11. tbl. 103. árg. 2017

Umræða og fréttir

„Mjúku málin eru mikilvæg“ - segir Ebba Margrét Magnúsdóttir nýr formaður læknaráðs Landspítalans

 

„Ég hafði ekki hugsað mér að taka að mér meiri félagsstörf en ákvað að slá til eftir að hafa fengið mjög jákvæða hvatningu frá yfirmönnum og samstarfsfólki,“ segir Ebba Margrét sem í haust tók við formennsku í læknaráði Landspítalans. Hún gegndi starfi varaformanns læknaráðs um skeið og sat í stjórn Læknafélags Reykjavíkur. Ebba Margrét var í aðgerðanefnd Læknafélags Íslands þegar kjaradeila félagsins við ríkið með tilheyrandi verkfalli stóð sem hæst haustið 2015.  

                                 
                                  „Ég tel mun farsælla að efla læknaráðið á jákvæðan hátt fremur en með
                                   hamagangi og upphrópunum,“ segir Ebba Margrét Magnúsdóttir nýr
                                   formaður læknaráðs Landspítala.

Ebba Margrét er sérfræðingur í fæðinga- og kvensjúkdómalækningum og starfar á kvennadeild Landspítalans. Hún segir starfið einstaklega skemmtilegt og gefandi og það hafi því ekki verið auðveld ákvörðun að taka við formennsku í læknaráðinu þar sem klíníska vinnan verður minni en áður. „Vangaveltur um hver tæki við formennskunni af Reyni Arngrímssyni þegar hann var kosinn formaður Læknafélags Íslands í vor urðu til þess að ég fór að velta því fyrir mér að bjóða mig fram. Það réði ekki síst ákvörðun minni að margir urðu til þess að hvetja mig og við nánari umhugsun fann ég að það væri ýmislegt sem ég vildi gera sem formaður og hugsanlega gæti ég látið gott af mér leiða.“

 

Víðtækt hlutverk læknaráðsins

Aðspurð um hlutverk læknaráðs Land-spítala vitnar Ebba Margrét í starfsreglur ráðsins sem samþykktar voru og undirritaðar í maí 2010 af þáverandi forstjóra, Birni Zoëga, og formanni Læknaráðsins, Þorbirni Jónssyni.

„Í 2. grein starfsreglna um læknaráð segir eftirfarandi um hlutverk læknaráðs:

Læknaráð skal vera stjórnendum Landspítalans til ráðuneytis um læknisfræðileg atriði í rekstri sjúkrahússins, enda ber forstjóra og framkvæmdastjórn að leita álits læknaráðs á því sem varðar læknisþjónustu sbr. 13. gr. laga nr. 40/2007. Læknaráð skal vera stjórnendum til ráðuneytis í málum er varða stefnumótun sjúkrahússins, þróun og skipulag, stjórnun og rekstur, samstarf og samhæfingu starfskrafta, þjónustuvið sjúklinga, menntun lækna, læknanema og annars starfsliðs og vísindastarf.

„Þarna má undirstrika að álit læknaráðs á því sem varðar læknisþjónustu spítalans er bundið í lög, sem vegur talsvert þyngra en starfsreglur sem líta má á  sem leiðbeinandi innanhúsreglur um góð samskipti milli stjórnenda spítalans og læknaráðs ef svo ber undir,“ segir Ebba Margrét.

Í þriðju grein segir meðal annars:  Læknaráð getur hvenær sem er tekið mál til umræðu og meðferðar að eigin frumkvæði auk þeirra mála sem stjórnendur spítalans eða heilbrigðismála leggja fyrir ráðið.

„Þetta veitir læknaráðinu verulegt svigrúm til að láta til sín taka um hvaðeina sem það telur til heilla horfa. Stjórnarfundir ráðsins eru haldnir reglulega. Í læknaráðinu eiga sæti „allir þeir læknar sem ráðnir hafa verið til starfa til eins árs eða lengur. Rétt til fundarsetu með tillögurétti, en án atkvæðisréttar, eiga aðrir læknar Landspítalans.“

Læknaráðið hefur einnig staðið fyrir fundum með gestum, bæði sérfræðingum, innlendum og erlendum, í læknisfræði, en einnig öðrum sem starfa við heilbrigðisgreinar eða stjórnun heilbrigðismála. Læknaráðið getur þannig með ýmsum hætti stuðlað að fræðslu og umræðu um vinnuskilyrði, læknisfræði og heilbrigðismál.“

 

Mjúku málin skipta máli

Ebba Margrét kveðst vilja leggja sérstaka áherslu á vinnustaðinn Landspítalann í starfi sínu sem formaður læknaráðsins. „Mig langar til að efla mannauðinn á spítalanum, gera umhverfið jákvæðara og auðveldara fyrir bæði yngra fólkið sem hér er að hefja feril sinn og eldra fólkið sem er að ljúka starfsferlinum. Þarna finnst mér að megi bæta ýmislegt enda sjáum við að læknar eru að hætta hér áður en kemur að eftirlaunaaldri og sérstaklega finnst mér leitt þegar fólk sem hefur starfað hér í áratugi telur sig ekki eiga erindi í heimsókn á sinn gamla vinnustað eftir að ferlinum lýkur. Þarna mætti jafnvel skapa svigrúm til að taka á móti fyrrum starfsfélögum og leiða þannig saman lækna af eldri og yngri kynslóð.“

Hún segir ekki hægt að horfa framhjá því að það sem sumir vilja kalla einelti í ýmsum myndum virðist hugsanlega þrífast á vinnustaðnum. „Fyrir marga sérfræðilækna er Landspítalinn eini vinnustaðurinn sem þeir geta unnið á og ef eitthvað kemur uppá í samskiptum á milli samstarfsfólks er annað tveggja að láta sig hafa það eða fara. Ég hef séð einstaklinga sem hefur ekki liðið vel á Landspítalanum og horfið á braut, annaðhvort aftur til útlanda þar sem sérfræðinámið fór fram eða á stofu útí bæ.

Stundum stafa þessir erfiðleikar af því að sérfræðingarnir hafa lært í mismunandi  löndum og vanist ólíkum vinnubrögðum. Stundum eru þetta árekstrar á milli yngri sérfræðinga sem nýkomnir eru til starfa og þeirra eldri sem tregir eru til að breyta um aðferðir og vinnubrögð. Allt er þetta skiljanlegt en þarna er hægt að gera ýmislegt og taka einfaldlega betur utan um fólkið okkar. Sannarlega blessast þetta líka oft mjög víða og samstarfið gengur ljómandi vel. Ég hef samt áhyggjur af unga fólkinu okkar, ungu læknunum sem eru að taka við keflinu.  Oft koma upp erfið tilfelli undir miklu álagi og tímapressu í læknisstarfinu sem hafa djúp áhrif á andlega líðan okkar. Við þurfum að gæta betur að þessu og sinna unga fólkinu sem stendur í eldlínunni. Nauðsynlegt er að skapa farveg til að vinna faglega úr erfiðum málum. Svarið er gjarnan að ekki sé nægur tími til slíkra hluta en það er misskilningur. Tíminn sem í þetta fer skilar sér margfalt tilbaka. Ég hef átt samtal um þetta við Pál forstjóra og hann hefur fullan skilning á þessu og ég vænti þess að um þetta náist góð samvinna.“

Ebba Margrét segir einnig að ekki verði horft framhjá því að margir virðast upplifa að það sé gjá á milli yfirstjórnar spítalans og fólksins á gólfinu. „Á milli okkar sem vinnum á gólfinu eins og sagt er og Eiríksstaða. Framkvæmdastjórar hinna ýmsu sviða mættu gjarnan vera sýnilegri starfsfólkinu og vera meiri þátttakendur í því sem fer fram á deildum spítalans. Annars er hætt við því að það festist í sessi viðhorf eða fjarlægð sem best er lýst með orðunum við og hinir. Mig langar að vinna að því að brúa þessa gjá svo allir séu samtaka í því að vera í einu og sama liðinu. Ef mér tækist þetta þó ekki væri nema að einhverju leyti þá þætti mér verulega mikið unnið. Einhverjir munu sjálfsagt kalla þetta „mjúku“ málin en sannleikurinn er sá að þetta eru þau mál sem öllu skipta ef við ætlum að tryggja eðlileg samskipti og kynslóðaskipti innan spítalans á komandi árum og áratugum.“

 

Skipting kostnaðar og nýr Landspítali

Hún segir einnig nauðsynlegt að taka umræðu um kostnað í heilbrigðiskerfinu og hvernig þeim fjármunum sé varið sem til heilbrigðismála renna. „Það er einfaldlega staðreynd að við sem skattgreiðendur erum að borga stórar fjárhæðir til heilbrigðiskerfisins. Öll viljum við fá góða þjónustu þegar við sjálf verðum sjúklingurinn. Nýleg skýrsla landlæknis sýnir að við erum að gera mun fleiri aðgerðir á vissum sviðum en gert er í sumum nágrannalandanna sem sjúkratryggingar Íslands greiða fyrir. Íslenskir læknar þurfa að taka hreinskilna umræðu um hvert fjármagnið rennur og hvernig því er útdeilt. Við viljum öfluga heilsugæslu, sterkan Landspítala og sjálfstæðan stofurekstur sem þolir faglegt eftirlit. Eflaust verða einhverjir til að mótmæla þessari skoðun minni en þá er að taka umræðuna.“

Ebba Margrét lá ekki skoðun sinni á sínum tíma þegar rætt var um staðsetningu nýs Landspítala. Hún vildi að hann yrði settur niður annars staðar en við -Hringbraut. Ætlar hún að fara í þá umræðu sem formaður læknaráðs?

„Já, þetta er rétt hjá þér. Mín innri sannfæring er sú að fyrir íslenska þjóð væri skynsamlegra að byggja betri spítala á betri stað. Rökin eru mörg; samgöngur, gamlar úreltar byggingar sem stendur til að nota, rask fyrir starfsemina meðan byggt er upp og ekki er horft til framtíðar. Að halda einhverju til streitu sem ákveðið var fyrir 20 árum og er löngu orðið tímaskekkja er ekki skynsamlegt fyrir dýrustu framkvæmd 21. aldarinnar. Mér finnst ég hafa þurft að tala máli fæðandi kvenna og geðsjúkra sem eiga engan talsmann en munu þiggja sína læknisþjónustu í gömlum skaðlegum byggingum.  Ég hef lagt mitt lóð á vogarskálarnar til að breyta þessari ákvörðun. Nú þegar eru helstu talsmenn uppbyggingar við Hringbraut farnir að tala um næsta spítala. Dæmigerð íslensk leið og kostnaðurinn verður mun meiri. Þetta eru mínar persónulegu skoðanir.

Ég hef ekki hugsað mér að nota vettvang læknaráðs í þessa umræðu en verð samt að huga að öryggi og velferð sjúklinga og starfsmanna, meðan á þeim framkvæmdum sem búið er að ákveða stendur.

Umhverfi okkar lækna hefur gjörbreyst á ekki svo löngum tíma. Dómsmálum og kærum á hendur læknum í ákveðnum greinum hefur fjölgað mikið.  Sjúklingur 21. aldarinnar er mun upplýstari en áður og kröfur sem gerðar eru til okkar eru jafnvel óraunhæfar. Þess vegna er mikilvægt að læknar standi saman og að við eflum teymisvinnu við aðrar heilbrigðisstéttir þar sem allir stefna í sömu átt.“

Ebba Margrét er önnur konan sem gegnir formennsku í læknaráði Landspítalans og aðspurð um hvort það skipti máli segir hún svo ekki vera. „Konur forgangsraða oft öðruvísi og það getur vel verið að svo verði núna en að öðru leyti tel ég ekki að kyn skipti máli. Ég hlakka til að takast á við komandi verkefni með öflugri stjórn læknaráðs.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica