12. tbl. 103. árg. 2017

Umræða og fréttir

„Mikill heiður að fá þessa viðurkenningu”- segir Jóhann Elí Guðjónsson

Íslenskur læknir, Jóhann Elí Guðjónsson sérfræðingur í húðsjúkdómum, sem starfað hefur við húðsjúkdómadeild Michigan-háskóla frá árinu 2003 var nýverið skipaður í prófessorsstöðu Arthur C. Curtis við læknadeild háskólans. Þetta er mikill heiður og jafnframt fylgja stöðunni háir rannsóknarstyrkir en Jóhann hefur á undanförnum árum skipað sér í fremstu röð vísindamanna á sviði rannsókna á húðsjúkdómum og unnið til fjölda viðurkenninga.

                                  
                                  „Hér er mikil samkeppni en það er allt gert til að hjálpa manni  til að
                                   standa sem best að vígi. Hér er mjög vel haldið utan um  starfsfólkið
                                  og allt gert til að létta manni störfin. Þessu kynntist maður aldrei heima,
                                 “segir Jóhann Elí Guðjónsson sérfræðingur í húðsjúkdómum og ónæmisfræðum.

Jóhann útskrifaðist frá læknadeild HÍ 1998 og starfaði á Landspítala til 2003 samhliða því að ljúka doktorsgráðu í ónæmisfræðum. Hann hélt síðan utan til sérnáms í húðlækningum við Michigan-háskólasjúkrahúsið árið 2003. Jóhann er giftur ástralskri konu og eiga þau saman tvær dætur. „Konan mín er sérfræðingur í húðlækningum og við vinnum bæði á sömu deild en vinnum þó lítið saman. Ég á síðan tvo eldri syni frá fyrra hjónabandi og þeir eru búsettir heima á Íslandi,“ segir hann í upphafi samtals okkar.

Segðu mér aðeins frá hvað þú ert að fást við í rannsóknum þínum?

„Ég hef verið að vinna í psoriasisrannsóknum í yfir 20 ár og viðfangsefnið eru erfðafræðilegar stökkbreytingar í psorias-issjúklingum og hvernig þær spila inn í meinferli sjúkdómsins. Rannsóknir mínar hafa nýlega beinst æ meira að sjálfsofnæmissjúkdómum eins og rauðum úlfum og herslishúð, og sérstaklega hef ég verið að skoða mismun á milli karla og kvenna varðandi ónæmisviðbrögð.“

Hvað hafa rannsóknir þínar leitt í ljós?

„Við höfum uppgötvað nýtt ferli, sem er ekki háð kynhormónunum, sem virðist stýra þessu í konum og veldur því að þær hafa hærri ónæmissvaranir en karlmenn.“ Að sögn Jóhanns eru sjálfsofnæmistilfelli mun algengari hjá konum en körlum. „Tíðnin er 80% hjá konum en aðeins 20% hjá körlum. Rauðir úlfar eru tífalt algengari hjá konum og einnig má nefna liðagigt, MS og Sjögrenssjúkdóminn, sem dæmi um sjúkdóma sem eru algengari í konum. Þessi uppgötvun getur útskýrt hvers vegna börn fá þessa sjúkdóma í sömu eða svipuðum hlutföllum og fullorðnir. Við teljum okkur hafa fundið ástæðuna fyrir þessu og að þetta er skráð mjög snemma á fósturþroskanum.“

Er von á nýjum lyfjum eða meðferð í kjölfar þessara uppgötvana?

„Vonin er auðvitað sú að á endanum finnum við lyf eða meðferð við þessum sjúkdómum en við erum enn að reyna að skilja hvað stýrir þessu ferli og hvaða aðrir þættir spila þar inn í. Við vitum ekki ennþá hvernig þessu ferli er stjórnað og erum að gera rannsóknir með músum í tilraunastofu og einnig með sýnum frá sjúklingum.“

Hvar mun áherslan liggja í rannsóknum þínum á næstunni?

„Þetta verður stór hluti af því sem ég verð að fást við á næstunni en ég er einnig með stóra psoriasisrannsókn í gangi þannig að umfang rannsóknanna stækkar stöðugt. Við í rannsóknarteyminu mínu höfum verið mjög heppin með styrki frá Bandarísku heilbrigðisstofnuninni (National Institute of Health) og öðrum stofnunum og einnig sjúklingasamtökum. Ég er einnig í samstarfi við lyfjafyrirtæki um þessar rannsóknir, en styrkirnir eru upp á mörg hundruð milljónir íslenskra króna.“

Breytir nýja staðan einhverju um rannsóknir þínar?

„Nei, ekki nema þá að þetta er mikil viðurkenning af hálfu háskólans og veitir aðgang að sjóði sem merktur er stöðunni. Ég get ekki gengið á höfuðstólinn en vextirnir eru veittir til þess er situr í embættinu á hverjum tíma.

Þú ert að halda „Rising Star Lecture“ -fyrirlestur á alþjóðlegu þingi húðlækna á næsta ári og kemur fram fyrir hönd bandarísku húðlæknasamtakanna. Líta þau á þig sem sinn mann?

„Já, ætli það ekki. Ég er búinn að vera hérna úti í töluverðan tíma, nálægt því að vera 15 ár. Þetta er gríðarlega mikil viðurkenning þar sem þetta þing er ekki haldið nema á 5 ára fresti en þarna koma saman húðlæknasamtök úr öllum heiminum og einn fulltrúi frá hverri heimsálfu flytur fyrirlestur og ég kem fram fyrir hönd Norður-Ameríku sem þeirra kandídat.

Oft er spurt hvort íslenskir læknar erlendis muni ekki snúa heim á endanum. Sérð þú fyrir þér að koma aftur til starfa á Íslandi?

„Nei, ég held að ég sé búinn að vera hér of lengi til að raunhæft sé að búast við því. Það er ýmislegt sem hefur áhrif á það. Tækifærin til rannsókna eru miklu meiri hér en á Íslandi en þó hefur Íslensk erfðagreining (ÍE) breytt gríðarlega miklu fyrir rannsóknaumhverfið á Íslandi, og rannsóknir sem ég hafði unnið í samstarfi við ÍE hjálpuðu mér mikið að komast hingað út á sínum tíma. Rannsóknir ÍE í erfðafræði eru með því besta sem gerist í heiminum. Það væri einn þáttur sem gæti gert það freistandi en annars er fátt annað sem gæti orðið til þess. Ég vann á Landspítalanum í nærri 5 ár (1999-2003) áður en ég fór út og ég var einnig formaður FUL (Félag ungra lækna sem nú er Félag almennra lækna) á þessum tíma. Á Landspítalanum var mjög hæft starfsfólk og ég hafði frábæran yfirmann og mentor, Helga Valdimarsson prófessor sem var yfirlæknir ónæmisfræðideildarinnar og hann var minn helsti bakhjarl og studdi mig og hvatti til að halda áfram. Ég hefði ekki komist að hér úti án hans stuðnings. En þrátt fyrir frábært starfsfólk þá er Landspítalinn vondur vinnustaður. Allt sem var lofað var svikið og lítill sem enginn stuðningur við eitt né neitt. Þetta situr svo í mér eftir öll þessi ár að ég hef nákvæmlega engan áhuga á að koma nokkurn tíma aftur til starfa á þeirri stofnun.

Hér er mikil samkeppni en það er allt gert til að hjálpa manni til að standa sem best að vígi. Þessi stofnun sem ég er á er ein af þeim bestu í Bandaríkjunum og það er allt til sem maður þarf á að halda. Hér er mjög vel haldið utan um starfsfólkið og allt gert til að létta manni störfin. Þessu kynntist maður aldrei heima. Ég held að fæstir sem fara heim geri það vegna starfsumhverfisins heima heldur er það fjölskylda og heimaslóðir sem toga í. Fólk hefur í dag reyndar miklu meiri möguleika til að starfa á alþjóðlegum grundvelli og er ekki jafn bundið við land eins og áður var. En smæðin á Íslandi er staðreynd sem ekki verður komist framhjá.“Þetta vefsvæði byggir á Eplica