12. tbl. 103. árg. 2017

Umræða og fréttir

„Afi þinn er óvinurinn“- viðtal við Ármann Jakobsson um heilsugæslu í Eyrbyggju

„Afi þinn er óvinurinn,“ segir Ármann Jakobsson prófessor í íslenskum bókmenntum fyrri alda sem flutti erindi um Eyrbyggju á málþingi Félags áhugamanna um sögu læknisfræðinnar um Fróðárundrin. Hann ræddi þversagnir í sögunni þar sem kristnin tekst á við hinn heiðna sið með ýmsum hætti og greinilegu trúboði. Þar kemur Snorri goði verulega við sögu til að kveða niður pest og draugagang sem gýs upp í kjölfar þess að Þórgunnur, útlend kona, deyr nýkomin til landsins og ekki er farið að fyrirmælum hennar um að brenna klæði þau er hún lætur eftir sig.

                                                                      
                                       Bókina
The troll inside you skrifaði Ármann fyrir erlendan markað.
                                       Forlagið punctum í Bandaríkjunum gefur bókina út, hún fæst hjá Bóksölu stúdenta,
                                       Eymundsson og Þjóðminjasafninu og á amazon.
                                      

                                   
                                   „Við leggjum gífurlegt traust á lækna í dag. Þessu var alls ekki svona farið
                                   á tímum Eyrbyggju. Læknar höfðu ekki þetta vald eða þessa ábyrgð,“
                                   segir Ármann.
                                      

„Brennsla klæða Þórgunnar bendir til þess að fólk hafi haft einhvern skilning á því að pest gæti smitast með einhverjum hætti en það er þó ekki hægt að leggja þetta að jöfnu við bakteríuhugsun nútímans. Það finnast engar heimildir frá þessum tíma um að menn hafi haft hugmynd um möguleikann á slíkum smitleiðum,“ segir Ármann og vísar til erinda læknanna á málþinginu sem sagt er frá annars staðar hér í blaðinu.

„Íslendingasögurnar eru fullar af þversögnum sem helgast af því að ritararnir eru að lýsa forfeðrum sínum og afstaðan til þeirra er því í grunninn jákvæð, en þessir  forfeður voru heiðingjar og þannig hluti af óvinaliðinu. Þeir eru því bæði góðir og vondir. Óvinurinn er afi þinn. Þetta veldur greinilegri togstreitu hjá sagnariturunum en tvíhyggja góðs og ills, hins gamla vonda siðar og og hins nýja góða er þó aflgjafi sagnanna.

Snorri goði var særingamaður að mínu áliti, læknir í einhverjum skilningi en þó allt öðrum skilningi en við nútímamenn leggjum í hugtakið,“ segir Ármann í upphafi. „Mig langaði til að kynna fyrir áheyrendum að á ritunartíma Eyrbyggju og þá ekki síður á þeim tíma sem atburðir hennar gerast var alls ekki hin svokallaða læknisfræðilega hugsun ríkjandi. Sennilega hefur hin læknisfræðilega hugsun aldrei verið jafn sterk og ríkjandi og á okkar tímum. Læknisfræðin tengist okkur sjálfum á miklu beinni hátt en til dæmis eðlisfræði eða stjörnufræði, þó hvorttveggja sé hluti af heimsmynd fólks í dag. Heimsmynd okkar takmarkast að einhverju leyti við líkamann sem er í rauninni okkar eini heimur, því þó við gleðjumst yfir því að heimurinn haldi áfram eftir okkar dag þá vitum við líka að okkar persónulega heimi lýkur við dauðann. Þess vegna er hin læknisfræðilega heimsmynd nútímamannsins honum svo mikilvæg. Þegar okkur líður illa förum við til læknisins og hann linar þjáningar okkar en einnig – og það er enn mikilvægara – hann segir okkur hvað er að, hvort við lifum eða deyjum og með þessu er lækninum falin gríðarleg ábyrgð. Við ætlumst nánast til þess að læknarnir tryggi okkur áframhaldandi líf. Við leggjum gífurlegt traust á lækna í dag. Þessu var alls ekki svona farið á tímum Eyrbyggju. Læknar höfðu ekki þetta vald eða þessa ábyrgð. Fólk treysti ekki á þá heldur annars konar hjálpræði, guðlega forsjá aðallega en Eyrbyggja lýsir einnig annars konar trú, heiðnum sið sem ég tel að hafi í einhverri mynd lifað af kristnitökuna þó kristnin hafi verið ráðandi eftir það. Ýmsir fornir siðir fengu að lifa samhliða og þar á meðal galdrar en þeir eru smám saman skilgreindir sem andstæðir kristninni og sagðir djöfullegir og það sér maður greinilega í þeim ritum sem skrifuð eru á milli 1200-1400. Þar eru galdrar skilgreindir æ skýrar sem andstæðir kristinni trú og barátta góðs og ills kristallast í þessu. Í Eyrbyggju er þetta kannski ekki mjög slæmt því þar er sagt frá því að Snorri goði og forfeður hans gangi í Helgafell eftir dauðann og það er ekki sérlega hættulegt kristninni þó sannarlega boði kristnin að eftir dauðann fari fólk annaðhvort upp eða niður en gangi ekki í fjall og stundi þar eilíf veisluhöld.“

Fyrsti jarðfræðingurinn er misskilningur

„Snorri goði er mjög áhugaverð persóna og reyndar líka í nútímamenningu því honum hefur verið eignaður brandari sem hann sagði aldrei „Hverju reiddust goðin þá er hraunið brann það er nú stöndum vér á.“ Þessi setning er raunar bræðingur úr tveimur setningum sem honum eru eignaðar í frásögnum af kristnitökunni og er síðan steypt saman einhvern tímann á 20. öldinni. Hér er Snorra í rauninni lýst sem 20. aldar manni eða að minnsta kosti upplýsingarmanni sem er seinni tíma fyrirbæri og alls ekki í anda þess sem menn hugsuðu á dögum Snorra. Með þessu erum við búinn að ramma Snorra inn í okkar heimsmynd og getum ekki einu sinni verið viss um að sú merking sem við leggjum í þessa setningu sé sú sama og höfundurinn eða Snorri gerðu á sínum tíma.

Síðan á Sigurður Þórarinsson jarðfræðingur að hafa sagt að þetta væri fyrsta jarðfræðilega ábendingin á Íslandi en það finnast raunar engin dæmi um að hann hafi sagt þetta. Sigurður var sjálfur menningarhetja 20. aldar og slíkum er iðulega eignað ýmislegt sem óvíst er að þær hafi sagt.“

Hluti af þessu er kannski að skoða hetjur Íslendingasagnanna með augum nútímamannsins.

„Já, ég vil fara varlega í að sjúkdómsgreina persónur Íslendingasagnanna eftir lýsingum á þeim. Almennt sjúkdómsgreina læknar ekki fólk sem þeir hafa aldrei séð og því skyldi gilda annað um þessar persónur. Læknar nútímans gera lítið af því að sjúkdómsgreina fólk í gegnum símann eða yfir netið; það er ekki minn stíll heldur og þaðan af síður að afgreiða hetjur Íslendingasagnanna sem geðsjúklinga,“ segir Ármann og hlær og bætir svo við: „Ekki samt segja Óttari Guðmundssyni frá því að ég hafi sagt þetta.“

Snorri er þegar þarna er komið sögu búinn að taka kristna trú.

„Í Eyrbyggju fetar hann í rauninni bil beggja, á milli hins gamla og nýja siðar. Hann mætir á Fróðá með prest sem hegðar sér eins og særingamaður að kaþólskum sið, hann skvettir vígðu vatni um allt og fer með bænir. Snorri aftur á móti setur á réttarhöld yfir dauðu fólki og það er erfitt að flokka þessa athöfn sem heiðna eða kristna. Þetta passar inn í kristna trú á einhvern hátt og hlutverk Snorra er óljóst þar sem hann var heiðinn en er nú orðinn kristinn; goðarnir höfðu óljóst hlutverk í heiðnum sið en eftir kristnitökuna reisa þeir allir kirkjur á jörðum sínum og verða sérlegir umsjónarmenn kristninnar í sínu héraði. Í öllu falli þá er draugagangurinn kveðinn niður með þessu lagi og skilaboðin eru þau að hinn nýi siður sé öflugri en sá gamli. Það er sannarlega verið að segja okkur þessa sögu á forsendum kristninnar. Við vitum í rauninni ekkert hvaða ferðalag þessi saga er búin að ganga í gegnum þegar hún er loks rituð niður af klerki, munki eða sannkristnum leikmanni því að það er margt sem bendir til þess að sagan um Fróðárundrin sé mun eldri en frá því snemma á 13. öld. Þegar kemur að ritun sögunnar er það liður í trúaruppeldi kirkjunnar og sögunni er ætlað að sýna fram á yfirburði kristninnar. Ég held að það sé engin tilviljun að mjög margar Íslendingasögurnar byrja á landnáminu og þeim lýkur gjarnan á kristni-tökunni, eða fyrstu áratugum 11. aldar. Lítið fer fyrir sagnaritun um tímabilið 1050 til 1200. Kristnitakan virðist hafa haft sérstakt aðdráttarafl fyrir sagnaritara 13. og 14. aldar. Þeir skrifa þannig mikið um Ólaf Tryggvason og Ólaf helga en hafa minni áhuga á öðrum kóngum sem koma þarna á milli.“

Draugarnir verða viðræðugóðir

Ármann segir áhugavert að skoða hvernig hugmyndir fólks hafa breyst um yfirnáttúrulegar verur, drauga, álfa og tröll, í gegnum aldirnar.

„Draugar eins og í Eyrbyggju eru stórhættulegir og valda fólki skaða. Slík draugatrú er mjög sterk samhliða kristninni næstu aldir en í byrjun 20. aldarinnar þegar borgarastétt er að myndast hérlendis, verða draugarnir borgaralegri; þeir verða viðræðugóðir og kumpánlegir og koma fram á miðilsfundum. Það er eins og hugmyndir fólks taki mið af menningarástandinu á hverjum tíma. Álfar hafa til dæmis minnkað verulega frá miðöldum, nú eru þeir bara litlar skrautlegar verur en voru áður jafnstórir mönnum og fjölkunnugir. Þetta er í samræmi við hugmyndir okkar nútímamanna um að maðurinn sé stærstur og drottni yfir jörðinni. Það er glæný hugsun að vernda þurfi jörðina fyrir manninum. Lengst af hefur jörðin verið miklu sterkari í hugum manna en það hefur snúist við.“



Þetta vefsvæði byggir á Eplica