09. tbl. 103. árg. 2017

Umræða og fréttir

Heilbrigðisstefna til framtíðar, bók Ingimars Einarssonar

Einn af vopnabræðrum Davíðs Á. Gunnarssonar í kosningabaráttunni um forstjórastólinn í WHO var Ingimar Einarsson félags- og stjórnmálafræðingur en hann gegndi þá stöðu deildarstjóra í heilbrigðisráðuneytinu. Svo vill til að Ingimar er einnig að gefa út bók um heilbrigðismál sem kom út í vor og ber titilinn Heilbrigðisstefna til framtíðar.

Þar er að finna hugleiðingar Ingimars um heilbrigðismál í formi 20 blaðagreina sem hann hefur birt síðustu árin, sú nýjasta er frá því í febrúar á þessu ári. Á bókarkápu segir að greinarnar fjalli „á gagnrýnan hátt um ýmsar hliðar heilbrigðismála og íslenska heilbrigðiskerfisins, jafnt stefnumótun og fjármál, lýðheilsu, alþjóðasamvinnu og upplýsingatækni í heilbrigðisþjónustu“.

Um greinarnar segir höfundur í formála: „Ætla mætti að þessi heildarútgáfa sé nokkuð seint á ferðinni þar sem komið er á sjötta ár frá því fyrsta greinin birtist í Fréttablaðinu. En þegar betur er að gáð er umræðan um heilbrigðismál á Íslandi að mestu í sömu sporum í dag og hún var í byrjun annars áratugar þessarar aldar. Jafnvel þó allir séu sammála um að gott heilbrigðiskerfi sé einn af hornsteinum velferðarsamfélagsins og ein meginforsenda þess að tryggja góð lífskjör og samkeppnishæfni landsins til lengri tíma.“



Þetta vefsvæði byggir á Eplica