11. tbl. 103. árg. 2017

Umræða og fréttir

Aðalfundur Læknafélagsins 19. og 20. okt 2017

                                      
                                      Sigrún Gunnarsdóttir aðstoðarmaður Óttars Proppé ásamt Michael Clausen
                                      barnalækni og Jörundi Kristinssyni heimilislækni. Myndir: Védís.

                                      
                                      Sólveig Jóhannsdóttir framkvæmdastjóri LÍ og Dögg Pálsdóttir lögfræðingur
                                      félagsins unnu saman eins og einn maður að undirbúningi fundarins.

                                      

Eins og fram hefur komið var aðalfundur LÍ um daginn langur en þó ekki svo strangur. Fleiri efni og mál lágu fyrir en oft áður og ef til vill var það ekki tilviljun því Læknafélag Íslands er 100 ára á næsta ári og það er að sama skapi að nýta sér þá staðreynd og hugsa sér til innri hreyfings. Félagið vill gera breytingar og umstafla í sínu innvolsi, verða frískara og ferskara á nýju árhundraði. Þetta gildir bæði um uppbyggingu og skipulag félagsins og um húsnæði þess, því þótt það sé „gottaðbúaíkópavogi“ þá þarf gera ýmsar lagfæringar í Hlíðasmára í takt við nýja tíma. Nú þegar er hafin vinna við að stækka stóra fundarsalinn inn í fundarherbergi LÍ, og tæknibúnaðarklefi sem var milli þessara sala og sem var gerður samkvæmt nýjustu stöðlum árið 1994 er nú kominn fram yfir síðasta söludag og verður lagður af. Smíðavinnan mun taka 6-8 vikur og í janúar 2018 þegar 100 ára afmælið rennur upp ætti salurinn að vera klár ef guð lofar. Fleiri breytingar á húsnæðinu eru í farvatninu.

                                     
                                     Þórarinn Ingólfsson heimilislæknir, Óttarr heilbrigðisráðherra og Katrín
                                     Fjeldsted heimilislæknir ræddu meðal annars um um rafrettuályktun LÍ,
                                     en á málverkinu fyrir aftan þau er Magnús Pétursson fyrrum formaður
                                    með sína eigin sígarettu.

                                    
                                    Hallgrímur Hreiðarsson heimilislæknir, Gunnlaugur Sigurjónsson
                                    heimilislæknir, Jóhann Heiðar Jóhannsson meinafræðingur og
                                    Þórdís Anna Oddsdóttir heimilislæknir.

Fyrri daginn hófst fundur kl. 15 með ávarpi Þorbjörns Jónssonar formanns LÍ þar sem hann leit aðeins yfir farinn veg síðustu 6 ár á formannsstóli, og því næst bauð hann velkominn Óttar Proppé heilbrigðisráðherra í starfsstjórn Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra. Óttarr er formaður Bjartrar framtíðar sem fær ekki góðan byr í skoðanakönnunum núna korter í kosningar, og dvöl hans í ráðuneytinu er alls rétt ríflega 9 mánuðir, - en það er altént ein meðganga, en segir margt um óróleikann í stjórnarmálalífi landsins. Heilbrigðisráðherra hélt tölu um stöðu mála í sínu ráðuneyti og hvatti lækna til dáða, - þeir spurðu hann síðan spjörunum úr og fengu allir svör við fyrirspurnum sínum á afar hófstilltan og yfirvegaðan máta. Þetta samtal tók drjúga stund, um tvo tíma, og því næst var haldið áfram með dagskrána.

                                     
                                     Magnús Gottfreðsson ritstjóri og ábyrgðarmaður Læknablaðsins og
                                     Ósk Ingvarsdóttir kvensjúkdómalæknir skutla í sig smá kaffi.

                                     
                                                         Heilbrigðisráðherra ávarpar samkomuna.

Högni Óskarsson geðlæknir kynnti hugmyndir um framhaldslíf Lækningaminjasafnsins á Seltjarnarnesi, í samstarfi við Listasafnið og fleiri, og munu þær eflaust koma meira við sögu síðar.

                                     
                                     Agnar H. Andrésson formaður Félags almennra lækna, Tryggvi Helgason
                                     barnalæknir og Ólafur Heiðar Þorvaldsson barnalæknir.

                                     
                                                Nýr formaður Læknafélags Íslands, Reynir Arngrímsson.

                                     
                                     Þorbjörn Jónsson formaður siglir lygnan sjó með skipulagstillögur
                                     stjórnarinnar og þær voru samþykktar allar sem ein.

Þorbjörn flutti ársskýrslu stjórnar, og síðan var farið yfir ársreikninga. Ályktanatillögur voru því næst kynntar, og fyrirferðarmestar voru tillögur um breytt skipulag LÍ og lagabreytingatillögur sem þeim verða að fylgja. Þetta hefur verið í vinnslu hjá stýrihópi allt síðasta ár og hefur verið kynnt í Læknablaðinu í flestum tölublöðum þessa árs.

                                 
                                 Engilbert Sigurðsson geðlæknir lagði nokkrar spurningar fyrir
                                 heilbrigðisráðherrann.

                               
                              Geðlæknum liggur mest á hjarta, þeir spyrja mest,  - hér koma nokkrar
                              góðar spurningar frá Kristni Tómassyni.

                              
                                       Kristján Vigfússon kynnti skipulagstillögur fyrir fundinum.

                              
                              Þórarinn Guðnason hjartalæknir og varaformaður LR var kampakátur
                              þegar hendur tókust á loft til að samþykkja skipulagsbreytingarnar á LÍ.

                              
                              Breytingar urðu á stjórn LÍ á aðalfundi, María Gottfreðsdóttir,
                              Ólafur Ó. Guðmundsson og Reynir Arngrímsson setjast í stjórn í stað þeirra
                              Orra Þórs Ormarssonar, Þorbjörns Jónssonar og Þórarins Ingólfssonar.
                              Á myndinni eru nokkrir úr stjórninni í fundarlok: Agnar H. Andrésson,
                              Björn Gunnarsson, Reynir, Ólafur og María.

                             
                             Vottar að lyklaafhendingu: Dögg, Reynir, Þorbjörn og Sólveig, - og almenn
                             ánægja með uppskeru fundarins og þau markmið sem þar náðust.

Birna Jónsdóttir röntgenlæknir, formaður afmælisnefndar, fór yfir dagskrá afmælisársins,  - en það hefur varla farið fram hjá neinum að 14. janúar næstkomandi eru 100 ár síðan Læknafélag Íslands var stofnað á fundi Læknafélags Reykjavíkur. Að þessu stóðu 34 læknar og var Guðmundur Hannesson kjörinn fyrsti formaður, og hann hafði þessi orð um stofnun Læknafélagsins, og það er árið 1918, gáum að því:

Mitt í öllum harðindunum, þrátt fyrir alla dýrtíð og styrjöld, byrja nú íslenskir læknar árið með þessari félagsstofnun, víllausir og alls ósmeikir, til þess að búa betur í haginn fyrir komandi ár. (Læknablaðið 1918; 4; 1-2.)

Um kvöldið snæddu aðalfundargestir saman í Rúgbrauðsgerðinni, fengu til sín tónlistarmanninn KK, og skemmtu sér og öðrum.

Læknar tóku föstudaginn snemma og var þá farið í saumana á breytingatillögum stjórnar um framtíðarskipulag Læknafélagsins. Kristján Vigfússon kennari við HR og Tryggvi Helgason barnalæknir kynntu tillögurnar ítarlega og spratt af þeim mikið spurningaflóð og umræða sem segja má að hafi staðið allt til enda fundarins. Skipulagið felur í sér miklar breytingar, fjögur aðildarfélög eiga að vera undir LÍ, hvert með sinn launaða formann, og er ef til vill bara fyrsta vers í að gera LÍ að nútímalegu félagi. Tillögur liggja fyrir á heimasíðu LÍ og eru tilraun til að ýta við gamalli grind félagsins, svæðafélög verða ekki lengur til sem slík, og formannafundur dettur út. Mikil umræða varð um hlutskipti LR og mun koma til kasta aðalfundar félagsins í vor. Sennilega verður það eitt aðildarfélaganna og með stofulækna innan borðs. Eina nýja félagið sem koma þarf á laggirnar er félag sjúkrahúslækna.

Kristófer Þorleifsson geðlæknir, formaður öldungadeildar Læknafélagsins, kom með tillögu um að sjötugir geti átt aðild að LÍ með því að borga hluta félagsgjalds og fái þar með atkvæðisrétt og kjörgengi. Þeir sem eru enn að vinna og borga félagsgjald hafa öll réttindi. Hann dró síðan tillögu sína til baka.

Um hádegi var skipað í fjóra vinnuhópa sem skiluðu síðan niðurstöðum sínum, og þar með hófst atkvæðagreiðsla um ályktanir og tillögur.

Stóri breytingapakkinn á LÍ var samþykktur af miklum meirihluta í heild sinni. Hér eftir verða allir læknar félagsmenn í LÍ og velja sér eitt fjögurra aðildarfélaga, en áður voru læknar félagsmenn í LÍ gegnum svæðafélögin. Fyrirkomulagi kosninga í stjórn LÍ var einnig breytt. Formaður verður kosinn rafrænni kosningu allra félagsmanna og formenn hinna nýju aðildarfélaga sjálfkjörnir í stjórn LÍ. Hvert aðildarfélag kýs svo annan mann í stjórn LÍ. – Þorbjörn formaður var mjög ánægður með það, mikil vinna að baki og góður árangur náðist með þessari samþykkt, en jafnframt var margítrekað að það á eftir að taka mörg skref í þessu ferli og um að gera að sýna sveigjanleika þar til fastara form er komið á skipulagið. Fundurinn samþykkti óbreytt árgjald til Læknafélagsins: 110.000 kr.

Fleiri ályktanir voru taldar fram, og þrotlausar pælingar um allt mögulegt í þeim, bæði innihald, orðfæri og greinarmerkjasetningu.

Á móti veipum, með börnum, um að endurnýja samninginn við sérfræðilækna, og margt fleira.

Næsti aðalfundur Læknafélagsins verður haldinn í október 2018 á höfuðborgarsvæðinu. Í tengslum við hann heldur Alþjóðafélag lækna (WMA, World Medical Association) árlegan fund sinn hérlendis og jafnframt verður haldið hér siðfræðiþing WMA, og má vænta yfirlýsingar þaðan í anda Helsinki-yfirlýsingarnar.

Í fundarlok las Sólveig Jóhannsdóttir framkvæmdastjóri LÍ kveðju til lækna frá Örnu Guðmundsdóttur formanni LR sem var stödd í Bandaríkjunum.

Og í blálokin kvaddi svo Þorbjörn formaður og Reynir formaður tók við, hinum fyrrnefnda þökkuð góð störf og hinum síðarnefnda óskað velfarnaðar.Þetta vefsvæði byggir á Eplica