09. tbl. 103. árg. 2017

Umræða og fréttir

Lögfræði 23. pistill. Læknar eldri en 70 ára sem reka eigin starfsstöðvar

Við endurskoðun læknalaga á níunda áratug síðustu aldar var ákveðið að takmarka heimild lækna til að reka eigin starfsstofu eftir 75 ára aldur og binda það við leyfi landlæknis, sem gilti ár í senn.

Þegar lög um heilbrigðisstarfsmenn nr. 34/2012 voru samþykkt voru þessar reglur, sem eru í 26. gr. laganna, rýmkaðar til að ná til allra heilbrigðisstarfsmanna. Aldursmarkið var einnig fært niður í 70 ár en Embætti landlæknis (EL) leyft að framlengja heimildina til tveggja ára í senn, þó ekki oftar en þrisvar eða til 76 ára aldurs. Í skýringum með 26. gr. segir að opinberir starfsmenn hætti að jafnaði störfum þegar þeir verði sjötugir og rétt þyki að miða við þá almennu reglu þegar kemur að störfum á eigin starfsstofum.1

Læknafélag Íslands (LÍ) setti sig ekki á móti þessari breytingu og taldi ýmis málefnaleg rök styðja hana. Eftir gildistöku laganna kom í ljós að fjölmargir eldri læknar voru ósáttir við breytinguna, töldu hana takmarka stjórnarskrárvarin atvinnuréttindi sín. Aðalfundur LÍ 2013 ályktaði um málið og skoraði á heilbrigðisráðherra að breyta ákvæðinu.

Heilbrigðisráðherra lagði til breytingu, sem var samþykkt með lögum nr. 43/2014. Aldurshámarkið var aftur fært í 75 ár en EL heimilað að framlengja leyfið, fyrst í 3 ár og síðan í ár í senn án hámarksaldurs. Þá skyldi með reglugerð tilgreina skilyrði sem uppfylla þarf til að fá undanþágu eftir 75 ára aldur og um gögn og upplýsingar sem fylgja þurfa umsókn, s.s. læknisvottorð um starfshæfni, upplýsingar um tegund og umfang starfseminnar frá því að 70 ára aldri var náð og endurmenntun heilbrigðisstarfsmanns.

Í skýringum með lagabreytingunni er m.a. vísað til reglna í nágrannalöndum og að mikilvægt sé að þær séu sambærilegar hér á landi. Rakið er að í Svíþjóð, Finnlandi, Bretlandi og Þýskalandi séu engar takmarkanir varðandi aldur sjálfstætt starfandi lækna. Almennar kröfur um hæfi til að gegna störfum gildi. Í Danmörku falli réttur til að reka eigin starfsstofu niður við 75 ára aldur en réttur til að kalla sig lækni eða sérfræðing falli ekki niður né réttur til að ávísa lyfjum á sjálfan sig og nánustu ættingja ef lyfjaávísanir eru ekki vegna reksturs. Heimilt sé að leyfa rekstur eigin stofu að fullu eða hluta eftir 75 ára aldur samkvæmt umsókn. Í fyrsta skipti sé heimilt að veita leyfi næstu þrjú árin. Eftir það í þrjú, tvö eða eitt ár á grundvelli nákvæms einstaklingsmats án takmörkunar á því hversu oft megi veita slíka framlengingu. Í Noregi missi heilbrigðisstarfsmenn starfsleyfi við 75 ára aldur, en geti sótt um svokallað „lisens“ og sérfræðiviðurkenningu að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, sem sett séu í reglugerð, til að reka eigin starfsstöð eða til að gegna ákveðnum störfum. Leyfið sé veitt í tiltekinn tíma í allt að tvö ár í senn en eftir að starfsmaður hafi náð 80 ára aldri sé það veitt til eins árs í senn. Leyfið geti einnig verið tímabundið.2

Reglugerð um skilyrði sem heilbrigðisstarfsmaður þarf að uppfylla til að fá undanþágu til að veita heilbrigðisþjónustu á eigin starfsstofu eftir að 75 ára aldri er náð er nr. 620/2014. Samkvæmt 3. gr. hennar skal heilbrigðisstarfsmaður sem vill fá undanþágu eftir 75 ára aldur til að reka eigin starfsstofu vera andlega og líkamlega fær um að starfrækja þá starfsemi sem sótt er um undanþágu til og hafa viðhaldið þekkingu sinni, faglegri færni og tileinkað sér nýjungar. Í 4. gr. segir að umsókn skuli fylgja upplýsingar um tegund og umfang starfsemi síðustu fimm árin. Auk þess skuli fylgja umsókn læknisvottorð sem votti að umsækjandi sé andlega og líkamlega fær um að stunda þá starfsemi sem sótt er um undanþágu til. Loks skal umsækjandi leggja fram yfirlit og gögn um endurmenntun, námskeið og annað til staðfestingar því með hvaða hætti hann hefur viðhaldið þekkingu sinni, faglegri færni og tileinkað sér nýjungar síðastliðin fimm ár. Þá er landlækni skv. 5. gr. heimilt að kalla umsækjanda til viðtals.

Athygli LÍ var nýlega vakin á því að Embætti landlæknis hefur breytt fyrri framkvæmd og krefst þess nú að heilbrigðisstarfsmaður í þessum sporum undirgangist læknisskoðun hjá öldrunarlækni. Áður dugði læknisvottorð frá t.d. heimilislækni. LÍ telur þá kröfu mun strangari en laga- og reglugerðarákvæði setja og sendi heilbrigðisráðherra bréf um málið 31. maí 2017. Svar hefur ekki borist en LÍ hefur fengið bréf frá ráðuneytinu um að erindið sé í vinnslu.

Þá veit LÍ að EL ætlast til að fá með umsögn skýr gögn um endurmenntun sem heilbrigðisstarfsmaður stundar á tímabilinu 70-75 ára. Ef heilbrigðisstarfsmanni er ómögulegt að leggja fram nein slík gögn er framlenging ekki heimiluð.

LÍ vill því vekja athygli lækna á þessu atriði og beina þeim eindregnu tilmælum til lækna eldri en sjötugra sem reka eigin starfsstofu og hafa hug á því að halda því áfram eftir að 75 ára aldri er náð að gæta þess vandlega að stunda virka endurmenntun og hafa allar upplýsingar skjalfestar. Hér ræðir um þátttöku í læknaráðstefnum utanlands eða innanlands (t.d. Læknadögum), þátttöku í reglulegum fræðslufundum sérgreinafélags viðkomandi læknis og fleira af sambærilegum toga.

 

 

1 Frumvarp til laga um heilbrigðisstarfsmenn, 147. mál, þskj. 147, skýringar við 26. gr. frumvarpsins. Vefútgáfa Alþingistíðinda, althingi.is/altext/140/s/0147.html - ágúst 2017.
 
2. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um heilbrigðisstarfsmenn, nr. 34/2012 (starfsheiti, aldursmörk, gjaldtaka), 378. mál, þskj. 697. Vefútgáfa Alþingistíðinda, althingi.is/altext/143/s/0697.html - ágúst 2017.  

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica