skriðuklaustri?
Svarti dauði kemur ítrekað fyrir í heimildum tengdum stofnun Skriðuklausturs en það kann að vera að þessi mannskæði sjúkdómur hafi ýtt á opnun klausturspítala fyrir austan. Það var einnig eftir langvarandi hörmungar af ýmsu tagi. Svarti dauði hefur raunar ekki verið greindur á mannabeinum úr kirkjugarði klaustursins enn sem komið er en aðeins er hægt að greina hann með DNA-greiningum og það hefur ekki verið gert ennþá. Sjúkdómar sem draga fólk til dauða á skömmum tíma, eins og svarti dauði gerði, skilja sjaldnast eða aldrei eftir sig sýnileg einkenni á beinum. Það gera aðeins sjúkdómar sem hrjá fólk í langan tíma.
Enda þótt svarti dauði hafi ekki verið greindur í beinagrindasafninu frá Skriðuklaustri má segja að flestir – ef ekki allir – þeir kvillar sem gengu meðal Evrópubúa hafi fundist þar. Um er að ræða smitsjúkdóma, jafnt sem meðfædda fötlun, áverka vegna áfalla, líkamsmeiðinga eða slysa. Þar á meðal má helst nefna sárasótt (bæði áunna og meðfædda), sullaveiki og berkla, einnig hörgulsjúkdóma eins og beinkröm og skyrbjúg. Líka krabbamein, klofinn góm og erfðasjúkdóminn Pagets. Þá eru áberandi alvarlega hamlandi beinbrot sem hafa valdið skerðingu á hreyfigetu eða lömun en einnig dauða. Í sumum tilvikum hafði slit í tönnum valdið alvarlegum sýkingum í gómi. Kona nokkur hafði látist vegna ítrekaðra höfuðhögga með eggvopni og önnur lifað lömuð upp að brjósti um nokkurt skeið. Ungur maður hafði lifað með brotin herðablöð í nokkra daga en látist síðan af völdum áverkanna (mynd 3). Unglingur með klofinn góm hafði búið við langvarandi barsmíðar til unglingsaldurs en fengið greftrun í kirkjugarði klaustursins (mynd 4). Hann hefur varla getað lifað af bernskuna án mikillar aðstoðar við að næra sig. Svona mætti lengi telja en öll hafa þau verið óvinnufær vegna veikinda sinna og því varla unnið fyrir vistinni í klaustrinu.3,6-13
Af beinagrindasafninu má ímynda sér að sárasóttin hafi leikið fólk verst en að minnsta kosti 19 beinagrindur báru skýr merki hennar, mörg hver langt gengin og alvarleg. Svo dæmi sé tekið var gat komið í höfuðkúpu ungrar konu sem var með áunna sárasótt en sárin (caries sicca) sem sóttin myndar á húð grafa sig smám saman inn í beinin ef ekkert er að gert (mynd 5). Þegar sjúkdómurinn nær þessu síðasta stigi sínu af fjórum koma oft í ljós fylgikvillar eins og geðveiki og hjartasjúkdómar. Önnur kona á þrítugsaldri hafði augljóslega verið þakin sárum og hrúðri áður en yfir lauk, en hægt er að lifa með sjúkdóminn í allt að 30 ár. Dæmi eru um meðfædda sárasótt í beinagrindasafninu en þá smitast sjúkdómurinn í móðurkviði. Sjúkdómurinn smitast annars við kynmök.14
Alvarleg dæmi um sullaveiki fundust einnig. Sullaveiki kallast það þegar ákveðin tegund af ormi (echinococcus granulosus) tekur sér bólfestu í líffærum fólks og býr þar til blöðru sem kallast sullur. Hægt er að ganga lengi með sull án einkenna en ormurinn fer fljótt að ganga á orku sjúklingsins. Kona sem lést á miðjum aldri eftir vist í Skriðuklaustri gekk með svo stóra sullblöðru í kviðarholi að hryggjarsúla hennar hafði skekkst. Sullblaðran hafði síðan kalkgerst í moldinni en hún mældist þá að minnsta kosti 17 cm í þvermál (mynd 6). Það var ekki allt, því konan var líka með sárasótt. Önnur miðaldra kona gekk með sömu sjúkdóma en það var hún sem einnig var lömuð upp að brjósti.3,15
Það er greinilegt að í mörg horn var að líta í klaustrinu á Skriðu. Lífsgæði þeirra heilsulausu sem leituðu sér hjálpar þar voru þó vafalítið meiri en heimafyrir hjá fjölskyldu og ættingjum. Þar var svo ótal margt í boði til að lina þjáningar, líkna og jafnvel lækna. Alltént mátti skýrt greina gróanda á sumum beinum þar sem sárasóttin hafði étið sig inn.12 Einnig fundust mörg dæmi um gróin beinbrot og sjá mátti að búið var um sum þeirra, eins og til dæmis lærbrot þar sem stúfarnir höfðu gengið til.16,17 Þá skipti trúin örugglega miklu og þeir helgu menn og konur sem hægt var að heita á til betra lífs.
Hvað var í boði?
Það kom á óvart hversu mikið var hægt að gera fyrir hina veiku sem leituðu til bræðranna á Skriðu, jafnvel fyrir alvarlega veika og rúmfasta. Samkvæmt Ágústínusarreglunni skipti matur miklu máli í bataferlinu en sjá mátti á hvers kyns matarleifum úr uppgreftinum að í Skriðuklaustri var fjölbreyttara og betra fæði í boði en almennt gerðist og gekk. Þar voru kjöt, fiskur, ferskt grænmeti og innflutt epli í boði en samkvæmt reglunni þurftu hinir sjúku ekki að fasta á mat, eins og aðrir – vígðir og óvígðir – í klaustrinu.3 Þá mátti baða sjúka en böð voru að öðru leyti ekki stunduð nema til hreinsunar á sál og þá aðeins með vígðu vatni.18
Hér eru ótalin lyfjagrösin, læknisáhöldin og líkneskið af heilagri Barböru sem heita mátti á til að lækka sótthita eða sporna gegn því að smitast af svarta dauða eins og hjónin sem nefnd eru hér að framan gerðu í erfðaskrá sinni árið 1494. Leifar alls þessa lágu grafin í rústum Skriðuklausturs. Frjókorn og fræ fundust af þremur ólíkum lækningaplöntum, þar af einni innfluttri. Það er brenninetla en hinar þekktu eru villilaukur og græðisúra.19 Græðisúra er til víða um land en ekki er útilokað að villilaukurinn hafi komið frá Bæ í Borgarfirði þar sem klaustur var fyrst stofnað í landinu. Þar vex hann enn, en hvergi annars staðar á landinu. Líkneskið af heilagri Barböru var flutt inn alla leið frá Hollandi, svo til nýtt, steypt úr terracotta-leir.3 Þá fundust í rústum klaustursins að minnsta kosti 18 áhöld til lækninga, eins og til dæmis nálar og hnífar, auk tveggja lyfjaglasa. Hnífarnir voru væntanlega einna helst notaðir til þess að taka fólki blóð en það var vel þekkt aðferð sem notuð var jafnt til heilsubótar og lækninga (mynd 7). Vel má hins vegar vera að lyf hafi verið flutt inn í lyfjaglösunum en bæði komu þau erlendis frá.3
Merkilegast er þó að kvikasilfur hafi að öllum líkindum verið notað til lækninga í Skriðuklaustri, rétt eins og öðrum klausturspítölum í Evrópu. Var það greint með efnagreiningu í beinum sjúkra þaðan, einkum þá þeirra sem þjáðust af sárasótt. Kvikasilfrið hefur sennilega verið borið útvortis á sár þeirra og jafnvel líka til inntöku. Efnið var notað um aldir til lækninga og virkaði vel.20-23 Það er vel hugsanlegt að sárasóttarsjúklingarnir sem báru merki gróanda og bata í sárum á höfuðkúpu hafi einmitt verið meðhöndlaðir með þessu baneitraða efni. Ekki má nefnilega gleyma því að áhrifarík lyf, eins og við krabbameini, geta verið mjög eitruð. Allt hefur því verið reynt til að lækna og bjarga mannslífum, þá sem nú. Þá hefur umönnunin og líknin ekki síður en nærveran við almættið eða böð úr vígðu vatni skipt miklu fyrir hina mest þjáðu og deyjandi. Allt sem var í boði í Skriðuklaustri var þeim vafalaust bót á tímum þegar litið var svo á að hvers kyns veikindi væru til komin vegna synda mannkyns.
Lokaorð
Af minjum klaustursins sem grafnar voru upp á árunum 2002-2012 má ráða að þeir sem stóðu fyrir lækningum í Skriðuklaustri hafi ekki verið eftirbátar samstarfsmanna sinna í öðrum spítala-klaustrum í Evrópu. Aðferðir þar til lækninga voru þær sömu og stundaðar voru ytra. Notast var við heimagerð lyf sem unnin voru úr innfluttum plöntum en líka innflutt meðal eins og kvikasilfur. Þetta var vafalaust það besta sem völ var á.
Í Jónsbók er kveðið á um að hreppar og ættingjar ættu að sinna þurfamönnum en það voru sjúkir, fátækir, heimilislausir og örvasa.14 Vegna þessa ákvæðis hefur meginskoðun meðal íslenskra fræðimanna verið sú að klaustrin hafi ekki sinnt þessum málaflokki. Til stuðnings hefur verið bent á skort á rituðum heimildum um beina þátttöku klaustranna í þurfamannahjálp hérlendis.25-27 Skortur á rituðum heimildum getur þó varla verið staðfesting á því. Uppgröfturinn á Skriðuklaustri sýndi að minnsta kosti, svo ekki verður um villst, að þar var fólki í neyð hjálpað. Engar beinar ritaðar heimildir eru samt til varðveittar um að þurfamenn hafi leitað þangað, eins og til dæmis samningur um vist sjúkra eða umönnun örvasa fólks. Vissulega getur reynst örðugt að greina bein fátækra eða heimilislausra úr beinagrindasöfnum, með eins óyggjandi hætti og bein sjúkra og örvasa. Afar ólíklegt er aftur á móti að sumum nauðstöddum hafi verið neitað um vist, á meðan tekið var við öðrum óvinnufærum vegna sjúkdóma eða örkumla. Þá má ekki horfa fram hjá því sem stóð í reglum klaustranna, eins og til dæmis reglum Ágústínusar sem Skriðuklaustur fylgdi, að þeim bæri að taka við öllum þurfandi þegnum samfélagsins og gera engan greinarmun þar á.18 Þá eru vísbendingarnar í raun margar aðrar, eins og líkneskið af heilagri Barböru og sérákvæði í samningum um greftrun þeirra sem dóu af sótt í klaustrinu. Frá hinum klaustrunum á Íslandi eru og til varðveittir samningar um vist heilsulausra í þeim og líka talað um gjafir til fátækrahjálpar á vegum klaustranna.4
Það má þannig ljóst vera að tvöfalt heilsuverndarkerfi hafi verið rekið í landinu á miðöldum, rétt eins og víðast var gert meðal kaþólskra í Evrópu. Veraldleg yfirvöld hvöttu landsmenn augljóslega til þess að sinna þurfandi ættingjum að því marki sem kostur var á en klaustrin tóku á hinn bóginn við þeim allra verst settu. Þetta er ekki ólíkt því sem tíðkast í samfélögum nútímans. Ættingjar reyna af fremsta megni að aðstoða veik skyldmenni sín en þegar aðstæður leyfa það ekki lengur, er leitað sérhæfðrar aðstoðar á spítölum, líknardeildum og heimilum fyrir aldraða. Þessi mikilvæga viðbót sem í boði var á kaþólskum tíma hérlendis hvarf við siðaskiptin og lokun klaustranna. Aldir liðu síðan þar til aðstæður þurfamanna breyttust aftur til hins betra.
Heimildir
1. Kristjánsdóttir S. Leitin að klaustrunum. Sögufélag/Þjóðminjasafn, Reykjavík 2017. | |
2. Diplomatarium Islandicum IX/Íslenzkt fornbréfasafn. Hið íslenska bókmenntafélag, Reykjavík 1909-1913: 245. | |
3. Kristjánsdóttir S. Sagan af klaustrinu á Skriðu. Sögufélag, Reykjavík 2012. | |
4. Diplomatarium Islandicum VII/Íslenzkt fornbréfasafn. Hið íslenska bókmenntafélag, Reykjavík 1909-1913. 309-10. | |
5. Gilchrist R, Sloane B. Requiem. The Medieval Monastic Cemetery in Britain. Museum of London Archaeological Service, London 2005: 63; 205-6. | |
6. Zoëga G. Fornmeinafræðileg rannsókn á fimm beinagrindum úr klausturgarðinum á Skriðu. No. 23, 29, 30, 33 og 43' (report, 2007). Byggðasafn Skagfirðinga, Sauðárkrókur. | |
7. Pacciani E. Anthropological description of skeletons from graves no. 4, 62, 63, 65, 66, 67 and 68 at Skriðuklaustur Friary (report, 2006). Skriðuklaustursrannsóknir, Reykjavík. | |
8. Pacciani E. Anthropological description of skeletons from graves no. 5, 17, 27, 34, 54, 74, 75 and 80 at Skriðuklaustur Friary (report, 2008). Skriðuklaustursrannsóknir, Reykjavík. | |
9. Pacciani E. Anthropological description of skeletons from graves no. 83, 84, 85, 87, 88, 95, 96, 97 and 99 at Skriðuklaustur Friary (report, 2009). Skriðuklaustursrannsóknir, Reykjavík. | |
10. Pacciani E. Anthropological description of skeletons from graves no. 123, 124, 125, 126, 127, 128, 129, 130, 131, 132, 133, 134, 135, 136, 141, 142, 143, 145 and 146, at Skriðuklaustur Friary (report, 2010). Skriðuklaustursrannsóknir, Reykjavík. | |
11. Collins C. An Osteological Analysis of the Human Remains from the 2009 Excavation Season at Skriðuklaustur, East Iceland (report 2010). Skriðuklaustursrannsóknir, Reykjavík. | |
12. Collins C. An Osteological Analysis of the Human Remains from the 2010 Excavation Season at Skriðuklaustur, East Iceland (report 2011). Skriðuklaustursrannsóknir, Reykjavík. | |
13. Sundman EA. Osteological Analysis of the Human Remains – Skriðuklaustur 2011 (report, 2011). Skriðuklaustursrannsóknir, Reykjavík. | |
14. Kristjánsdóttir S. Poisoned Arrows of Amor. Scand J History 2011; 36: 406-18. https://doi.org/10.1080/03468755.2011.608483 |
|
15. Kristjánsdóttir S, Collins C. Cases of Hydatid Disease in Medieval Iceland. Int J Osteoarchaeology 2011; 21: 479-86. https://doi.org/10.1002/oa.1155 |
|
16. Pacciani E. Anthropological description of skeletons from graves no. 123, 124, 125, 126, 127, 128, 129, 130, 131, 132, 133, 134, 135, 136, 141, 142, 143, 145 and 146, at Skriðuklaustur Friary (report, 2010): 23-30. Skriðuklaustursrannsóknir, Reykjavík. | |
17. Sundman EA. Osteological Analysis of the Human Remains – Skriðuklaustur 2011 (report, 2011): 24, 50, 66-151. Skriðuklaustursrannsóknir, Reykjavík. | |
18. Ágústínusarreglur. Í fylgiriti Múlaþings 33 í þýðingu Vilborgar Auðar Ísleifsdóttur (2006): 114-20. | |
19. Kristjánsdóttir S, Larsson I, Åsen PA. The Icelandic Medieval Monastic Garden – Did it Exist? Scand J History 2014; 39: 560-79. https://doi.org/10.1080/03468755.2014.946534 |
|
20. Walser JW, Kristjánsdóttir S, Gowland R, Desnica N. Mercurial Medicine: Investigating the use of mercury as a treatment for syphilis in medieval Iceland. Int J Osteoarchaeology (in print). | |
21. Rasmussen KL, Skytte L, Ramseyer N, Boldsen JL. Mercury in soil surrounding medieval human skeletons. Heritage Sci 2013; 1: 16. https://doi.org/10.1186/2050-7445-1-16 |
|
22. Rasmussen KL, Skytte L, Pilekær C, Lauritsen A, Boldsen JL, Leth PM, et al. The distribution of mercury and other trace elements in the bones of two human individuals from medieval Denmark – the chemical life history hypothesis. Heritage Sci 2013; 1: 10. https://doi.org/10.1186/2050-7445-1-10 |
|
23. Rasmussen K, Skytte L, Jensen A, Boldsen J. Comparison of mercury and lead levels in the bones of rural and urban populations in Southern Denmark and Northern Germany during the Middle Ages. J Archaeol Sci Rep 2015; 3: 358-70. https://doi.org/10.1016/j.jasrep.2015.06.021 |
|
24. Ólafsson D, Jónsson M, Magnússon SG (ritstj.). Jónsbók. Háskólaútgáfan, Reykjavík 2004. | |
25. Þorláksson H. Frá kirkjuvaldi til ríkisvalds. Saga Íslands VI. Hið íslenska bókmenntafélag, Reykjavík 2003: 124-41. | |
26. Guttormsson L, Kjartansson HS. Siðaskiptin og fátækraframfærslan. Athugasemdir í tilefni af nýlegum útleggingum. SAGA 2014; LII (1): 119-43. | |
27. Guðmundsson GJ. "Item fatige folck ... j vett smor". Nokkur álitamál varðandi fátækrahjálp eftir siðaskipti. SAGA 2017; LV (2): 177-86. | |