12. tbl. 103. árg. 2017
Umræða og fréttir
Bréf til blaðsins. Veikindi vegna raka og myglu í húsnæði
„Annar eins maður og Oliver Lodge fer ekki með neina lygi.“ Þessi setning úr kvæði eftir Örn Arnarson kom upp í hugann við lestur greinar forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar í Fréttablaðinu 5. september síðastliðinn. Skáldið hæðist þar að þeirri skoðun að manni sem nýtur almennrar virðingar fyrir störf sín, geti ekki skjátlast þegar hann fjallar um málefni sem liggja utan við hans eigin fræðasvið. Sir Oliver var frægur eðlisfræðingur, en hér á landi var nafni hans haldið á lofti af andatrúarfólki fyrir trú hans á drauga, og gjarnan vísað til þess að annar eins maður gæti ekki haft rangt fyrir sér.
Í greininni heldur forstjórinn því fram að trúin á heilsuspillandi áhrif leka og raka í húsum með tilheyrandi myglu og niðurbroti byggingarefna, sé álíka trúverðug og trúin á drauga var áður á Íslandi og hafi komið í stað hennar. Þessi trú hafi hvergi fest rætur annars staðar, og þrátt fyrir vandlega leit í læknisfræðibókmenntum samtímans hafi hann ekki getað fundið þess stað að rakaskemmdir í húsum vegi að heilsu manna. Þar af leiðandi sé milljörðum króna hent í ónauðsynlegar viðgerðir á rakaskemmdu húsnæði.
Við höfum kannað sannleiksgildi þessara fullyrðinga. Við könnuðum niðurstöður fjögurra safngreininga þar sem höfundarnir hafa farið yfir fjölda greina um raka- og mygluskemmdir innandyra og áhrif þeirra á öndunarfærin. Einnig könnuðum við skýrslu Alþjóðaheilbrigðis-stofnunarinnar (WHO) um raka- og myglu innandyra.
Árið 2009 birti fyrrgreind stofnun leiðbeiningar um loftgæði innandyra. Þar er dreginn saman mikill fróðleikur um allt sem málið varðar á annað hundrað blaðsíðum. Í samantekt skýrslunnar má lesa að fullnægjandi faraldsfræðilegar niðurstöður, úr rannsóknum frá mismunandi löndum og loftslagi, sýna að þeir sem dvelja í röku og/eða mygluðu húsnæði séu í aukinni hættu að fá einkenni frá öndunarfærum, sýkingar í öndunarfæri og astma.1
Ef við horfum okkur nærri sýna niðurstöður úr rannsókn frá 6 borgum á Norðurlöndum að rakaskemmdir í húsum komu oftar fyrir í Reykjavík en í hinum borgunum. Surgur fyrir brjósti, næturmæði, næturhósti og hósti með uppgangi komu marktækt oftar fyrir hjá íbúum húsa með rakaskemmdir en í húsum án rakaskemmda (p<0,0001) og sama átti við um astma (p= 0,0009). Aukning einkenna var frá 27% fyrir astma upp í 80% fyrir næturmæði hjá þeim sem bjuggu í rakaskemmdum húsum.2 Þessar niðurstöður ríma vel við fjölda erlendra rannsókna af sambærilegum toga.
Tvær safngreiningar, önnur frá Finnlandi og hin í samstarfi bandarískra og nýsjálenskra vísindamanna, sýna að raki og mygla geta valdið astma3 og öðrum sjúkdómseinkennum frá öndunarfærum. Mat höfunda var að viðgerðir á rakaskemmdu húsnæði væru líklegar til að draga úr eða koma í veg fyrir slík einkenni.4
Önnur rannsókn frá Finnlandi sýndi fram á samband slímubólgu í nefi við raka og myglu og einkennin voru mest áberandi ef myglulykt var til staðar.5 Höfundar þeirrar greinar mæltu einnig með því að uppræta raka og myglu úr slíku húsnæði. Í safngreiningu frá Berkeley-háskóla var reiknað út að raki og mygla ylli 30-50% aukningu á öndunarfærasjúkdómum og astma.6 Enn ein safngreining fjallar um samband astma og myglu í íbúðarhúsnæði. Niðurstöður hennar var að raki í húsnæði byði upp á hættu á myglu, og að mygla af tegundunum Penicillium, Cladosporium og Aspergillus væru áhættuþættir fyrir astma hjá næmum einstaklingum.7
Að trúin á heilsuspillandi áhrif raka og myglu innandyra hafi hvergi fest rætur nema á Íslandi er úr lausu lofti gripið enda hafa birst greinar um þetta efni í að minnsta kosti fjórum heimsálfum og leiðbeiningar WHO sýna að þessi mál eru tekin alvarlega.
Þó verður að viðurkenna að sjaldan er hægt að sýna fram á það nákvæmlega hvað veldur sjúkdómum meðal þeirra sem dvelja í rakaskemmdu húsnæði. Þar sem mygla fylgir í kjölfar rakaskemmda hefur athyglin beinst að henni enda stundum sýnileg og lyktandi. Það kann þó að vera að önnur efni, sem losna úr læðingi við niðurbrot byggingarefna, eigi þar einnig hlut að máli. Myglan hefur því fengið óeðlilega mikið vægi í umræðunni hér á landi og hefur orðið einskonar pars pro toto fyrir þær breytingar sem verða í húsum þar sem rakaskemmdir eru.
Heimildir
1. WHO guidelines for indoor air quality: dampness and mould. World Health Organization, Genf 2009. | |
2. Gunnbjörnsdóttir MI, Franklin KA, Norbäck D, Björnsson E, Gíslason D, Lindberg E et al. Prevalence and incidence of respiratory symptoms in relation to indoor dampness: the RHINE study. Thorax 2006; 61: 221-5. https://doi.org/10.1136/thx.2005.057430 PMid:16396946 PMCid:PMC2080728 |
|
3. Quansah R, Jaakkola MS, Hugg TT, Heikkinen SA, Jaakkola JJ. Residential dampness and molds and the risk of developing asthma: a systematic review and meta-analysis. PLoS One 2012; 9: e93454. https://doi.org/10.1371/journal.pone.0047526 |
|
4. Mendell MJ, Mirer AG, Cheung K, Tong M, Douwes J. Respiratory and allergic health effects of dampness, mold, and dampness-related agents: a review of the epidemiologic evidence. Environ Health Perspect 2011; 119: 748-56. https://doi.org/10.1289/ehp.1002410 PMid:21269928 PMCid:PMC3114807 |
|
5. Jaakkola MS1, Quansah R, Hugg TT, Heikkinen SA, Jaakkola JJ. Association of indoor dampness and molds with rhinitis risk: a systematic review and meta-analysis. J Allergy Clin Immunol 2013; 132: 1099-10. https://doi.org/10.1016/j.jaci.2013.07.028 PMid:24028857 |
|
6. Fisk WJ, Lei-Gomez Q, Mendell MJ. Meta-analyses of the associations of respiratory health effects with dampness and mold in homes. Indoor Air 2007; 17: 284-96. https://doi.org/10.1111/j.1600-0668.2007.00475.x PMid:17661925 |
|
7. Richard AS, Nick B, Christopher RT, Kerryn H, Nicholas J O. Indoor fungal diversity and asthma: A meta-analysis and systematic review of risk factors. Allergy Clin Immunol 2015; 135: 110-22. https://doi.org/10.1016/j.jaci.2014.07.002 PMid:25159468 |