05. tbl. 103. árg. 2017

Umræða og fréttir

Frá öldungadeild LÍ. Minningar um kynþáttamisrétti. Tryggvi Ásmundsson

                                     
                                                                                Delano Meriwether 

Ég var nýlega að skoða gamlar ljósmyndir og rakst þá á mynd af unglæknum á lyflækningadeild Duke-háskólasjúkrahúsinu sem tekin var fyrir nákvæmlega 50 árum. Á myndinni eru 57 læknar. Ein kona, enginn blökkumaður og enginn af asískum uppruna. Allt hvítir karlmenn og langflestir í þeim hópi sem ameríkumenn nefna WASP (white anglo-saxon protestant). Í læknaskólanum var þó einn blökkumaður sem hafði innritast haustið 1963. Var hann fyrstur svertingja til að stunda þar nám. Ég kynntist þessum strák ágætlega í starfi á spítalanum. Hann heitir Delano Meri-wether, kallaður Del af vinum og vandamönnum. Hann var, og er vonandi enn, fágað glæsimenni. Prýðilegur námsmaður. Hann kom frá Suður-Karólínu þar sem faðir hans var skólastjóri. Fram að útskrift úr high school var hann í skólum eingöngu fyrir svarta. Að vísu hafði gengið hæstaréttardómur árið 1954 sem bannaði aðskilnað í skólum, en sá dómur var algjörlega hundsaður víða í Suðurríkjunum. Lögin sem bönnuðu aðskilnað hvítra og svartra í Bandaríkjunum tóku ekki gildi fyrr en 1964.

Del kynntist fyrst hvítum skólafélögum þegar hann fékk styrk til náms við Michigan State University. Hann kláraði college á þremur árum og sótti þá um vist í læknaskólum í Norðurríkjunum og fékk hvarvetna jákvæð svör. Faðir hans vildi hins vegar að hann færi í nám við Duke--háskólann. Svertingjar yrðu að komast til náms í skólum Suðurríkjanna. Hann kom til Durham seint á sunnudegi til að kynna sér aðstæður við skólann og það var búið að loka matsal háskólans. Hann var snyrtilega klæddur, í jakkafötum með bindi, og gekk inn á veitingastað í nágrenninu. Þar tók á móti honum kona sem tjáði honum strax að hér fengi hann enga þjónustu. Hann ætlaði að fara að hreyfa mótmælum, en eigandi staðarins var þar nærstaddur. Hann var fyrrum fótboltaþjálfari á Duke og tilkynnti honum að ef hann yfirgæfi ekki staðinn tafarlaust yrði honum hjálpað út! Hann fór svangur að sofa, en fór þó næsta dag að kynna sér skólann. Eitt það fyrsta sem hann sá var að þar voru aðskilin klósett, sér fyrir svarta og fyrir hvíta. Eftir að hann hóf nám voru þessar merkingar þó fjarlægðar. Svo var hins vegar ekki á spítalanum. Þar varð hann að fara á snyrtingu fyrir svarta. Aldrei varð ég var við að honum væri sýnd ókurteisi. En ég sá vitanlega ekki allt, og hann ræddi þetta ekki. Einu sinni sagði hann mér þó að ég væri eini maðurinn á staðnum sem virtist algjörlega afslappaður í návist hans.

Þegar ég hóf störf á Duke í mars 1965 var búið að fjarlægja merkingar af klósettum og þau heimil jafnt svörtum sem hvítum. En hvítir og svartir sjúklingar voru alveg aðskildir, sér deildir fyrir svarta og hvíta. Þetta var lögbrot og háskólanum mun hafa verið tilkynnt að yrði þessu ekki kippt í lag tafarlaust myndi skólinn missa alla styrki frá Washington. Uppstokkun fór fram á einum degi og ekki getið um nein átök í því sambandi.

Del útskrifaðist frá Duke með góðum vitnisburði vorið 1967 og ég spurði hann hvort hann kæmi ekki í framhaldsnám á spítalann. Hann horfði á mig furðu lostinn. Sagðist þó ekki ætla að reiðast yfir svona vitlausri spurningu, ég væri Íslendingur og ekki von að ég botnaði neitt í neinu. Fyrsti svarti unglæknir hóf ekki störf á Duke fyrr en 1969. Ég hef ekki hitt Del eða haft samband við hann síðan vorið 1967. En 1971 sá ég í Time grein um 28 ára gamlan blóðsjúkdómasérfræðing sem væri nýfarinn að stunda spretthlaup með mjög góðum árangri og reyndist vera Del. Hann starfaði við rannsóknir í Baltimore og var eitt sinn að horfa á spretthlaupara í sjónvarpinu með konu sinni. „Ég get alveg hlaupið svona hratt,“ sagði hann við konuna. Og hann lét ekki sitja við orðin tóm, en fór að æfa hlaup. Hann var ekki í neinu íþróttafélagi og stalst til að æfa á hlaupabraut Johns Hopkins-háskólans eftir að orðið var dimmt. Hann keppti á móti 1971 og af því hann var ekki í neinu félagi var hann klæddur í spítalaskyrtu og gula sundskýlu og með axlabönd! Hann hljóp 100 yarda á 9 sekúndum og var annar maður í Bandaríkjunum til að ná þeim tíma. Að vísu var meðvindur svo það var ekki viðurkennt. Engu að síður var hann valinn í Ólympíulið Bandaríkjamanna 1972 og 1976 en gat í hvorugt skiptið keppt vegna meiðsla. Hann mun enn eiga Bandaríkjamet í 200 m hlaupi í aldursflokki 35-39 ára, 20,8 sekúndur.

Starfsferill hans var óvenjulegur. Eftir sérnám í blóðsjúkdómum og rannsóknarstörf tók hann meistaragráðu í Public Health við Johns Hopkins-háskólann. Síðan fékk hann stöðu hjá U.S. Public Health Service og var 1976 falið að sjá um fjöldabólusetningu gegn svínaflensu í Bandaríkjunum. 1983 fluttist hann til Suður-Afríku og gerðist trúboðslæknir. Voru þeir 6 og sinntu saman ríflega hálfri milljón íbúa. Hann starfaði einnig í Soweto, en flutti aftur heim til Bandaríkjanna 1990, skömmu áður en apartheid var aflétt í Suður-Afríku. Hann lét þess getið við heimkomuna að uppeldi í Suðurríkjunum hefði hjálpað sér að lifa við slíkt stjórnarfar. Eftir það sneri hann sér að bráðalækningum og býr í Potomac, rétt utan við Washington. Þess var minnst á Duke þegar 50 ár voru liðin frá innritun hans og mikið hóf haldið af því tilefni. Væntanlega hefur hann þá þurft að skreppa á snyrtingu og getað minnst þeirra tíma þegar það var ekki einfalt mál!

SaveÞetta vefsvæði byggir á Eplica