09. tbl. 103. árg. 2017
Umræða og fréttir
Starfræn myndgreining og æxlamiðuð lyf
Samtök norrænna röntgenlækna og Félag íslenskra röntgenlækna stóðu fyrir veglegu þingi hér á landi 29. júní – 1. júlí í samstarfi við Félag geislafræðinga. Maríanna Garðarsdóttir, formaður Félags íslenskra röntgenlækna og forseti Samtaka norrænna röntgenlækna, hafði veg og vanda af skipulagningu þingsins, ásamt góðu fólki úr áðurnefndum félögum, en yfir 460 manns frá 33 löndum sóttu þingið. Meginþema þingsins voru hversdagslegar áskoranir en fyrirlestrar og umræður spönnuðu einnig margt annað, enda stöðugar nýjungar og framfarir á þessum vettvangi læknavísindanna.
Svipmyndir frá fjölmennu þingi röntgenlækna sem haldið var í Hörpu fyrr í sumar.
Maríanna Garðarsdóttir formaður Félags íslenskra röntgenlækna. Mynd: Olga Björt Þórðardóttir
Meðal þess sem var fjallað um á þinginu var skimun fyrir lungnakrabbameini, málefni sem Maríanna segir að sé ofarlega á baugi núna hjá röntgenlæknum víða um heim. „Ungur Dani, Haseem Ashraf sem nú starfar í Osló, hefur verið að rannsaka skimun fyrir lungnakrabbameini og það er almennt mælt með að byrjað verði á því hér á landi sem og annars staðar hjá reykingafólki til að lækka dánartíðni, en að mörgu er þó að hyggja eins og við skimanir almennt.
Annað málefni sem vakti mikla athygli og hefur verið ofarlega á baugi er notkun gadolinium skuggaefnis við segulómun. Emanuel Kanal, bandarískur fyrirlesari, fræddi viðstadda um uppsöfnun þess í umhverfinu og mögulega uppsöfnun þess í líkamanum, en það hefur til dæmis fundist í nokkrum stöðuvötnum í Bandaríkjunum vegna mikillar notkunar. Sem betur fer eru alltaf ný skuggaefni í þróun og stöðugt er fylgst með áhrifum þessara efna, sem í raun eru lyf, á sjúklinga okkar.
Við höfðum eitthvað fyrir alla svo að allir gætu tekið eitthvað með sér heim. Bæði var fjallað um flókna og tæknilega hluti og einnig sjúklinginn og líðan hans meðan á myndatöku stendur, menntunarmál og starfsþróun svo að eitthvað sé nefnt. Stór hluti myndgreiningarráðstefna er alltaf tæknisýningin, en vegna þess hve erfitt og dýrt er að flyta stór tæki til og frá Íslandi þá var ekki mikið um tæki á sýningunni en þar voru þó nokkur fyrirtæki, bæði innlend og erlend, að kynna spennandi nýjungar.“
Gott ár í tækjaþróun
Aðspurð segir Maríanna að íslenskar röntgendeildir séu alveg þokkalega tækjum búnar miðað við nágrannalöndin, þótt Landspítalinn hafi lengi verið dálítið á eftir því tæki séu dýr og rekstrarkostnaður hár. „Á þessu ári er þó mikið að gerast í þeim efnum hér á landi og einna helst er það að þakka Íslenskri erfðagreiningu sem hefur komið sterk inn varðandi tækjakaup fyrir spítalann. Í lok þessa árs ættum við því að vera komin á par við löndin í kringum okkur, en við megum þó ekki slaka á, því það þarf að vera stöðug endurnýjun til að halda í við þróunina.“
Jáeindaskanninn brátt í notkun
Eins og alþjóð veit gaf Íslensk erfðagreining Landspítalanum nýjan jáeindaskanna og var hann settur upp í lok síðasta árs. „Mikil vinna hefur átt sér stað í tæknilegum atriðum frá því í janúar, framleiðslu lyfja og þjálfun starfsfólks. Við erum að vona að jáeindaskanninn verði tekinn í notkun á næstu tveimur til þremur mánuðum og það er gríðarlega spennandi,“ segir Maríanna og bætir við að einnig sé von á fleiri góðum fréttum á næstu vikum og mánuðum. „Fyrir okkur sem vinnum á háskólasjúkrahúsi sem viljum vera á pari við aðra þá verður þetta mikil breyting. Fyrir utan það að þurfa ekki að leggja það á sjúklingana okkar, ofan á allt annað, að fara úr landi í jáeindaskanna.“
Minni aukaverkanir fyrir sjúklinga
Maríanna viðurkennir að líf röntgenlækna snúist um tæki og tól og myndgreiningardeildir séu líklega dýrastar í rekstri á hverjum spítala. Viðhald sé einnig mjög dýrt. „Það er þó í auknum mæli farið að framkvæma svokallaða starfræna myndgreiningu. Þá er starfsemi líffæranna skoðuð. Læknar eru komnir meira út í að skoða erfðafræði krabbameina og við skoðum ekki bara æxli og mælum stærð þeirra heldur tökum einnig sýni úr þeim til að skoða arfgerð þeirra. Myndgreiningin verður því í framtíðinni miðuð meira út frá starfsemi æxla en stærð og staðsetningu. Það er komið mikið af lyfjum í krabbameinslækningum sem miða að því að ráðast á ákveðin gen eða ákveðna arfgerð fruma. Sýni þurfa því að vera miðuð að því að geta fundið sértæk lyf sem hafa betri verkun og vonandi minni aukaverkanir fyrir sjúklinga. Það er framtíðin,“ segir Maríanna að endingu.