09. tbl. 103. árg. 2017

Umræða og fréttir

„Nálarauga“ læknadeildar - Þórdís Jóna Hrafnkelsdóttir er formaður nefndar sem veitir landlækni ráðgjöf um það hverjir skuli hljóta starfsleyfi sem sérfræðilæknar hér á landi

Í undanförnum Læknablöðum hefur verið rætt við formenn nefnda sem gegna ákveðnum hlutverkum í námi lækna að loknu grunnnámi. Fyrst var rætt við Ingu Sif Ólafsdóttur kennslustjóra kandídata á Landspítala, svo Reyni Tómas Geirsson prófessor emerítus um framhaldsnám lækna hér á landi og nú er röðin komin að síðasta hlekknum í þessari keðju, veitingu sérfræðileyfa og þar með starfsleyfa sérgreinalækna á Íslandi. Þar verður fyrir svörum Þórdís Jóna Hrafnkelsdóttir hjartalæknir og formaður nefndar sem veitir landlækni umsögn um veitingu sérfræðileyfa.

Blaðamaður er að vandræðast með nafnið á nefndinni en Þórdís Jóna segir að það sé í sjálfu sér ekki til. „Reglugerðin veitir í raun landlækni sjálfdæmi um það hvernig hann hagar leyfisveitingum að öðru leyti en því að honum ber að leita umsagnar læknadeildar Háskóla Íslands. Deildin valdi að halda í óbreytt fyrirkomulag frá fyrri reglugerð svo hún skipar þriggja manna nefnd til að meta umsóknir,“ segir hún. Formaður nefndarinnar er skipaður af læknadeild, Læknafélag Íslands skipar fastafulltrúa en þriðji nefndarmaðurinn er fulltrúi þess fræðasviðs sem hver umsókn fellur undir og er því breytilegt hver þar situr.

 

                
                                                                Þórdís Jóna Hrafnkelsdóttir hjartalæknir.

 

Vinnulag

„Vinnulagið er á þann veg að landlæknir yfirfer gögnin sem þurfa að fylgja umsókninni, athugar hvort eitthvað vanti og sendir þau svo til skrifstofu læknadeildar þar sem fastafulltrúinn fær þau í hendur. Þar situr nú Salóme Ásta Arnardóttir. Hún fer einnig yfir gögnin og sendir áfram á viðkomandi fræðasvið. Síðan fæ ég gögnin til mín. Ef allt liggur ljóst fyrir um hvort viðkomandi uppfyllir öll skilyrði eða ekki hittumst við ekkert meira, en ef eitthvað er óljóst hittumst við gjarnan með deildarforseta því það er hann sem sendir frá sér álitið,“ segir Þórdís.

Hefur þá ekkert breyst í þessu ferli með reglugerðinni?

„Jú, það hafa orðið breytingar. Ég var fastafulltrúi LÍ fyrir nokkuð mörgum árum. Þá höfðum við fullt í fangi með að afgreiða umsóknir frá erlendum læknum sem sóttust eftir starfsleyfi þótt þeir hyggðust ekki starfa hér á landi. Þeir voru að leita leiða til að fá sérfræðiviðurkenningu án þess að uppfylla öll skilyrði í heimalandi sínu. Þetta voru mest Norðurlandabúar, einkum Norðmenn sem ekki höfðu komist inn á allar þær kennslustofnanir sem til var ætlast samkvæmt þarlendri reglugerð. Þar er heilbrigðisstofnunum skipt í tvo flokka. Til þess að ljúka sérnámi þurfa læknar að stunda sérnám og vera skráðir í námsstöðu samfellt í 18 mánuði á fyrsta flokks háskólasjúkrahúsi og það getur verið snúið að komast þar að. Við vorum meðvituð um að girða fyrir möguleikann á því að fólk gæti komist framhjá kerfinu og „keypt sér“ sérfræðiviðurkenningu hér á landi. Þess vegna settum við það skilyrði fyrir leyfisveitingu að menn hefðu lokið námi á viðurkenndum kennslustofnunum. Við þetta hafa þessar umsóknir nánast horfið, en það snertir raun ekkert þessa nýju reglugerð.“

 

Sólarlagsákvæði

„Sem stendur erum við í hálfgerðu einskismannslandi því vegna sólarlagsákvæðis í nýju reglugerðinni geta menn lokið námi samkvæmt reglugerðinni frá 2012 fram til 2020. Þetta veldur því að við lendum oft á gráu svæði þar sem erfitt er að ákveða hvernig meðhöndla á umsóknirnar. Oft hafa menn ílenst hér á landi í þrjú eða þrjú og hálft ár í námi sem ekki er viðurkennt samkvæmt reglugerð nema sem tveggja eða þriggja ára nám. En hafi menn getað sýnt fram á með gögnum að námið hafi haft eðlilegan framgang og fólk hlotið tilskilda þjálfun höfum við í flestum tilvikum getað samþykkt það. En þessum tilvikum fer fækkandi í krafti nýju reglugerðarinnar sem kveður skýrt á um hvaða stofnanir séu kennslustofnanir og hversu lengi sé hægt að stunda nám á hverjum stað.

Nú er verið að gera átak í því að viðurkenna sérnám í fleiri greinum hér á landi. Fram til þessa hefur verið boðið upp á viðurkennt sérnám í heimilislækningum, og að hluta til í lyflækningum og kvensjúkdómum. Einnig höfum við samþykkt nám í geðlækningum þótt það hafi ekki farið í gengum sama ferli. Leikreglurnar eru að verða skýrari, en það þarf að endurskoða þessa reglugerð eins og aðrar,“ segir Þórdís.

 

Innan og utan EES

En hvað um þá sem lokið hafa sérnámi utan EES-svæðisins?

„Þeir koma ekki til kasta nefndarinnar heldur þurfa þeir að undirgangast miklu strangara mat á vegum læknadeildar, jafnvel að fara í próf eða starfsþjálfun. Hins vegar hefur talsverður hluti af okkar fólki stundað nám í Bandaríkjunum, Kanada, Nýja-Sjálandi og Ástralíu og í reglugerðinni er ákvæði um að hægt sé að viðurkenna sambærilegt nám frá þessum löndum þótt tímalengdin sé önnur. Öðru máli gegnir um Rússland, Asíuríki og önnur lönd þar sem við höfum í raun mjög litlar forsendur til þess að vita hvað liggur að baki læknanáminu.

Er enn mikið um að útlendir læknar sækist eftir starfsleyfi hér á landi?

„Það eru fyrst og fremst Íslendingar sem sækja um hér en innan um er þó alltaf dálítið um útlendinga sem hyggjast koma til starfa hér. Sumir þeirra eru jafnvel byrjaðir að starfa. Við meðhöndlum þær umsóknir sem hafa flestar varðað bráðalækningar. En þeir sem eru af EES-svæðinu fá staðfestingu frá landlækni án okkar afskipta.

Læknadeild prófar fólk utan EES og hefur sent það inn á deildir til reynslu svo hægt sé að meta hvort það kann það sem það segist kunna. Sumir hafa líka farið í próf, en það er ekki á vegum nefndarinnar.“

 

Læknar að skúra gólf?

Eru þess dæmi að menn reyni að svindla á kerfinu?

„Við verðum ekki vör við slíkt, ætli landlæknir kæfi það ekki í fæðingu ef menn reyna að svindla.“

Stundum heyrist því fleygt að erfitt sé að fá starfsleyfi hér á landi og jafnvel að hámenntaðir læknar neyðist til að leggja fyrir sig skúringar? Er eitthvað til í því?

„Sé svo er það ekki vegna starfa nefndarinnar. Reglugerðin mætti alveg taka fastar á því hvernig ber að leggja mat á fólk í slíkum tilvikum. Fólk á auðvitað að njóta sannmælis og fá hjálp við að bæta við sig ef þarf. Þetta er ekki séríslenskt vandamál. Í Svíþjóð er ákveðið kerfi á því hvernig tekið er á læknum sem koma frá löndum utan EES. Þar þurfa allir að fara í próf, líka tungumálapróf, og nám um sænskt heilbrigðiskerfi. Það er ekki óalgengt að fólk þurfi að taka viðbótarþjálfun. En þótt fjöldinn sé meiri og auðveldara að hafa fasta leið hefur það samt reynst Svíum erfitt að taka á þessu og mörg dæmi um að læknar festist í að baka pizzur eða keyra leigubíl,“ segir Þórdís Jóna Hrafnkelsdóttir.

Í lokin brýnir hún svo fyrir umsækjendum mikilvægi þess að umsóknirnar séu vel úr garði gerðar og að öll gögn liggi fyrir, það flýti fyrir umsóknum. Hún bendir líka á að starfsmenn landlæknis séu boðnir og búnir að veita leiðbeiningar um hvað til þarf.Þetta vefsvæði byggir á Eplica