09. tbl. 103. árg. 2017

Ritstjórnargrein

Heimilislækningar - ný viðfangsefni byggð á sígildum kjarna

Emil L. Sigurðsson prófessor í heimilislæknisfræði‚ Læknadeild Háskóla Íslands‚ Yfirlæknir á þróunarsviði Heilsugæslu höfuðborgarsvæðis‚ læknir á Heilsugæslunni Sólvangi‚ Hafnarfirði

doi: 10.17992/lbl.2017.09.148

20. Norræna þing heimilislækna var haldið í Reykjavík í júní s.l. Fagfélög norrænna heimilislækna hafa staðið fyrir útgáfu vísindatímarits, Scandinavian Journal of Primary Health Care, frá árinu 1982. Í samvinnu við fræðasvið heimilislækna hafa félögin staðið fyrir heimilislæknaþingum annað hvert ár frá árinu 1979. Það hefur því komið í hlut Félags íslenskra heimilislækna í samvinnu við fræðasvið heimilislæknisfræðinnar við Háskóla Íslands að halda þingin á 10 ára fresti, síðast í júní síðastliðnum. Þátttakendur voru tæplega 1.500, sem er metþátttaka, en þingið var haldið í Hörpu dagana 14. – 16. júní.

Þema þingsins var: „FROM THE CORE – Changes and Challenges in Primary Care“. Til þingsins var boðið 7 fyrirlesurum sem fluttu sína kjarnafyrirlestra, kynntar voru rúmlega 300 rannsóknir frá tæplega 30 þjóðlöndum auk þess sem haldnar voru fjölmargar vinnustofur og umræðufundir.

Heimilislæknar standa frammi fyrir afar ögrandi framtíðarverkefnum. Einstaklingum með fjölsjúkdóma fer fjölgandi, sem og þeim sem eru á fjöllyfjameðferð, á sama tíma og rætt er um ýmiss konar skimanir sem geta oft á tíðum orkað tvímælis. Lífsstílstengdir sjúkdómar eins og offita og vaxandi fjöldi einstaklinga sem greinast með sykursýki verða viðfangsefni heimilislækna og reyndar þjóðfélagsins í heild í náinni framtíð. Rauði þráðurinn á þessu norræna þingi var umræða um ofangreinda þætti ásamt ofgreiningum, oflækningum og ómarkvissri notkun heilbrigðiskerfisins.

Grunnstoðir heimilislæknisfræðinnar eru í föstum skorðum. Kjarnaatriðin, með samfellu og persónulegri þjónustu, eru sígild, svo og gott aðgengi að gæðaþjónustu sem mætir þörfum einstaklinga og nútímasamfélags. Hins vegar eru ýmis atriði sem kalla á nýja nálgun heimilislækna þegar kemur að nýjum verkefnum á 21. öldinni. Heimilislæknar verða að taka meiri þátt í og hafa áhrif á skipulag heilbrigðiskerfisins, þeir eru oft í betri stöðu en flestir aðrir til að átta sig á hvar heilbrigðisþjónustan virkar vel og hvar þarf að gera betur. Þar af leiðandi er mikilvægt að þeir verði virkari í umræðu og leggi sitt af mörkum við stefnumótun heilbrigðiskerfisins.

Mikilvægi félagslegra þátta eins og atvinnu og menntunar fyrir heilsufar var talsvert til umræðu á þinginu. Ennfremur var fjallað talsvert um þann ójöfnuð sem víða viðgengst hvað varðar aðgengi að heilbrigðisþjónustu.

„Að rannsaka heilbrigt fólk of mikið og sinna síður þeim sem raunverulega eru veikir er slæm heilbrigðisþjónusta sem hefur neikvæð áhrif bæði á þá sem eru sjúkir og þurfa meðferð en ekki síður á hina sem eru heilbrigðir“, sagði Margaret McCartney, heimilislæknir frá Skotlandi.1  Hún fjallaði ennfremur um s.k. iðnaðarlækningar þar sem læknum er gert að merkja við fyrirfram ákveðin atriði sem þó hafa ekki endilega með þarfir sjúklingsins að gera. Oft á tíðum leiðir þetta fyrirkomulag til þess að framkvæmdar eru ákveðnar rannsóknir sem gagnast skjólstæðingunum lítið eða ekkert.

Ómarkviss og of mikil notkun lyfja var talsvert rædd á þinginu og ljóst að heimilislæknar vilja vera í fararbroddi þegar kemur að markvissri notkun á lyfjum og rannsóknum þannig að fjármagn nýtist sem best án þess að slakað sé á gæðum þjónustunnar. Gagnrýnin hugsun og leit að haldgóðum, traustum gögnum um gagnsemi ákveðinna meðferða og rannsókna eru lykilatriði í viðleitni nútíma heimilislækninga til að ná þessum markmiðum.

Peter Vedsted, prófessor í heimilislækningum í Árósum í Danmörku, fjallaði um hlutverk heimilislækna og heilsugæslu í greiningu krabbameina. Hann lagði áherslu á nauðsyn þess að greina æxlin snemma og þá staðreynd að flestar greiningar á krabbameinum hæfust í heilsugæslunni. Hann brýndi heimilislækna til að halda vöku sinni og vera á varðbergi gagnvart einkennum illkynja sjúkdóma.

Að afloknu þessu fjölmennasta norræna heimilislæknaþingi sem haldið hefur verið hingað til er ljóst að mikill hugur er í norrænum heimilislæknum. Þingið einkenndist af frábærum kjarnafyrirlestrum sem snertu ýmsar áskoranir nútíma heimilislækninga, kynningu á fjölbreyttu vísindastarfi og samheldni norrænna heimilislækna.

Með öldrun þjóða, notkun fleiri lyfja, fjölgun sjúklinga með langvinna sjúkdóma og fjölsjúkdóma er þörfin fyrir vel skipulagða og vel mannaða heilsugæslu gríðarlega mikilvæg. Til þess að að þessi grunnþjónusta standi undir nafni þurfa heilbrigðisyfirvöld á Íslandi að átta sig á mikilvægi þess að allir landsmenn hafi sinn heimilislækni og að ekki ríki sá ójöfnuður í þjónustu sem blasir við í dag.

Þing sem þessi gefa þátttakendum veganesti og hvatningu til að halda áfram gæðaþróun og vísindastarfi en er ennfremur hvatning til að beita sér gagnvart ráðamönnum varðandi uppbyggingu og eflingu heilsugæslunnar.

1. nordicgp2017.is/

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica