01. tbl. 103. árg. 2017

Umræða og fréttir

Minningar frá Landakotsspítala - um Tómas Árna Jónasson og Guðjón Lárusson

Landakotsspítali var einstakur staður og á sér merkan sess í sögu íslenskrar heilbrigðisþjónustu. Á leitarvefnum Wikipedia segir svo um Landakotsspítala: „Hann tók formlega til starfa árið 1902 og var aðalspítali Íslands og kennsluspítali Læknaskólans þangað til Landsspítalinn tók til starfa árið 1930. Í lok nítjándu aldar var krafan um sjúkrahús í Reykjavík mjög hávær. Þörfin var mikil. Bæjarstjórn Reykjavíkur var tilbúin að leggja til fé en Alþingi ekki. Árið 1901 kom tilboð frá St. Jósefssystrum í Landakoti um að reisa og reka fullkomið sjúkrahús í Reykjavík. Alþingi tók því tilboði fegins hendi en vildi þó hvorki veita kaþólikkum styrk eða lán til verkefnisins. Spítalinn var reistur 1902 fyrir söfnunarfé frá Evrópu.“

Sankti Jósefssystur reistu og ráku spítalann frá stofnun hans 1902 til 1977 þegar sjálfseignarstofnun tók við rekstrinum samkvæmt samningi við heilbrigðisyfirvöld. Þær fengu aldrei laun fyrir störf sín og unnu myrkranna á milli við að hjúkra sjúklingum. Þær urðu að gæta ítrustu hagkvæmni og sparsemi til að ná endum saman. Þeir læknar sem störfuðu við Landakotsspítala höfðu engin föst laun heldur var þeim greitt fyrir unnin verk. Þeir lögðu inn sína sjúklinga eða tóku við bráðatilfellum og báru ábyrgð á sjúklingunum frá því að þeir lögðust inn og til útskriftar. Þannig skapaðist samfella í stundun og ákvarðanatöku. Þessu stundunar- og greiðslukerfi hefur vafalaust verið komið á af systrunum og fyrstu læknunum í sameiningu til þess að nýta fjármuni sem best. Með tímanum þróaðist einstök menning á Landakoti sem snerist um ábyrgð, umhyggju og ástundun við sjúklinga. Yfir starfseminni sveif andi systranna og blessun Guðs. Allir sem störfuðu á Landakoti hugsa til baka með stolti að hafa fengið að taka þátt í starfinu þar.

Tilefni þessara skrifa nú er að nýlega hafa fallið frá tveir mætir læknar, þeir Tómas Árni Jónasson og Guðjón Lárusson, sem voru burðarásar í starfsemi lyflækningadeildar Landakotsspítala. Á meðfylgjandi mynd sjást þeir félagar ásamt dr. Bjarna Jónssyni við eitthvert hátíðlegt tækifæri. Myndin gæti verið tekin í kapellunni sem var einnig fræðslu- og samkomusalur spítalans. Mér þykir líklegt að Bjarni hafi sagt þeim einhverja skemmtilega eða ögrandi sögu og þeir haft gaman af allir þrír. Bjarni var ótvíræður leiðtogi læknanna meðan hans naut við en starfslok hans og stofnun sjálfseignarstofnunar fór nokkurn veginn saman. Systurnar héldu áfram störfum þótt reksturinn væri ekki lengur á þeirra ábyrgð.


Frá vinstri: Tómas Árni Jónasson, Guðjón Lárusson og Bjarni Jónsson á góðri stund á Landakoti. Myndin er líklega tekin 1977 í hófi til heiðurs St. Jósefssystrum.

Mín fyrstu kynni af Landakotsspítala voru sumarið 1974 þegar ég réði mig á næturvaktir á skurðdeildum spítalans eftir 3. ár í læknanámi. Var þá ábyrgur fyrir þremur hjúkrunardeildum með einn sjúkraliða á hverjum gangi mér til aðstoðar. Það voru tveir kandídatar í húsinu, einn fyrir skurðlækningar og annar fyrir lyflækningar, og það var nóg að gera. Sjúklingar lyflækna lágu einnig á þessum deildum og kynntist ég þeim lítillega á vöktunum. Eftir útskrift úr læknadeild 1977 fór ég beint á Landakot á kandídatsár á skurðdeildina. Þá var sjálfseignarstofnunin að taka við spítalanum og mér eru minnistæðir fundir um það efni með þátttöku forsvarsmanna þjóðarinnar. Það var samhugur meðal allra að reka spítalann áfram í óbreyttri mynd eftir að systurnar létu af stjórn og jafnvel áform um að sækja fram með viðbyggingu og fleira. Landakot var spítali sem öllum þótti vænt um og vildu varðveita og efla. Árið 1986 kom ég aftur til starfa á lyflækningadeild og gjörgæsludeild á Landakoti eftir framhaldsnám. Nú fór í hönd framúrskarandi tími. Ég kynntist einvalaliði lækna, hjúkrunarfræðinga og annars starfsfólks á Landakoti.

Tómas Árni Jónasson var lyflæknir og meltingarsérfræðingur sem hafði hlotið frábæra þjálfun á Duke University í Norður-Karólínu sem hefur verið meðal fremstu læknaskóla í Bandaríkjunum. Tómas var einstakt ljúfmenni og frábær fagmaður og kennari. Hann var dósent við læknadeild og skipulagði kennslu læknanema á lyflækningadeildinni. Það var ánægja að fá að taka þátt í því með honum en allir sérfræðilæknar stunduðu kennslu af miklum áhuga og var námskeiðið í lyflækningum á Landakoti eftirsótt af stúdentum og kandídatsárið líka. Tómas var að öllu leyti góð fyrirmynd fyrir unga nemendur jafnt og sérfræðilækni eins og mig.

Guðjón Lárusson hlaut sína framhaldsmenntun í lyflækningum og innkirtlasjúkdómum á Mayo Clinic í Rochester, Minnesóta. Hann var mjög snjall maður og nálgun hans við klínískt viðfangsefni var skipulögð og öguð. Hann var framúrskarandi fær í greiningu erfiðra tilfella og hafði mjög fágaða framkomu gagnvart sjúklingum og samstarfsfólki. Fyrir utan okkar samskipti í lækningum á Landakoti þar sem hann kenndi mér margt gagnlegt, naut ég þess að ræða við hann um margvíslega hluti og ekki síst tónlist. Guðjón hafði sérstakan áhuga á klassískri tónlist og mörgu að miðla í þeim efnum. Hann hafði mjög ákveðnar skoðanir á tónskáldum og flytjendum og hafði stúderað þetta áratugum saman. Hann benti mér á að besta hljómsveit allra tíma væri líklega Philadelphia Orchestra með Eugene Ormandy við stjórnvölinn og hef ég síðan eignast margar úrvals upptökur með þeim. Hann taldi sig vera meðal þeirra fyrstu hér á landi sem kunnu að meta sinfóníur Gustavs Mahler, væri „Mahlerít númer eitt“. Þá hafði hann sérstakt dálæti á píanósnillingnum Wladimir Horowitz og sagði gjarna „en það er eitthvað sérstakt við þennan karl“. Hann var ekki einn um þá skoðun.

Á Landakoti ríkti samband milli sérfræðilæknanna sem einkenndist yfirleitt af trausti og virðingu. Menn sinntu sjúklingunum af alúð, voru aðgengilegir fyrir ráðgjöf, og gengu yfirleitt stofugang á hverjum degi, einnig um helgar. Fræðslufundur læknaráðs var á laugardagsmorgnum kl. 9 og var ætíð góð mæting á þá fundi. Landakot var með símenntunarkerfi sem gerði kröfu til þess að menn uppfylltu ákveðin skilyrði með fundarsókn og þátttöku í erlendum og innlendum læknaþingum. Eftir laugardagsfundi og stofugang hittust menn í kaffistofunni á 6. hæð spítalans og ræddu um landsins gagn og voru það oft skemmtilegar umræður. Við fráfall okkar góðu kollega Tómasar Árna og Guðjóns rifjast upp fjársjóður minninga sem er okkur sem störfuðum með þeim á Landakoti ennþá hvatning til dáða.

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica