10. tbl. 103. árg. 2017

Umræða og fréttir

Frumkvöðull með ástríðu fyrir vísindum, Sandra Mjöll Jónsdóttir-Buch, lífeindafræðingur og doktor í líf- og læknavísindum

Sandra Mjöll Jónsdóttir-Buch, lífeindafræðingur og doktor í líf- og læknavísindum, hefur vakið athygli og unnið til viðurkenninga að undanförnu. Nú seinast vann hún til aðalverðlauna heimssamtaka uppfinninga- og nýsköpunarkvenna, The Global Women Inventors and Innovation Network, sem Frumkvöðull ársins. Sandra hlaut einnig verðlaunin ,,Ungur og efnilegur vísindamaður ársins“ á sviði lífvísinda fyrr á árinu.

 

                                    
                                   
„Ég hef mikla trú á stéttinni og vil taka þátt í að byggja hana upp,
                                    en samtímis vil ég líka sjá miklu meiri samvinnu milli heilbrigðisstétta
                                    og út fyrir þær,“ segir Sandra Mjöll Jónsdóttir-Buch doktor í líf- og læknavísindum.

 

Verðlaunin koma til vegna rannsókna hennar á útrunnum blóðflögum og hvernig nýta megi þær til að rækta mesenkímal- stofnfrumur úr beinmerg. Blóðflögurnar fær hún hjá Blóðbankanum eftir að þær renna út og vinnur svo úr þeim blóðflögulausn sem kemur í staðinn fyrir kálfasermi í frumuræktun. Þótt hún sé ung að árum hefur hún verið brautryðjandi á þessu sviði ásamt dr. Ólafi E. Sigurjónssyni, yfirmanni stofnfrumuvinnslu og grunnrannsókna í Blóðbankanum og prófessor við Háskólann í Reykjavík. Saman stofnuðu þau nýsköpunarfyrirtækið Platome líftækni og er Sandra Mjöll framkvæmdastjóri þess frá 2016. Það var valið sprotafyrirtæki ársins 2017 hjá Viðskiptablaðinu. Sandra er einnig aðjúnkt við læknadeild Háskóla Íslands síðan 2014 þar sem hún kennir erfðafræði. Sandra Mjöll varði doktorsritgerð sína: Notkun útrunninna blóðflaga til fjölgunar á mesenkímal stofnfrumum, við Háskóla Íslands þann 15. september síðastliðinn. Innan við sólarhring síðar settist hún niður og svaraði nokkrum spurningum Læknablaðsins um rannsóknir sínar, fyrirtækið og framtíðina.

 

Fyrst til að nýta útrunnar blóðflögur

Í æsku bjóst Sandra Mjöll ekki við að heillast af vísindum og verða frumkvöðull. Hún sá sig frekar sem píanista og bókmenntakonu, en röð atvika leiddi hana í nám í lífeindafræði og þannig hófst ævintýrið. ,,Þegar ég hafði lokið BS-gráðu í lífeindafræði fékk ég sumarverkefni í Blóðbankanum hjá Óla. Þetta ,,sumarverkefni“ hefur nú staðið í sex ár.“ Hún bætti við sig diplómu til starfsréttinda og fór í doktorsnám. Útfrá doktorsverkefninu spannst svo fyrirtækið. ,,Frá því við fórum að byggja upp rannsóknirnar og síðan fyrirtækið, hefur eitt leitt af öðru. Þörf er á að finna betri frumunæringu en kálfasermi fyrir ræktun mesenkímal- stofnfruma, sem notaðar eru meðal annars í vefjalækningum. Óli fékk þá hugmynd að fara að skoða blóðflögur og við fórum í kjölfarið að skoða útrunnar blóðflögur í Blóðbankanum sérstaklega og spyrja: Er þetta eitthvað sem er hægt að nota? Við fórum því að endurnýta blóðflögur sem annars yrði fargað en ef við hefðum verið að nota ferskar blóðflögur, hefðum við verið í samkeppni við Blóðbankann um blóðgjafa. Okkur leist ekki vel á það. Þetta varð svo til þess að við vorum fyrsti hópurinn í heiminum til að sýna fram á gagnsemi þess að nota útrunnar blóðflögur, sem annars hefði verið hent, til rækunar á mesenkímal-stofnfrumum. Nú eru flestir aðrir á þessu sviðið farnir að gera það líka, þannig að okkar rannsóknir hafa breytt þessari fræðigrein.

 

Skapa samtal og skiptast á þekkingu

Þegar við sáum að hægt var að breyta okkar vinnu í vöru var næsta spurningin: Eigum við að fylgja því eftir sjálf eða láta einhvern annan um það? Við ákváðum að prófa að gera þetta sjálf.“ Þannig atvikaðist það að hún gerðist frumkvöðull og framkvæmdastjóri nýsköpunarfyrirtækis. ,,Það var ekki eins og ég segði við sjálfa mig einn góðan veðurdag: ,,ég ætla að verða frumkvöðull!“. Ég held að fólk lendi bara oftast í því. Það er að fylgja ástríðu, hugmynd eða einhverju sem það trúir á, eins og í okkar tilfelli. Við hugsuðum: Það getur ekki verið svo mikið mál að stofna fyrirtæki.“ Hún getur ekki varist hlátri. ,,Augljóslega gerðum við okkur ekki fyllilega grein fyrir hvað felst í fyrirtækjarekstri. Ég skráði mig á námskeið sem heitir Brautargengi hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Það er ætlað konum sem vilja hefja eigin rekstur.Þá var dóttir mín aðeins eins mánaðar gömul en hún er nú þriggja ára. Námskeiðið var mjög gagnlegt og ég þurfti að læra hratt hvað fólst í því að stofna fyrirtæki.“ Það reyndist farsælt spor og opnaði leið sem Söndru Mjöll var mjög að skapi. ,,Ég get fylgt mínum grunnrannsóknum eftir og hagnýtt þær. Þar liggur mín ástríða“.

Væri athugandi að byggja upp sterkari ramma fyrir vísindamenn til að koma rannsóknum og uppgötvunum á framfæri? ,,Já, þegar við vorum að byrja vissi ég ekkert hvert ég átti að snúa mér. Það er mjög mikil gróska í nýsköpun á Íslandi af öllu tagi, en umgjörðin  hentar samt ekki beint akademískum sprotum sem byggja oft á margra ára rannsóknum. Við erum með mjög mikið af öflugu fagfólki hér og Ísland á svo mikið inni en það vantar líka vettvang fyrir samskipti og umræðu. Ég hef tekið skref í þá átt að stofna ,,líftækniklasa“ og fengið liðstyrk frá Nýsköpunarmiðstöð, Háskóla Íslands og Samtökum iðnaðarins. Hugmyndin er að skapa samtal milli mismunandi rannsóknarhópa, líftæknifyrirtækja og lyfjafyrirtækja. Skiptast á þekkingu og jafnvel snúa bökum saman í hagnýtingu rannsókna og markaðssetningu á nýjungum. Þetta er líka hugsað sem vettvangur fyrir vísindamenn í grunnrannsóknum til að fá að vita hvort áhugi sé á að vinna áfram með einstakar hugmyndir og verkefni og finna samstarfsaðila til að koma þeim lengra. Það er líka verið að athuga með húsnæði þar sem sprotafyrirtæki á sviði lyfja- og lífvísinda gætu leigt rannsóknaraðstöðu en það á eftir að útfæra nánar, enda er verk-efnið á byrjunarstigi.“

Sandra Mjöll hefur verið í báðum hlutverkunum, sem rannsakandi og fulltrúi einkafyrirtækis, og hún segir að það sé vissulega nokkurt álag og togstreita þar á milli. ,,En mér finnst hvort tveggja mjög skemmtilegt. Ég held áfram í rannsóknum en stofnun fyrirtækisins gerði okkur kleift að fá fleira fólk í lið með okkur og það eru fleiri möguleikar á að sækja fé til rannsóknanna. Við erum meðal annars styrkt af Tækniþróunarsjóði. Mér datt aldrei í hug að við myndum ná svona góðum árangri á svo skömmum tíma.“ Sá hugsunarháttur að vísindamenn eigi ekki að koma nálægt fyrirtækjarekstri er óðum á undanhaldi og margir samgleðjast velgengi Söndru Mjallar, Ólafs og Platome líftækni.

 

Lífeindafræðin er mikilvægt fræðasvið

,,Við vorum tvö í teyminu í byrjun 2016 og nú erum við átta. Við erum komin í samstarf við aðila út um allan heim og þannig getum við gert miklu meira en við hefðum burði til hér innanlands. Við eigum svo mikið af nýjum og spennandi hugmyndum.  Nú eru fjórir nemar að vinna mastersverkefni hjá okkur, mjög áhugaverð verkefni sem þeir sinna af krafti og sannfæringu.

Hugmyndir koma fram með ýmsum hætti. Stundum rekum við okkur á eitthvað sem þyrfti að vera öðruvísi í okkar vinnuumhverfi. Þá er því fylgt eftir og reynt að leysa þau vandamál. Það sem byrjar sem rökrétt næsta skref hefur stundum reynst vera ný hugmynd. Fólk hefur líka í seinni tíð leitað eftir samstarfi við okkur ef það sér skyldleika í sínum verkefnum og okkar. Oft er gott að vera í samstarfi við aðra, sækja saman um styrki og hafa tök á að ráða fleira fólk til starfa. Það skiptir þó mestu máli að vita hvert við erum að stefna og hvað við ætlum að fá út úr því sem við erum að gera.

Undanfarin ár hafa verið erilsöm hjá Söndru Mjöll, rannsóknir, fyrirtæki, fjölskylda, háskólakennsla, doktorsnám, en hún hefur líka fengið mikla viðurkenningu og hvatningu. ,,Það er gott að fá hvatningu. Oft áttar maður sig  ekki sjálfur á mikilvægi þess sem maður gerir og aðrir þurfa að segja manni það. En þá er líka mikilvægt að standa undir væntingunum og halda áfram. Þetta hefur oft verið mikið álag og þá er gott að geta hugsað: Þarna úti er fólk sem hefur trú á mér.

Mitt fræðasvið, lífeindafræðin, hefur ekki alltaf fengið viðurkenningu sem skyldi, þó  það sé sérlega mikilvægt. Lífeindafræðingar eru sérfræðimenntaðir í líffræði mannsins og nákvæmum mælingum á gildum líkamans, meðal annars. Nú hefur aukist mjög að lífeindafræðingar sæki í meistaranám og þrír hafa lokið doktorsnámi síðastliðið ár. Mér finnst mjög gott að geta verið öðrum lífeindafræðingum hvatning til að horfa á sig sem fræðimenn. Ég get farið til nemenda minna sem eru í lífeindafræðinámi og sagt þeim að sú menntun sem þeir eru að fá sé mjög verðmæt, og þeir geti nýtt hana eins og þeir vilja, hvort sem þeir vilja fara út í grunnrannsóknir, þjónusturannsóknir eða eitthvað annað. Lífeindafræðingar hafa fengist við alls konar rannsóknir inni á spítölunum og eru stundum fyrstir til að sjá einhverjar tilhneigingar, breytingar og frávik sem tengjast sjúkdómum. Vísindin eru að gerast í höndunum á okkur á hverjum einasta degi. Ég hef mikla trú á stéttinni og vil taka þátt í að byggja hana upp, en samtímis vil ég líka sjá miklu meiri samvinnu milli heilbrigðisstétta og út fyrir þær. Til dæmis hef ég unnið talsvert með heilbrigðisverkfræðingum og séð að við getum skapað margt mikilvægt saman. Það er gott að þurfa ekki að vita allt sjálfur og fá aðstoð annars fagfólks. Þannig er auðveldara að nýta þekkingu og skapa virði fyrir samfélagið.“

Save



Þetta vefsvæði byggir á Eplica