10. tbl. 103. árg. 2017

Umræða og fréttir

Svipmyndir úr sögu gamalla spítala

Nýir spítalar taka við af gömlum. Með árunum verða nýju spítalarnir gamlir, gömlu spítalarnir enn eldri, en nýrri spítalar taka við af hinum nýju. Tökum eina hringferð um landið.         

Elsti hluti Sjúkrahúss Akureyrar á Eyrarlandstúninu var tekinn í notkun 1953. Spítalinn í Eyrarlandsbrekkunni var þó hinn gamli spítali, reistur 1898 eftir teikningum Guðmundar Hannessonar læknis, endurreistur sem skíðaskáli í Hlíðarfjalli 1956. Gudmanns Minde (sem enn stendur; Aðalstræti 14) er hins vegar elsti spítali Akureyrar en hann var starfræktur 1873-1899.

                                

Sjúkrahúsið í Neskaupstað var vígt 1957 en ári síðar var  ákveðið að sjúkrahúsið skyldi verða fjórðungssjúkrahús. Eftir að nýbygging sjúkrahússins var tekin í notkun 1982 varð byggingin frá 1957 gamli hluti spítalans. Hins vegar var Bjarnaborgarspítalinn, fyrsti spítali Norðfirðinga, kallaður „Gamli-Spítalinn“ en hann tók til starfa 1926.

                                

Landakotsspítalinn var tekinn í notkun árið 1902. Nýrri vesturálmu var bætt við 1935 en eftir að nýjasti hluti spítalans var byggður varð vesturálman gamli spítalinn en elsti spítalinn var rifinn. Því skal einnig haldið til haga að gamla kaþólska kapellan var eins konar fyrirrennari spítalans, fyrsti spítali St. Jósefssystra í Landakoti.

Hinn glæsilegi nýi Landspítali (hét upphaflega Landsspítalinn) á Grænuborgartúninu var vígður 1930. Hann var seinna kallaður gamli spítalinn eftir að nýbyggingar Landspítalans voru reistar.

                                   

Nýja sjúkrahúsið á Ísafirði (Sjúkrahúsið að Torfnesi) var formlega tekið í notkun 1989. Rúmum 60 árum áður hafði hið glæsilega sjúkrahús á Eyrartúni verið reist sem spítali Vestfirðinga, en nú hefur húsið fengið nýtt hlutverk sem safnahús (bóka-, skjala- og listasafn bæjarins) en er oftast kallað gamla sjúkrahúsið á Eyrartúni. 

Þótt flestir læknar hafi heyrt talað um gamla spítalann á Eyrartúni eru ekki margir sem vita að á Ísafirði var enn eldri spítali í Mánagötu 5 (Bankagötu 5) en hann var tekinn í notkun 1897. Þegar Friðrik VIII Danakonungur heimsótti Ísafjörð árið 1907 kom hann við á spítalanum og heilsaði upp á sjúklingana. Þessi spítali var gerður að elliheimili eftir að spítalinn á Eyrartúni var tekinn í notkun. Í Mánagötu 5 er nú gistihús. Á gamalli mynd sem hangir uppi á vegg í gistihúsinu má sjá kónginn á leið í heimsóknina forðum. Eftir að hafa gist þar rúmri öld síðar fékk undirritaður þá hugmynd að skrifa þennan pistil. Á nýlegri götumynd má sjá að pistilshöfundur hefði sennilega getað heilsað upp á kóngsa ef þeir hefðu verið þarna samtímis.

                                  



Þetta vefsvæði byggir á Eplica