06. tbl. 103. árg. 2017

Umræða og fréttir

Úr penna stjórnarmanna LÍ. Lagt við hlustir. Arna Guðmundsdóttir

Í yfirstandandi stefnumótunarvinnu vegna félagsuppbyggingar Læknafélags Íslands hefur mikil áhersla verið lögð á að hlusta eftir ólíkum sjónarmiðum mismunandi hópa lækna. Skemmst er frá því að segja að verkefninu hefur verið sýndur mikill áhugi. Okkar sem vorum skipuð í þessa vinnu beið ekki létt verk. Enginn vafi er á því að læknastéttin er á einu máli um að tímabært sé að staldra við og endurmeta bæði samstarf okkar og hagsmunagæslu. Sem betur fer virðist einnig nokkuð ljóst að í aðalatriðum er eining um hvert skuli stefnt og hvernig.

Í stýrihóp voru skipuð, auk undirritaðrar, Björn Gunnarsson læknir frá Heilbrigðisstofnun Vesturlands og Tryggvi Helgason læknir. Við fengum Kristján Vigfússon kennara og ráðgjafa frá Háskólanum í Reyjavík til liðs við okkur og tryggðum okkur þannig í senn þaulreyndan sérfræðing á sviði stefnumótunar og hlutlausan aðila til að sjá skóginn fyrir trjánum án nokkurra sérhagsmuna. Jafnframt hafa formaður og starfsmenn Læknafélags Íslands tekið þátt í þessari vinnu.  

Vinnunni var í grófum dráttum skipt í þrennt. Í fyrsta lagi að ræða við sem allra flesta félagsmenn og forystumenn þeirra ásamt því að skoða fyrirkomulag systurfélaga okkar á Norðurlöndunum. Í öðru lagi yrði farið í greiningu á þeim gögnum  sem aflað yrði og dregnar ályktanir af þeim. Og loks yrðu lagðar fram tillögur um breytingar á félaginu og þær kynntar og vonandi innleiddar.

Tekin hafa verið ítarleg viðtöl við formenn svæðafélaga, formenn helstu sérgreinafélaga, formenn og fulltrúa í samninganefndum LÍ og LR, núverandi og fyrrum formenn Læknafélagsins, framkvæmdastjóra, lögfræðing og annað starfsfólk félagsins og aðra þá er hafa látið sig félags- og kjaramál félagsins varða í gegnum tíðina. Auk þessa hafa verið tekin viðtöl við fólk í forsvari fyrir önnur hagsmunasamtök hér á landi. Samtals hafa verið tekin á fimmta tug viðtala og fjölmargir upplýsinga- og samráðsfundir verið haldnir. Auk þessa var sérfræðingur nefndarinnar til viðtals á Læknadögum 16.-20. janúar fyrir þá lækna sem vildu koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Loks var öllum félagsmönnum kynnt verkefnið á vef félagsins og þeim sendur tölvupóstur og boðið að senda inn athugasemdir og tillögur um starfsemi félagsins í tengslum við þessa vinnu.

Í viðtölum var meðal annars spurt um skipulag félagsins, þjónustu, fjármál, framtíðarsýn og æskilegt hlutverk. Það er skemmst frá því að segja að almenn ánægja er með rekstur félagsins, starfsfólk og þjónustu skrifstofu. Viðmælendur töldu að félagið ætti að sinna bæði starfskjaramálum og fagmálum en hins vegar mætti skilja þessa hluta betur að í rekstrinum og skipulagi. Nánast allir sem teknir voru tali vildu breyta núverandi fyrirkomulagi sem byggir á svæðaskipulagi og miklum fjölda aðildarfélaga. Einnig var einhugur um að setja ætti félaginu skýrara hlutverk sem stefnumótandi afl gagnvart stjórnvöldum. Fram kom hjá öllum viðmælendum að gífurlega mikilvægt væri að viðhalda samtakamætti lækna en það væri grunnforsenda fyrir starfsemi félagsins.

Í gögnunum má enn fremur lesa að fleiri eru á því að viðhalda fulltrúalýðræði líkt og nú er fremur en að innleiða fyrirkomulag sem eingöngu byggði á einstaklingsaðild. Einnig má sjá vilja fyrir því að unnið verði í auknum mæli út frá heildarhagsmunum með stærri aðildareiningum þar sem valdahlutföll í félaginu yrðu jafnari en áður. Sterkari einingar sem skipulagðar væru út frá hagsmunum myndu í senn efla starfið og auðvelda daglega markmiðasetningu. Langflestir eru þeirrar skoðunar að skipulag byggt á svæðum sé úrelt og ekki að virka sem skyldi.  

Hópurinn mun leggja til að aðildarfélög verð fjögur, félag almennra lækna, félag stofulækna, félag heimilislækna og félag sjúkrahúslækna. Þeir sem gætu tilheyrt fleiru en einu félagi verða að velja hvar þeir telja sínum hagsmunum best borgið. Þetta skiptir einkum máli hvað varðar atkvæðavægi á aðalfundi LÍ og setu í stjórn félagsins en gert er ráð fyrir að hvert aðildarfélag eigi tvo menn í stjórn, óháð fjölda félagsmanna. Atkvæðavægi á aðalfundi fer hins vegar eftir fjölda félagsmanna á svipaðan hátt og nú er. Komið hafa fram hugmyndir frá Skurðlæknafélagi Íslands varðandi lækna sem starfa að hluta á sjúkrahúsi og að hluta á stofu, um að þeir geti haft helming atkvæðavægis í hvoru aðildarfélagi, stofulækna annars vegar og sjúkrahúslækna hins vegar. Stýrihópurinn tók ekki endanlega afstöðu til þessa máls.

Ég vil ítreka þakkir mínar til allra þeirra sem gefið hafa sér tíma til að taka þátt í þessari vinnu. Þessi mikla þátttaka félagsmanna LÍ er grunnurinn að þeirri uppstokkun sem nefndin leggur til. Vel ígrunduð sjónarmið úr bæði grasrót og forystusveit lækna hafa mótað stefnuna. Þess vegna er ástæða til bjartsýni um góðar viðtökur þegar tillögurnar verða teknar til afgreiðslu á aðalfundi félagsins á haustmánuðum.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica