05. tbl. 103. árg. 2017

Umræða og fréttir

Erum regnhlíf fyrir margar undirsérgreinar - segir Kristín Huld Haraldsdóttir nýr formaður Skurðlæknafélags Íslands

 Það gengur á með stórafmælum læknafélaga. Í síðasta tölublaði var rætt við Davíð O. Arnar formann Félags lyflækna sem átti sjötugsafmæli í fyrra og nú komur í ljós að annað fjölmennt sérgreinafélag á stórafmæli á þessu ári. Skurðlæknafélag Íslands heldur sem sé upp á sextugsafmæli síðar á þessu ári. Læknablaðið tók forskot á afmælisveisluna og hitti að máli formann félagsins, Kristínu Huld Haraldsdóttur.

Já, við erum gamalgróið félag og ætlum að fagna afmælinu í haust, segir Kristín Huld. – Lengst af hefur félagið verið fagfélag skurðlækna og verið einskonar regnhlífarsamtök skurðlæknagreina en þeim hefur fjölgað mikið vegna aukinnar sérhæfingar. Félagsmenn eru núna rúmlega 100, þar af eru nokkrir heiðursfélagar sem ekki eru starfandi lengur, en eru enn í félaginu. En þrátt fyrir að við skiptumst í margar undirsérgreinar og vinnum á mismunandi stöðum og í ólíku umhverfi eigum við margt sameiginlegt, bætir hún við.

                                       
                                           Formaðurinn nýi fyrir skurðlækna, Kristín Huld Haraldsdóttir,
                                           búin til alls á skurðdeildinni í aðalbyggingu Landspíta  Hringbraut.

 

Kjaramálin eru stærsta verkefnið

Fyrir rúmum áratug varð þó sú breyting á starfi félagsins að það tók til sín samningagerð um kjör félagsmanna sinna en hún hafði fram að því verið í höndum Læknafélags Íslands.

Það varð nokkur órói meðal félagsmanna vegna óánægju með kjaramálin sem lauk með því árið 2006 að félagið dró sig út og tók að sér kjarasamningsgerð fyrir skurðlækna. Þannig er staðan enn og í rauninni er eitt helsta verkefni félagsins að vera stéttarfélag. Samningar okkar eru lausir núna í lok ágúst. Sjálfstæðið hefur gefið góða raun. Við teljum okkur hafa ákveðna sérstöðu, sérnám okkar er lengra en flestra annarra og starfsævin þar af leiðandi styttri.

Skurðlæknafélagið er líka fagfélag og við höldum vísindaþing í samstarfi við aðrar sérgreinar, svæfinga- og gjörgæslulækna, fæðinga- og kvensjúkdómalækna og hjúkrunarfræðinga í þessum greinum. Þingin eru haldin árlega og standa í tvo daga. Þau eru metnaðarfull með þátttöku erlendra fyrirlesara og góður vettvangur fyrir fólk úr þessum fagstéttum til að kynna rannsóknir sínar. Þarna stíga ungir vísindamenn á stokk í fyrsta sinn og þetta er mikil hátíð sem lyftir huga þeirra sem taka þátt. Þingin gegna stóru hlutverki í því að auka samheldni hópsins á tímum aukinnar sérhæfingar. En vissulega eru undirsérgreinarnar misvirkar frá ári til árs, segir Kristín Huld.

 

Mikil sérhæfing

Skurðlæknar starfa fyrst og fremst á sjúkrahúsunum og á einkastofum. – Mörg okkar eru með blandað stöðugildi, vinna að hluta til á stofu og að hluta á spítala, en einnig eru margir sem vinna eingöngu á stofu eða spítala. Þetta gerir regnhlífina enn mikilvægari. Félagið hugsar um okkur sem faghóp.

Það er vandamál hjá okkur að meðalaldur stéttarinnar hefur verið að hækka og er orðinn nokkuð hár. Nú er nokkuð stór hópur að komast á aldur og það gæti því reynst erfitt að fylla í skörðin. Sérhæfingin gerir það ekki auðveldara því sumar undirsérgreinanna eru svo fámennar að þær eru mjög viðkvæmar. Ísland er svo lítið land að við berum ekki mjög marga í hverri undirsérgrein. Annars vegar þarf að vera til staðar krítískur massi til að manna móttökur og vaktalínur á sama tíma og mikilvægt er að viðhalda breiddinni innan stéttarinnar. Ég er bjartsýn á að þetta vandamál leysist. Margt ungt og efnilegt fólk er á leið í sérnám og það skilar sér vonandi til baka, en til þess þurfum við að gera störfin hér aðlaðandi.

Reyndar er starfsheitið „almennur skurðlæknir“ nánast að hverfa samkvæmt nýlegri reglugerð. Þar erum við flokkuð niður í brjósthols-, bæklunar-, lýta-, kviðarholsskurðlækna og svo framvegis. Það heyrir eiginlega sögunni til að skurðlæknar starfi eins og almennir skurðlæknar gerðu áður, það er að sinna starfi mismunandi undirsérgreina. Þetta þurfum við að horfast í augu við varðandi uppbyggingu og heildarsýn á heilbrigðiskerfið.

Tæknin breytir starfinu

Talið berst að þeim umræðum sem orðið hafa um breytingar á skipulagi LÍ. Hvað finnst skurðlæknum um þær hugmyndir sem þar eru viðraðar?

Þetta hefur að sjálfsögðu verið rætt í félaginu en við bíðum átekta og höfum engar ákvarðanir tekið um framhaldið. Við eigum aðild að LÍ og teljum þá aðild mikilvæga. LÍ er stóra regnhlífin okkar og við verðum að sjá til hvernig aðkomu okkar að því verður háttað eftir breytingarnar. Staða félagsins í kjarasamningum er svipuð og LÍ að því leyti að innan okkar raða eru tveir hópar, sjálfstætt starfandi og sjúkrahúslæknar, og þeir eiga kannski ekki alltaf samleið. Skipulagsbreytingin á að styrkja hvorn hóp fyrir sig en við þurfum að hafa hag heildarinnar í huga. Félagið hefur unnið fyrir báða hópana og mikilvægt er að stuðla að víðtækri sátt, þannig verðum við sterk sem heild, segir Kristín Huld.

Það eru víða breytingar og skurðlæknar hafa ekki farið varhluta af þeirri miklu tæknivæðingu sem orðið hefur á starfssviði þeirra. Nú er æ stærri hluti aðgerða gerður í gegnum kviðsjá eða þjarka. Í mörgum tilvikum situr skurðlæknirinn úti í horni á skurðstofunni og hvergi blóð að sjá nema á skjánum fyrir framan hann. Hvernig líst skurðlæknum á þessar breytingar?

Já, nú sitja menn bara við skjá án þess að vera með hendur á sjúklingum. Skurðlæknar hafa tekið þessu vel. Auðvitað er þetta mikil breyting á mörgum sviðum. Áður voru gerðir stórir holskurðir en nú er málið leyst með þjarka eða kviðsjáraðgerðum. Þetta, ásamt flýtibataferlum, hefur haft veruleg áhrif á legutíma fyrir sjúklinga sem hefur styst mikið. Þessi nýju tæki opna marga nýja möguleika fyrir skurðlækna, með þeim er til dæmis hægt að útiloka áhrif handskjálfta og draga úr hreyfingum, öll fínhreyfing getur orðið mun betri. Þetta ásamt öðru hefur dregið úr hættu á ákveðnum fylgikvillum. Tækniþróunin mun halda áfram og það eru spennandi tímar framundan, ef til vill getur skurðlæknirinn verið á einum stað en sjúklingurinn á allt öðrum stað. Svo er enginn hætta á að skærin gleymist inni í sjúklingnum. Skurðirnir eftir kviðsjána eru of litlir!

Að öllu gamni slepptu þarf að fylgjast vel með tæknivæðingunni á spítölunum. Á mörgum vígstöðvum hefur verið gert vel. Það er átak í gangi á Landspítalanum í að endurnýja tækjakostinn en slíkt þarf sífellt að vera í gangi, þetta er eilífðarverkefni.

Kristín Huld er bjartsýn á framtíð stéttarinnar. – Þetta er spennandi starf og margt ungt og efnilegt fólk sem er að fara utan til framhaldsnáms eða er erlendis. Við tökum þeim fagnandi sem vilja koma og vinna hjá okkur. Starfið á auðvitað ekki við alla, en þá er bara að prófa sig áfram og sjá hvort þetta eigi við þá, segir Kristín Huld Haraldsdóttir formaður Skurðlæknafélags Íslands.

Save



Þetta vefsvæði byggir á Eplica