12. tbl. 103. árg. 2017

Umræða og fréttir

„Atvinnufrelsi lækna er grunnstefnan“ - segir Reynir Arngrímsson formaður LÍ

Reynir Arngrímsson var kjörinn formaður Læknafélags Íslands með rafrænni kosningu í maí síðastliðnum. Hann tók við embættinu á aðalfundi félagsins nú í október af fráfarandi formanni, Þorbirni Jónssyni.

                                       
                                        „Ég tel að grunnstefna Læknafélags Íslands eigi að vera sú að læknar
                                        hafi atvinnufrelsi eins og aðrir þegnar þessa lands,“ segir Reynir Arngrímsson
                                        formaður Læknafélags Íslands.

Þú ert fyrsti formaður LÍ sem kosinn er rafrænni kosningu og með þátttöku allra félagsmanna. Áður var formaður kjörinn á aðalfundi af fulltrúum aðildarfélaganna.

Ertu sáttur við þessa breytingu á formannskjöri?

„Ég er mjög hlynntur lýðræðisvæðingu félagsins og að allir félagar þess geti greitt atkvæði þegar kosinn er formaður og stjórn. Það endurspeglar frekar vilja félagsmanna og einnig kemur betur fram fyrir hvað frambjóðendur standa. Hverju þeir vilja ná fram með formennsku í félaginu. Mínar áherslur snerust ekki hvað síst um að efla þurfi heilsugæsluna en með því tel ég að leysa megi þannig aðgengishnút sem myndast hefur í heilbrigðiskerfinu og Landspítalinn er ekki hvað síst að kikna undan.

Ég hef einnig lagt mikla áherslu á kjaramál lækna á spítölunum og í heilsugæslunni og bæði í stöðu minni sem formaður Læknaráðs Landspítalans undanfarin þrjú ár og í verkfalli sjúkrahúslækna talaði ég fyrir því að þetta væru þeir læknahópar sem bæta þyrfti kjörin hjá og sérstaklega í síðustu kjarasamningum að hækka grunnlaun almennra lækna. Það tókst. Ég hef sagt að í næstu kjarasamningum sé mikilvægt að endurskoða og bæta vaktagreiðslur og ég held að það hafi ráðið miklu hjá flestum sem kusu mig.“

Þú hefur starfað á Landspítalanum undanfarin ár og verið formaður Læknaráðs Landspítalans. Innan Læknafélags Íslands eru allir læknar, bæði sjálfstætt starfandi og sjúkrahúslæknar.

„Ég þekki ágætlega til þess fjölbreytta umhverfis sem íslenskir læknar starfa í og veit mætavel hverju sjálfstætt starfandi læknar standa frammi fyrir því ég var einnig varaformaður Læknafélags Reykjavíkur á tímabili og þekki því nokkuð vel til samningagerðar fyrir sjálfstætt starfandi lækna. Með þessu tel ég mig hafa nokkuð breiða skírskotun til félagsmanna og þekkja til aðstæðna þeirra þó ólíkar séu. Ég hef starfað sem heilsugæslulæknir, rekið eigin stofu og starfað á Landspítalanum þannig að ég veit hvað brennur á þessum hópum. Ég tel það eitt meginhlutverk formanns og stjórnar LÍ að samþætta þessi sjónarmið. Formaður LÍ verður að geta komið fram fyrir alla þessa hópa og ég tel mig standa ágætlega að vígi til þess.“

Breytingar á skipulagi LÍ

„Skipulagsbreytingum LÍ sem samþykktar voru á aðalfundi í október beinast einmitt að því að hinir ólíku hópar innan félagsins fái ákveðinn málsvara. Hvort hlutverk LÍ breytist  með þessu get ég ekki sagt til um á þessari stundu en Félag sjúkrahúslækna kemur nýtt inn og flestir koma þeir úr Læknafélagi Reykjavíkur og Læknafélagi Akureyrar. Læknafélag Reykjavíkur hefur verið félag heimilislækna, sjúkrahúslækna og sjálfstætt starfandi lækna og ekki alltaf fundið taktinn í þeim línudansi. Hingað til hafa læknaráð sjúkrahúsanna tekið að sér að gæta hagsmuna sjúkrahúslæknanna að nokkru leyti en þó án þess að þeim sé ætlað það hlutverk en með þessu nýja félagi ætti þetta að skýrast. Félag sjálfstætt starfandi lækna verður einnig nýtt en hugsanlega heldur það gamla nafninu og verður Læknafélag Reykjavíkur. Það er ákvörðun sem liggur þar en ekki hjá LÍ.  Í öllu falli verða fjögur félög innan Læknafélags Íslands: Félag sjúkrahúslækna, Félag heimilislækna, Félag sjálfstætt starfandi lækna (Læknafélag Reykjavíkur) og Félag almennra lækna. Þetta er nokkuð skýr skipan og með þessu ættu raddir allra hópa að heyrast vel innan LÍ.“

Hvar koma sérgreinafélögin að LÍ?

„Sérgreinafélög lækna eru fyrst og fremst fagfélög og sem slík eiga þau ekki aðild að Læknafélagi Íslands, en ég hef mikinn áhuga á að efla samskiptin á milli LÍ og sérgreinafélaganna. Ég hef varpað fram þeirri hugmynd að komið verði á fót fundi með stjórn LÍ og formönnum sérgreinafélaganna, með svipuðu sniði og  árlegur fundur sem LÍ hefur haldið með formönnum svæðafélaga lækna. Þar vil ég ræða hvernig efla megi tengslin á milli LÍ og sérgreinafélaganna og jafnvel má velta fyrir sér hvort þau eigi að hafa formlegri aðgang að Fræðslustofnun lækna og Læknablaðinu sem eru hinn faglegi hluti LÍ. Þetta er samtal sem ég vil gjarnan taka upp. Þessi hugmynd kemur í framhaldi af því að á tímabili var jafnvel búist við því að sérgreinafélögin yrðu aðildarfélög LÍ þar sem Skurðlæknafélag Íslands, Félag bráðalækna og Félag heimilislækna á Íslandi voru þegar búin að kljúfa sig að hálfu útúr Læknafélagi Reykjavíkur og komin með eigin skipan fulltrúa á aðalfund LÍ. Fleiri félög voru farin að hugsa sér til hreyfings. Það varð ekki niðurstaðan enda kannski flókið í framkvæmd þar sem sérgreinafélögin eru mörg og misstór en engu að síður vil ég taka upp samtal við þau um aðkomu að starfi á vegum LÍ.“

Hver verður svo ávinningurinn með breytingunum á skipulagi LÍ?

„Ég vona að með þessu skerpist sýn á hagsmuni félaganna innan LÍ. Það þarf að fara í stefnumótunarvinnu fyrir hvert af hinum fjórum félögum til að skýra verksvið hvers þeirra innan LÍ. Stjórn LÍ verður skipuð formönnum félaganna fjögurra ásamt einum öðrum fulltrúa hvers félags og síðan formanni LÍ og þannig verður 9 manna stjórn LÍ skipuð hér eftir.”

Fjármagnið fylgi sjúklingnum

Finnst þér að formaður LÍ og þar með félagið eigi að hafa ákveðna stefnu gagnvart stjórnvöldum um heilbrigðismál þjóðarinnar?

„Ég tel að grunnstefna Læknafélags Íslands eigi að vera sú að læknar hafi atvinnufrelsi eins og aðrir þegnar þessa lands. Að læknar geti farið í atvinnurekstur undir þeim skilmerkjum sem sett eru á hverjum tíma og þetta þarf LÍ að standa vörð um. Ennfremur að kröfur sem gerðar eru til lækna sem vilja starfa sjálfstætt séu sanngjarnar og hófstilltar. Þegar fyrir liggur niðurstaða úr stefnumótun aðildarfélaganna er mikilvægt að halda læknaþing með einhverskonar þjóðfundarsniði þar sem öllum félagsmönnum gefst sameiginlega kostur á að móta stefnu LÍ út á við og hvaða sýn læknar hafa á þróun heilbrigðismála og stefnu í málaflokknum. Læknar þurfa skerpa afstöðu sína og koma henni á framfæri nú þegar sótt er að starfsemi lækna og hún jafnvel gerð tortryggileg.“

Ertu að mæla fyrir rekstri einkasjúkrahúsa?

„Ég held að það sé ekki svigrúm fyrir fleiri sjúkrahús en nú eru og þau eru best komin í höndum hins opinbera að mínu mati. Þau þarf að efla verulega frá því sem nú er og ef til vill skerpa á skilgreindum verkefnum þeirra. Hins vegar er þörfin fyrir ýmiss konar læknisþjónustu greinilega mikil og læknar sem vilja starfa sjálfstætt eiga að geta veitt þjónustu sína. Það á að gilda hið sama um lækna og aðra heilbrigðisþjónustu enda eru engin rök fyrir öðru.“

Það virðist ekki vera mikill áhugi fyrir einkavæðingu eða einkarekstri í heilbrigðisþjónustu þar sem ríkið er ekki greiðandinn.

„Það er alveg rétt og allir stjórnmálaflokkar hafa lýst sig andvíga einkavæðingu, en skiptar skoðanir eru á meðal þeirra um einkarekstur. Almenn sátt er um að hið opinbera sé kaupandi og greiðandi þjónustunnar óháð rekstrarformi þeirra sem veita hana og þá geri ég engan greinarmun á læknum, sjúkraþjálfurum, ljósmæðrum eða stofnunum eins og öldrunarheimilum, Reykjalundi eða Heilsustofnun NLFÍ eða heilsugæslunni og sjúkrahúsum. Vandinn sem við stöndum frammi fyrir er að við erum með tvö greiðslukerfi, þó ríkið sé greiðandinn í báðum tilfellum og greiðslufyrirkomulagið þarf að einfalda og samræma. Ég er þeirrar skoðunar að fjármagnið eigi að fylgja sjúklingnum og með því móti endurspeglast hver hin raunverulega þörf er fyrir þjónustuna og hvar hagkvæmast er að veita hana. Hagsmunir sjúklinga eiga að ráða för þegar ákvarðanir eru teknar, með það að leiðarljósi að tryggja gott aðgengi að læknisþjónustu án verulegra biðlista.”

Landlæknisembættið verði virkara í eftirliti

Landlæknir, Birgir Jakobsson, hefur tjáð sig óhikað um einkarekstur og opinberan rekstur í heilbrigðiskerfinu. Hvaða skoðun hefurðu á því að landlæknir tjái sig með þessum hætti um heilbrigðismál?

„Landlæknisembættið er mjög gamalt og virðulegt og gegnir ýmsum hlutverkum, það á að vera ráðgefandi fyrir stjórnvöld um heilbrigðismál og einnig að sinna eftirliti með heilbrigðisþjónustu og gæta hagsmuna almennings gagnvart heilbrigðiskerfinu. Það er mjög mikilvægt að í svo flóknu kerfi sé greiður aðgangur fyrir einstaklinga sem þurfa að koma kvörtunum eða athugasemdum á framfæri við eftirlitsaðilann. Við höfum viljað sjá að Embætti landlæknis væri virkara í eftirliti sínu og myndum alls ekki leggjast gegn því að fulltrúar embættisins kæmu oftar á vettvang og fylgdust með því hvernig þjónustan er veitt, ef því finnst fram komnar vísbendingar um eitthvað misjafnt hafi átt sér stað. Embættið á að mínu mati að vera leiðandi í því að setja samræmda gæðastaðla fyrir alla heilbrigðisþjónustu og hafa samráð við kaupanda þjónustunnar, Sjúkratryggingar Íslands, um hvaða kröfur skuli gerðar til gæða þjónustunnar og mælanlegra gæðavísa. Þá þyrfti embættið að taka á vaxandi hjá- og skottulækningum sem virðist þrífast óáreitt og fara vaxandi ef marka má auglýsingakálfa í dagblöðum og á samfélagsmiðlum.

Ég er hins vegar ekki viss um að það sé hlutverk landlæknis að hafa skoðun á því hvaða rekstrarform séu viðhöfð í heilbrigðiskerfinu en hann hefur komið með ágæta ábendingu um ágalla á hinu tvíþátta greiðslufyrirkomulagi sem viðgengst hér og ég nefndi hér áðan. Hann hefur ennfremur bent á að tugi milljarða vantar inn í heilbrigðiskerfið og uppbyggingu innviða þess og rekstur. Um þetta hvorttveggja get ég verið sammála honum. Ég er hins vegar ekki sammála þeim sem halda því fram að of miklum fjármunum hafi verið varið til kaupa á þjónustu hjá sjálfstætt starfandi læknum. Það tel ég að hafi fyrst og fremst fylgt vaxandi eftirspurn vegna fjölgunar og breytinga í aldurssamsetningu þjóðarinnar og almennri verðlagsþróun í landinu og að Íslendingar séu kröfuharðir neytendur þegar kemur að því að fá úrlausn heilsufarsvanda síns. Hin árlegu föstu fjárframlög til ríkisreknu heilbrigðisstofnananna hafa hins vegar ekki alltaf fylgt nægjanlega verðlagsþróunni og  lítið eða nánast ekkert svigrúm hefur verið til að þróa starfsemina og bæta í mörg ár og jafnvel má fara að tala um áratugi. Þarna hefur því skapast ákveðið misræmi sem bent er á milli þessara greiðslukerfa, en lausnin er ekki að fara að skera niður enn einn þjónustuþáttinn í heilbrigðiskerfinu, eins og heyrst hefur meðal annars í nýliðinni kosningabaráttu til Alþingis. Heldur einhenda sér í að tryggja að nægjanlegu fjármagni sé veitt til sjúkrahúsanna, öldrunarþjónustunnar og heilsugæslunnar svo þau geti þróast eðlilega og gegnt hlutverki sínu á fullnægjandi og skilvirkan hátt. Verkefni þeirra þarf líka að skilgreina og það verður vonandi sett á oddinn í náinni framtíð.“

Kjararáðstefna á næsta ári

Núgildandi samningur LÍ við ríkið rennur út á fyrri hluta árs 2019. Ertu farinn að huga að undirbúningi kjarabaráttu á næstu mánuðum?

„Já, ég er farinn að huga að því. Núverandi samningur bætti kjör okkar að nokkru leyti en þó voru ýmis atriði sem náðust ekki fram og læknar hafa enn ekki náð sömu kjaraleiðréttingu og sambærilegar starfstéttir hafa fengið. Þarsíðasti samningur var með breyttum áherslum þar sem grunnkaupið var tekið til endurskoðunar, en eftir situr að við þurfum að rétta hlut þeirra sem eru með mikla vaktabyrði. Við þurfum að stefna að kjaramálaráðstefnu á fyrri hluta næsta árs til að kanna hug félagsmanna og heyra hvað brennur helst á þeim. Ég veit að þeir sem eru með mikla vaktabyrði á sjúkrahúsunum eru óánægðir en hið jákvæða er að eftir þarsíðasta samning hefur hin svokallaða hringrás lækna tekið við sér að nýju. Með því á ég við að læknar sem fara utan í sérnám skila sér heim aftur til starfa en það var verulegt áhyggjuefni fyrir nokkrum árum. Það er ánægjulegt að sjá að verkfall okkar og samstaða hefur skilað þeim árangri, en við við verðum að gæta okkar að ekki komi aðrar hindranir sem trufli þessa hringrás og hér sé ætíð nægjanlegt úrval góðra og vel menntaðra lækna. Á því hefur heilbrigðiskerfi okkar nærst í áratugi, en ég er ekki viss um að allir geri sér grein fyrir því.“Þetta vefsvæði byggir á Eplica