11. tbl. 103. árg. 2017

Umræða og fréttir

Lögfræði 24. pistill. Tjáningarfrelsi og áminningar

Í árslok 2016 sendi umboðsmaður Alþingis frá sér álit í máli yfirlæknis sem kvartaði yfir áminningu á grundvelli 21. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins (starfsmannalög), sem forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins (HH) veitti honum haustið 2015.1 Áminningin var byggð á atvikum sem vörðuðu háttalag yfirlæknisins í verkfalli tiltekinna starfshópa hjá stofnuninni, eins og það var orðað í áminningunni og framgöngu í starfi sem starfsmaður og yfirlæknir.
Yfirlæknirinn taldi forstjóra hafa farið offari við áminninguna og að ekkert tilefni hafi verið til viðbragða af þessu tagi. Þá taldi yfirlæknirinn að HH hefði meðal annars brotið meðalhófsreglu við meðferð málsins.

Hin ámælisverða háttsemi yfirlæknisins, að mati forstjóra HH, var þríþætt: 1) sending tölvubréfa, 2) að mæta mæta ekki á boðaðan yfirlæknafund og 3) að fylgja ekki leiðbeiningum yfirstjórnar HH um framkvæmd heilbrigðisþjónustu í verkfalli.

Niðurstaða umboðsmanns Alþingis er sú að áminning vegna tölvubréfa og vegna þeirrar ákvörðunar hans að mæta ekki á boðaðan yfirlæknafund hafi ekki verið í samræmi við lög. Þá er það niðurstaða umboðsmanns að skort hafi á rannsókn HH á atvikum sem snéru að því að yfirlæknirinn hefði ekki fylgt leiðbeiningum HH um framkvæmd heilbrigðisþjónustu í verkfalli. Þessi liður áminningarinnar hafi því ekki uppfyllt þær kröfur sem leiða af rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Umboðsmaður beinir þeim tilmælum til HH að taka mál yfirlæknisins til meðferðar að nýju, komi ósk frá honum þar um og að leyst verði úr málinu í samræmi við þau sjónarmið sem rakin eru í álitinu.

Eftir að álit umboðsmanns Alþingis lá fyrir óskaði yfirlæknirinn eftir því við forstjóra HH að málið yrði tekið til nýrrar meðferðar. Því erindi var synjað af hálfu forstjóra HH. Læknafélag Íslands (LÍ) hefur því vakið athygli heilbrigðisráðherra á þeirri staðreynd og óskað eftir að ráðherra beiti sér fyrir því að niðurstaða umboðsmanns Alþingis verði virt í þessu máli og að forstjóri HH taki málið fyrir að nýju í samræmi við sjónarmið umboðsmanns. Það er staða málsins nú.

Umboðsmaður Alþingis fjallar í þessu áliti sínu sérstaklega um tjáningarfrelsi opinberra starfsmanna. Þar kemur fram að þeir njóti tjáningarfrelsis samkvæmt 73. gr. stjórnarskrárinnar og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Opinberir starfsmenn eigi því rétt á að láta í ljós hugsanir sínar og skoðanir, þ.m.t. þær er lúta að mati á atriðum er tengjast starfi þeirra, án afskipta stjórnvalda og að takmarkanir á þeim rétti megi eingöngu gera að uppfylltum þeim skilyrðum sem fram koma í 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar og 2. mgr. 10. gr. mannréttindasáttmálans. Slíkar takmarkanir verði þannig að byggjast á lögum, stefna að lögmætum markmiðum og mega ekki ganga lengra en nauðsyn krefur.

Í framangreindu áliti umboðsmanns kemur fram að umboðsmaður leggur til grundvallar að opinberir starfsmenn hafi almennt talsvert rúmar heimildir til að láta í ljósi skoðanir sínar og gagnrýni sem beinist að innri málefnum og starfsemi þeirrar stofnunar sem þeir starfa hjá. Umboðsmaður féllst því ekki á það sem fram kom í skýringum HH til hans við meðferð málsins að ganga yrði út frá því að tjáningarfrelsi opinberra starfsmanna sé verulegum takmörkunum háð þegar um sé að ræða mál sem varði daglega starfsemi stofnunar.

Umboðsmaður bendir einnig á í þessu áliti sínu að áminning feli í sér íþyngjandi stjórnsýsluviðurlög og við hana séu bundin þau sérstöku réttaráhrif að hún getur verið undanfari brottvikningar úr starfi, sbr. 44. gr. starfsmannalaga. Við veitingu áminningar beri því að gæta meðalhófs. Við mat á því hvort farið hafi verið strangar í sakirnar en efni stóðu til í þessu tiltekna máli, telur umboðsmaður að taka verði mið af því að áminning vegna tjáningar geti haft letjandi áhrif á að opinberir starfsmenn tjái sig almennt en ekki aðeins á þann tiltekna starfsmann sem í hlut á í tilteknu máli.

Þetta álit umboðsmanns Alþingis er athyglisvert, ekki síst sú ábending hans að áminning vegna tjáningar geti haft almennt letjandi áhrif á að opinberir starfsmenn tjái sig. Að mati LÍ þarf að undirstrika hana sérstaklega, meðal annars vegna þess að að félaginu er kunnugt um nýleg sambærileg mál þar sem í öðru þeirra er búið að áminna lækni og í hinu er til skoðunar hvort tilefni séu til áminningar. Í báðum tilvikum snúa málin að því að tjá sig um og hafa skoðanir á málum sem til dæmis varða skipulag og framkvæmd mála á þeirri stofnun sem viðkomandi læknar starfa á.

Heimild

1. Álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 8741/2015, sjá umbodsmaduralthingis.is/ViewCase.aspx?Key=6381&skoda=mal. Umfjöllun í þessum pistli er mikið tekin úr álitinu.Þetta vefsvæði byggir á Eplica