06. tbl. 103. árg. 2017

Umræða og fréttir

Frá öldungadeild Læknafélags Íslands. Magnús B. Einarsson

Öldungadeildin var stofnuð 7. maí 1994. Hún er félagsskapur lækna sem orðnir eru 60 ára og eldri. Tilgangur félagsins er að vinna að málefnum eldri lækna og viðhalda tengslum þeirra innbyrðis. Felst það starf í reglulegum fundum þar sem fram koma áhugaverðir fyrirlesarar, heimsóknum á staði og stofnanir og ferðalögum innan lands sem utan. Hefð er fyrir því að fyrirlestrar séu ekki um læknisfræðileg efni, en stundum fljóta með fyrirlestrar tengdir læknum á einhvern hátt. Fundarboð eru send í formi fréttabréfs í netpósti. Hefur það alveg gengið því okkar elstu félagar hafa haft einhver tök með að fá aðstoð við að ná í póstinn. Pósturinn fer bæði til allra lækna yfir sextugu og til skráðra félaga. Eru læknar þessir og gestir þeirra allir velkomnir á fundina. Að jafnaði hafa milli 40 og 70 manns sótt þá. Við höfum hist kl. 15.30 fyrsta miðvikudag hvers mánaðar í húsakynnum LÍ í Hlíðasmára 8 í Kópavogi. Á undan fundi eru veitingar sem hafa verið þær sömu árum saman, vínarbrauð og kaffi eða te  Síðan er fundur settur kl. 16.00 og er alltaf einhver fyrirlesari. Oftast eru fjörugar umræður í framhaldi.

Öldungadeildin hefur í öðru hverju blaði haft dálk þar sem sagt er frá ýmsu frá gamalli tíð, ýmist eigin upplifunum eða löngu látinna lækna. Þá er á innri vef Læknafélags Íslands vefsíða öldungadeildarinnar þar sem reglulega eru birtar tilkynnningar, fréttir, fundagerðir, ársskýrslur, ferðasögur og myndir.

Öldungadeildin hefur um langt árabil farið árlega í utanlandsferðir með leiðsögn og á hverju sumri hafa verið verið farnar ferðir innan lands á sögufræga staði og oftast einhverjir læknar heimsóttir í leiðinni. Þessar ferðir hafa verið fjölsóttar og mælst afar vel fyrir.

Fulltrúi öldungadeildarinnar hefur sótt aðalfundi Læknafélags Íslands og m.a. átt hlut að ályktunum. Eins var fyrir atbeina fyrrum formanns Sigurðar Þorvaldssonar rýmkað leyfi eldri lækna til að vinna á stofu.

Á 20 ára afmælishátíð félagsins sem haldin var í Skíðaskálanum í Hveradölum 2014 var Ásmundur Brekkan gerður að heiðursfélaga, en hann var einn aðalhvatamaður að stofnun öldungadeildarinnar og sá eini eftirlifandi. Hinir voru Árni Björnsson og Gunnlaugur Snædal. Á síðasta aðalfundi var svo Páll Ásmundsson gerður að heiðursfélaga. Páll hefur verið óþreytandi um langt árabil við að vinna öldungadeildinni gagn. Hefur hann ritstýrt síðum öldungadeildarinnar í Læknablaðinu og sett allt efni deildarinnar inn á innri vef Læknafélagsins og ritstýrt frá upphafi. Þá hefur hann oft annast fundarstjórn á aðalfundum og verið veislustjóri. Einnig hefur hann verið formaður stjórnar.

Stjórn öldungadeildar er kosin til tveggja ára í senn, hana má endurkjósa einu sinni (sbr. lög öldungadeildar sem sjá má á innri vefnum). Hefð er fyrir því að stjórnin sé endurkjörin og sitji þannig í fjögur ár. Á aðalfundinum í maí síðastliðnum var kosin ný stjórn, en hana skipa Kristófer Þorleifsson formaður, Jóhannes M. Gunnarsson ritari, Guðmundur Viggósson gjaldkeri, Margrét Georgsdóttir meðstjórnandi auk Kristrúnar R. Benediktsdóttur, sem á eftir eitt ár af kjörtímabili sínu sem meðstjórnandi.

Í fráfarandi stjórn voru Magnús B. Einarson formaður, Þórarinn E. Sveinsson ritari og Hörður Alfreðsson gjaldkeri. Meðstjórnendur voru Guðrún Agnarsdóttir og Kristrún R. Benediktsdóttir.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica