02. tbl. 103. árg. 2017

Umræða og fréttir

Sigvaldi Kaldalóns á Læknadögum 

Barnabarn tónskáldsins, Ester Kaldalóns, og Eiríkur Jónsson læknir og Fóstbróðir tóku tal saman.

                       


Páll Torfi Önundarson var feikilega ánægður með Aðalheiði Þorsteinsdóttur píanóleikara og Hildigunni Einarsdóttur söngkonu.

Margt skemmtilegt bar við á Læknadögum,  - samt var þar ekkert sem maður væri til í að hlusta á aftur, - nema ef vera kynni dagskráin um Sigvalda Kaldalóns (1881-1946) sem flutt var í hádeginu á mánudeginum í Norðurljósum, þótt hún hefði náttúrlega átt heima í Kaldalóni eðli málsins samkvæmt. Hana ætti eiginlega að flytja árlega, - það væri hægt að fjalla um Sigvalda lið fyrir lið og bræðurnir úr Fóstbræðrum hafa úr nægu efni að moða eftir hann til að syngja. Hann var náttúrlega læknir og Óttar Guðmundsson smíðaði dagskrána og rakti ævi hans og samskipti við Læknafélag Íslands, en félagið rak Kaldalóns úr sínum röðum árið 1929. Óttar fléttaði sérlega haganlega saman æviatriðum Kaldalóns og guðdómlegri tónlist hans. Ævisaga Sigvalda er mögnuð, hann gegndi læknisstarfi á Snæfjallaströnd við Djúp sem var og er afskekkt og alllangt utan þjónustusvæðis. Hann veiktist af taugaveiki 1918 og flutti sig um set, fyrst út í Flatey en síðan til Grindavíkur og gegndi Keflavíkurhéraði, og komu bæði Guðmundur Hannesson og Jónas frá Hriflu við þá sögu.

Meðfylgjandi myndir voru teknar við þetta tækifæri: – Árni Harðarson stýrði sérvöldum læknisfræðilega rétt tengdum félögum úr karlakórnum Fóstbræðrum sem sungu hverja perlu Kaldalóns af annarri, Á Sprengisandi, Suðurnesjamenn, Ave Maríu, Svanasöng á heiði, Þú eina hjartans yndið mitt, og fleiri.

VSÞetta vefsvæði byggir á Eplica