11. tbl. 103. árg. 2017
Umræða og fréttir
Formannaskipti hjá Læknafélagi Íslands
Dagana 19. og 20. október síðastliðinn var haldinn 99. aðalfundur Læknafélags Íslands, og fór hann fram í húsnæði félagsins í Hlíðasmára í Kópavogi. Til fundarins voru boðaðir 66 fulltrúar og mættu 48 þeirra. Að auki sátu fundinn nokkrir gestir og aðrir félagsmenn sem ekki höfðu atkvæðisrétt.
Fundartíminn, tveir dagar, rétt dugði fyrir öll þau brýnu málefni, skipulagsbreytingar, ályktanir, dagskrá afmælisársins, ársreikninga, glærur, pælingar og skoðanaskipti sem aðalfundarfulltrúar þurftu að renna sér í gegnum. Fyrir utan tímann sem það tók allt kaffið, samlokurnar og sætmetið að renna ofan í viðstadda. En þetta hafðist allt að lokum, og við lok seinni dagsins náðist þessi mynd af glænýjum formanni og fráfarandi formanni sem halda á nýju merki félagsins sem kynnt var á aðalfundinum og samþykkt af fundarmönnum. Stærstu tíðindi fundarins eru þau að samþykktar voru ítarlegar skipulags- og lagabreytingatillögur stjórnar LÍ sem marka tímamót í sögu félagsins.
Reynir Arngrímsson erfðalæknir er nýr formaður LÍ, hann hlaut kjör í rafrænni allsherjarkosningu félagsmanna í vor og tók nú á aðalfundinum formlega við því embætti.
Þorbjörn Jónsson sérfræðingur í ónæmisfræði og blóðgjafarfræði hefur gegnt formannsstöðu síðustu 6 ár, og lét nú af því embætti.
Myndin er tekin við vegg í fundahúsnæði félagsins sem prýddur er myndum af fyrrum formönnum LÍ, - og nýja merkið slær bláum hring um tákn sem Sigurður V. Sigurjónsson teiknaði fyrir félagið á 75 ára afmæli þess, árið 1993.
Sjá nánar um fundinn á bls. 508-11.